- Advertisement -

Ólgan í VG

Árni Gunnarsson fyrrrverandi fréttamaður og alþingismaður.

Líklega hefi ég mildast með árunum í afstöðu minni til
stjórnmálanna, þótt skoðun mín á mikilvægi jafnaðarstefnunnar
hafi harðnað og dýpkað. Gott folk í öllum flokkum er mér að skapi. Rétt eins og ég gagrýni skoðanir, sem ég tel óskynsamlegar að rangar, þá tek ég undir málflutning, sem mér geðjast að, hvaðan sem hann kemur. Ég hef dáðst að Katrínu Jakobsdóttur frá því áhrif hennar í stjórnmálum urðu sýnileg. Ég hef leyft mér að hæla framgöngu hennar og orðræðum, og taldi hana hafa flest til að bera sem góður stjórnmálaforingi. En mér sárnaði, þegar hún sá þann kost vænstan að ganga til liðs við íhaldið og Framsókn. Ég taldi mig vita, að þeir leikbræður yrðu henni erfiðir, sem nú hefur komið í ljós.

Ástæðan er kannski sú, að ég man glöggt hvernig fór fyrir mínum gamla flokki, Alþýðuflokknum, í 12 ára Viðreisnarstjórn með íhaldinu. Þótt Viðreisn hefði tekist að umbreyta samfélaginu; viðskiptaumhverfi, menntamálum,margvíslegum félagsmálum, og að innan hennar hefðu tekist taustari samskipti ráðherra en dæmi eru til, þá koðnaði Alþýðuflokkurinn niður í faðmi Sjálfstæðisflokksins.

Ég held að slíkt sé að verða hlutskipti VG. Flokkur Katrínar fékk slæma útreið í sveitarstjórnarkosningum og líklega hefur hann brotið skip sitt með flutningi frumvarps um lækkun veiðigjalda. Þetta skynjar Sjálfstæðisflokkurinn og þess vegan lögðust þingmenn hans og ráðherrar í vörn fyrir Katrínu og VG í sjónvarps- og útvarpsumræðum í vikunni. Þeir óttast að VG hverfi úr ríkisstjórninni. Ég heyri á kunningum mínum í VG að þar sé nú vaxandi óánægja með samstarfið og skuldinni er auðvitað skellt á Katrínu.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hlutverk hennar hefur verið erfitt, föst á milli tveggja karla, sem hafa notað VG sem réttlæting á ýmsum ákvörðunum. Slíkt gengur ekki lengi og ég hygg að Katrín, sem ég ber mikla virðingu fyrir, eigi nú ekki nema tvo kosti; að reyna að þrauka og fórna flokknum, eða að ganga frá borði og reyna að byggja upp á nýjan leik, draga flokkinn af strandstað. Niðurstaða mín er sú, að þetta stjórnarsamstarf eigi sér ekki langa lífdaga. Ég veit að stjórnmálamönnum finnist ekki gott, ef einhverjir finna til með þeim, en ég sannarlega finn til með Katrínu af því, að hún tók ranga ákvörðun um að starfa með tveimur gamalgrónum valda- og þröngsýnisflokkum.

Árni Gunnarsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: