Þolinmæði Moggans er á þrotum. Guðrún Hafsteinsdóttir, nýr formaður Sjálfstæðisflokksins, veldur sýnilega miklum vonbrigðum. Í Mogganum í gær skrifar Andrés Magnússon grein um vonbrigðina. Ekki fer á milli mála að á Mogganum er enga þolinmæði að finna.
„Hrifningin með nýja forystu Sjálfstæðisflokksins er mjög hófleg samkvæmt skoðanakönnun Maskínu, aðeins 19% telja að hún hafi staðið sig vel, en í hópi stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins telja hins vegar 59% að hún hafi staðið sig vel.
Þegar litið er til allra svara í könnuninni er niðurstaðan mjög dræm. Meirihlutinn eða 53% telur að hin nýja flokksforysta undir formennsku Guðrúnar Hafsteinsdóttur hafi beinlínis staðið sig illa, 28% að hún hafi verið í meðallagi, en 19% vel sem fyrr segir.“

„Það er þó ekki svo að þau 19% séu öll hæstánægð…“
„Könnunin var gerð fyrir hlaðvarpið Komið gott! í umsjón þeirra Ólafar Skaftadóttur og Kristínar Gunnarsdóttur. Það að spyrja um forystuna rímar vel við yfirlýsta ritstjórnarstefnu hlaðvarpsins, að horfa frekar á manninn en málefnin.
Þegar litið er til heildarniðurstaðna verður þó að taka með í reikninginn að stuðningsmenn annara flokka eru ólíklegir til þess að lýsa ánægju með frammistöðu sjálfstæðismanna, en samkvæmt könnun Maskínu er Sjálfstæðisflokkurinn nú einnig með 19% fylgi,“ segir í Mogganum.
Og áfram: „Það er þó ekki svo að þau 19% séu öll hæstánægð með frammistöðu flokksforystunnar. 59% stuðningsmanna Sjálfstæðisflokksins telja hana góða, en 28% að hún sé aðeins í meðallagi. Hins vegar telja 13% að forystan hafi beinlínis staðið sig illa.
Það hlýtur að teljast dræm niðurstaða fyrir Guðrúnu Hafsteinsdóttur, formann Sjálfstæðisflokksins, þó skammt sé liðið af formannstíð hennar.
Í þessu samhengi hlýtur fylgi flokksins á landsvísu einnig að vekja áhyggjur. Það nam sem fyrr segir 19%, sem er nákvæmlega hið sama og flokkurinn fékk í alþingiskosningum í lok nóvember á liðnu ári. Það er minnsta fylgi, sem flokkurinn hefur fengið og var ein ástæða þess að Bjarni Benediktsson ákvað að draga sig í hlé og hleypa nýrri forystu að.
Miðað við fylgismælingar síðan hefur fylgið ekkert hreyfst, en það var einmitt höfuðmarkmið Guðrúnar Hafsteinsdóttur í formannsframboði hennar, að hún vildi breikka skírskotun flokksins og auka fylgið í átt til 30-40% líkt og tíðkaðist fyrr á árum.“
„…með 50,11% atkvæða svo naumara gat það vart orðið…“
Áfram með Moggann: „Guðrún Hafsteinsdóttir var kjörin formaður á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í byrjun mars með 50,11% atkvæða svo naumara gat það vart orðið og ljóst að nýr formaður hefði verk að vinna til að sætta ólík sjónarmið í flokknum og leiða stjórnarandstöðuna af þrótti.
Það átti ekki síst við í ljósi þess að Guðrún hafði í kosningabaráttu sinni lagt mikla áherslu á að flokkurinn hefði af einhverjum ástæðum ekki náð fyrra fylgisflugi, heldur hefði leiðin þvert á móti jafnt og þétt legið niður á við. Í því skyni vildi hún hefja gömul gildi flokksins til vegs og virðingar, nefndi „stétt með stétt“ og hvernig flokkurinn þyrfti að vera breiðfylking, óháð búsetu, efnahag eða kynferði.
Jafnframt nefndi Guðrún sérstaklega að fella yrði niður gamlar krytur í flokknum og ítrekaði að sjálf tilheyrði hún engri fylkingu í honum. Það flækti hins vegar málin að fylgismenn Guðlaugs Þórs Þórðarssonar, „Gullarnir“ svonefndu, skipuðu sér órofa að baki henni, og sumir þeirra gengu mjög hart fram í að velja „rétta“ fulltrúa á landsfund. Óánægja vegna þess minnkaði ekki þegar ljóst var að hún hefði náð sigri með örfáum atkvæðum.
Það kann að skýra að einhverju leyti hvers vegna ánægja stuðningsmanna með forystuna er jafndræm og raun ber vitni, að þar hafi formaðurinn enn verk að vinna til þess að ávinna sér traust allra flokksmanna – líka þeirra sem ekki kusu Guðrúnu – enda ekki liðnir þrír mánuðir frá því hún tók við formennsku.
Eins er rétt að nefna að Guðrún fór í leyfi til útlanda um það leyti sem veiðigjaldafrumvarpið kom inn á Alþingi og hefur því ekki verið áberandi í pólitískri umræðu, einmitt þegar hún hefur risið hæst í byrjun nýs kjörtímabils. Það hefur örugglega haft sitt að segja þegar könnunin var gerð um miðjan þennan mánuð.“