- Advertisement -

Villi fékk mótframboð og sigraði

Vilhjálmur Birgisson:

Rétt í þessu lauk 9. þingi Starfsgreinasambands Íslands á Hotel Natura í Reykjavík. Það er skemmst frá því að segja að ég fékk mótframboð sem formaður SGS og mótframboðið var frá Signýju Jóhannesdóttur, fyrrverandi formanni Stéttarfélags Vesturlands og varaforseta ASÍ.

Niðurstaða kosningarinnar var afdráttarlaus en ég hlaut 81,1% atkvæða sem er frábær niðurstaða og veitir mér sem formanni mikinn styrk í þeim störfum sem eru framundan og það er ánægjulegt að fá frá æðsta valdi SGS slíkt óskorað umboð. Það var einnig afar ánægjulegt að sjá að varaformaður SGS, Guðbjörg Kristmundsdóttir, hafi verið sjálfkjörin áfram sem varaformaður enda hefur okkar samstarf verið gríðarlega gott síðustu tvö ár.

Það er ekki bara að þessi kosning hafi verið jákvæð fyrir mig sem formann SGS að fá svona skýrt umboð heldur fór einnig fram mjög góð vinna í málefnanefndum á þinginu. Eins og áður sagði er þing SGS æðsta vald sambandsins sem mótar stefnu og áherslur sambandsins í hinum ýmsu málum eins og til dæmis í kjara- og byggðamálum. Þessi vinna mun auðvelda forystu SGS að fylgja eftir áherslum og stefnum sem æðsta vald sambandsins í komandi kjaraviðræðum.

  • Áherslur þingsins eru til dæmis eftirfarandi:
  • Að samið verði í anda lífskjarasamningsins frá árinu 2019.
  • Að samið verði um krónutöluhækkanir.
  • Að samið verði um að halda áfram að lagfæra launatöflu verkafólks.
  • Að ráðist verði í kerfisbreytingar varðandi fjármálamarkaðinn og búið til nýtt húsnæðislánakerfi.
  • Að Landsbankinn verði að samfélagsbanka.

Að fengnir verði óháðir, erlendir aðilar til að meta kosti og galla íslensku krónunnar sem og að kanna kosti og galla þess að taka upp annan gjaldmiðil.

Þetta eru örfá atriði sem þingið samþykkti sem áherslur en hægt er að lesa um áherslur þingsins inni á heimasíðu SGS. Rétt er að geta þess að seturétt áttu 135 þingfulltrúar frá 18 aðildarfélögum SGS sem koma vítt og breitt um landið.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: