- Advertisement -

Ómissandi fólk heldur samfélaginu gangandi

Til hamingju, öll sem að lögðuð niður störf. Þið stóðuð ykkur frábærlega. Þið eruð vinnandi fólki til sóma.

-SAJ.

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifaði:

Ég óska félagsfólki BSRB til hamingju. Þau hafa sýnt fram á að þegar ómissandi fólk leggur niður störf til að knýja á um betri kjör skilar það árangri.

Það er sannarlega reynsla okkar í Eflingu:

Frá verkfalli Eflingar.

Árið 2020 fór Eflingarfólk, að miklum meirihluta konur, sem að starfaði hjá borginni og sveitarfélögunum í verkföll. Við fórum í sex vikna verkfall hjá borginni og tvisvar sinnum lögðum við niður störf hjá sveitarfélögunum. Árangurinn var raunverulegur, m.a. sömdum við um sérstaka hækkun á lægstu launum (sem við kölluðum leiðréttingu á sögulega vanmetnum kvennastörfum) og viðbótargreiðslur fyrir tiltekin starfsheiti, sem mér sýnist að BSRB-fólkið muni nú einnig fá.

Staðreyndin er þessi:

Fólkið sem heldur samfélaginu gangandi með vinnu sinni er hætt að sætta sig við bíða aftast í röðinni og taka við því sem að valdastéttinni þóknast að afhenda. Ómissandi fólk hefur áttað sig á grundvallarmikilvægi sínu. Ómissandi fólk skilur að það gagnast þeim nákvæmlega ekki neitt að bíða eftir skýrslum og niðurstöðum úr nefndum hinna hátt settu um að kannski þurfi mögulega einhvern tímann að gera eitthvað smá fyrir þau. Ómissandi fólk skilur að best er fyrir þau að taka einfaldlega málin í sínar ómissandi vinnu-hendur, sameinast í baráttunni og vinna sjálf sigra. Þegar að slík uppgötvun hefur átt sér stað hafa magnaðir hlutir gerst.

Það er grundvallarréttur, mikilvægasti réttur vinnandi fólks, að geta lagt niður störf til að berjast fyrir því að fá ásættanlegt verð fyrir vinnuaflið sitt. Þegar fólk skilur og sér sjálft hvað þessi réttur getur fært þeim hefur átt sér stað vitundarvakning sem að valdastéttin einfaldlega getur ekki tekið af fólki, sama hvað hún reynir. Þessvegna hræðast meðlimir valdastéttarinnar verkföll svona mikið: Verkföll skila árangri, materíalískum og þau skila sjálfsvitundar-árangri; þau sýna okkur sjálfum fram á að án okkar stoppar allt.

Til hamingju, öll sem að lögðuð niður störf. Þið stóðuð ykkur frábærlega. Þið eruð vinnandi fólki til sóma.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: