- Advertisement -

Ómögulegt að gera Seðlabankann ánægðan

Marinó G. Njálsson skrifar:

Vextir bankans eru komnir í 9,25% úr 0,75% í maí 2021. Þetta er 13-földun vaxtanna eða 1300% hækkun þeirra. Þetta er gert til að berja niður verðbólgu sem er á nokkuð stöðugri niðurleið.

Steinum er kastað úr ýmsum glerhúsum þessa daganna í heppilegan sökudólg. Hvort sem það er Seðlabankinn eða launþegahreyfingin, þá er ferðaþjónustunni kennt um þenslu. Fyrir tæpum þremur árum var ferðaþjónustunni kennt um covid-kreppuna og fjórum árum fyrr sagði Seðlabankinn ferðaþjónustunni (og öðrum gjaldeyrisskapandi greinum) stríð á hendur með kjánalegum efnahagsaðgerðum.

— Varúð: Löng færsla –

Hvernig væri bara að beina gagnrýninni þangað sem hún á heima? Það er hjá þeim, sem skilja ekki að stöðugleiki í hagstjórn skilar stöðugleika í efnahagslífinu.

Rifjum aðeins upp.

Árið 2010 varð mikið eldgos sem kom Íslandi á kort alþjóðasamfélagsins sem áhugaverður staður til að hafa viðkomu á. Um líkt leyti var farið í markaðsherferð Inspired by Iceland sem m.a. var kostuð af stjórnvöldum. Þessi markaðsherferð heppnaðist svo vel, að fjölgun ferðamanna (og makríll) drógu íslenskt efnahagslíf upp úr kreppu hrunsins. Kreppu sem léleg hagstjórn hafði m.a. átt þátt í að skapa.

Ferðamönnum fjölgaði og stjórnvöld flutu frekar sofandi að feigðarósi…

Ég man ekki betur en að Seðlabankinn hafi verið ósköp ánægður með gjaldeyrisinnstreymið sem kom með fleiri ferðamönnum, því árin á undan hafði hann m.a. hvatt fólk og fyrirtæki til að flytja fé úr skattaskjólum til Íslands vegna gjaldeyrisskorts. Þarna hefði bankinn átt að grípa tækifærið og hætta þeim peningaþvætti og gefa mönnum kaupauka ofan á það. Nei, þrátt fyrir að nú væri eðlilegt gjaldeyrisflæði að aukast til landsins, þ.e. í gegn um þjónustukaup, þá hélt hann áfram.

Ferðamönnum fjölgaði og stjórnvöld flutu frekar sofandi að feigðarósi, þar sem menn litu framhjá þeirri þörf að fara í stefnumótun. Ekkert ósvipað og þegar ríkisstjórnirnar sem voru við völd frá hruni fram til 2013, vildu frekar að fólk væri atvinnulaust, en að nýta það í þörf verkefni við uppbyggingu ferðamannastaða. Fjölgun starfa í ferðaþjónustu var hins vegar að miklu leyti svarað af hin frjálsa flæði vinnuafls innan EES. Ég man ekki eftir að Seðlabankinn hafi kvartað þá.

Ég man heldur ekki að Seðlabankinn hafi kvartað, þegar samningar voru gerðir við kröfuhafa bankanna um skuldauppgjör sem í reynd þýddi mörg hundruð milljarða innflæði í hagkerfið, því nú þurftu þessir peningar ekki að fara úr landi. Ofan á þetta var hagur Sveinku að batna vegna fjölgunar ferðamanna.

Svo komu þessi kostuglegu viðtöl við þáverandi seðlabankastjóra og aðalhagfræðing bankans sem voru nýbúnir að fá viðbótar andrými í gjaldeyisvarasjóð bankans vegna stöðugleikasamninganna og þeir töldu sig allt í einu eiga of mikinn pening þar. Verð að viðurkenna, að ég hef aldrei heyrt nokkurn seðlabankastjóra kvarta yfir slíkum lúxus. En þetta var ekki vegna stöðugleikasamninganna, sem þurrkuðu út eitthvað um 500 milljarða króna af skuldum Íslendinga (nenni ekki að fletta nákvæmri tölu upp, vegna þess að hún skiptir ekki máli), nei, þetta var fjölgun ferðamanna að kenna og auknum tekjum af fiskútflutningi, sem sköffuðu um 120 milljörðum meira á ári á þessum tíma. Það þarf ekki mikla þekkingu á stærðfræði til að átta sig á því hvor talan hafði meiri áhrif.

Már Guðmundsson, fyrrverandi Seðlabankastkóri, og Þórarinn Pétursson aðalhagfræðingur Seðlabankans.

Síðsumars 2016 sagði Seðlabankinn gjaldeyrisskapandi greinum stríð á hendur. Þá sá ég fyrir og skrifaði um, að hrun yrði í afkomu útgerðar árið 2017 og sumarið 2018 yrði ferðaþjónustunni mjög erfitt afkomulega séð. Vitið þið hvað. Spár mínar gengu upp 100%. Með herkjum tókst að bjarga Icelandair frá því að verða gjaldþrota og töpuðu hluthafar félagsins nær öllu virði hlutafjár síns. WOW tókst hins vegar ekki að bjarga. Þessu fylgdi skörp fækkun ferðamanna og þar með innflæði gjaldeyris vegna þeirra. Ég sá þetta fyrir haustið 2016, en spurningin er hvers vegna þeir sem bera ábyrgð á hagstjórninni sáu þetta ekki fyrir. Þeim var alveg sama, þar sem hagfræðilíkönin sögðu annað. Hagfræðilíkön sem voru sett fram með margfalt stærri þjóðfélög í huga (og jafnvel líkönin fyrir minni hagkerfi taka ekki mið af örhagkerfum, því þeir sem hafa sett þau fram hafa aldrei lifað í örhagkerfi eins og því íslenska). Mörg hagfræðilíkön ganga jafnvel ekki upp í þeim þjóðfélögum sem þau eru sett fram fyrir.

Svo kom covid og hverjum ætli hafi verið kennt um efnahagssamdráttinn? Jú, bjargvættinum mikla, ferðaþjónustunni. Þá rauk fólkið fram, sem bar ábyrgð á hagstjórninni og kenndi ferðaþjónustunni um samdráttinn, en ekki ferðatakmörkunum stjórnvalda. Að mati þessara einstaklinga, hefði verið betra að vera enn í kreppu hrunsins, því þá hefði covid ekki valdið eins mikilli niðursveiflu (sem við vitum náttúrulega ekki). Betra að Íslendingar hefðu verið þurfalingar, en búnir að koma sér á réttan kjöl efnahagslega. Ég klór mér í kollinum í hvert sinn sem ég rifja upp þessa visku.

…afneitar bjálkanum í eigin augum.

Það er síðan alveg ómögulegt að gera Seðlabankann ánægðan og alltaf finnur hann flísina í augum annarra, en afneitar bjálkanum í eigin augum. Seðlabankinn stuðlaði að hluta að því ástandi sem núna er, með því að lækka vexti niður úr öllu árið 2020 og fram á fyrri hluta árs 2021. Enginn lærdómur var dreginn af hruninu og áhrif lágra vaxta ólöglegra gengistryggðra lána á húsnæðismarkaðinn. Samt var núverandi seðlabankastjóri yfirmaður greiningardeildar Kaupþings og skrifaði grein (eða hélt hann fyrirlestur) þar sem hann gagnrýndi Seðlabankann fyrir röng viðbrögð á þeim tíma. Greinilega auðveldara um að tala en í að komast. Ég sá afleiðingarnar fyrir, en þetta var í eina skiptið sem ég ritskoðaði sjálfan mig, því múgsefjunin var svo svakaleg í þjóðfélaginu. Ræddi þetta hins vegar oft við fólk í kringum mig. Sé ég eftir því, að hafa ekki viðrað áhyggjur mínar opinberlega.

Með vaxtalækkunum sínum bjó Seðlabankinn til helminginn af þeirri verðbólgu sem síðan hefur gengið yfir. Til að fela eigin mistök er síðan bankinn að búa til stærri mistök og senda þann reikning á framtíðina. Sá reikningur er í formi mikils húsnæðisskorts sem mun leiða til hækkunar á fasteignaverði vegna þess að það er langur biðlisti eftir húsnæði. Nýjustu tölur um vísitölu húsnæðisverðs segir að verð hafi eitthvað lækkað á höfuðborgarsvæðinu, en þar er nánast ekkert byggt. Á sveitarfélögunum kringum höfuðborgina hefur verð hins vegar haldist óbreytt, en það eru þau svæði þar sem mest er byggt. Síðan hefur verði lítillega lækkað á öðrum svæðum. Og meðan Seðlabankinn fer um sem víkingar sveiflandi sverðum og höggva í átt til nýrra húsnæðiskaupenda, þá reynir ríkið að koma fólki í skjól. (Bara svo það sé á hreinu, þá voru víkingar ræningjar og morðingjar, eins og lesa má í Eyrbyggju. Aðrir landsmenn töldust ekki víkingar.)

Vextir bankans eru komnir í 9,25% úr 0,75% í maí 2021. Þetta er 13-földun vaxtanna eða 1300% hækkun þeirra. Þetta er gert til að berja niður verðbólgu sem er á nokkuð stöðugri niðurleið. Seðlabankinn er hins vegar upptekinn af rangri verðbólgu, þ.e. ársverðbólgu, en hún sýnir ekki eins skarpa lækkun og verðbólguþróun síðustu 6 mánaða. Mér skilst að aðalhagfræðingur bankans segi það bara tæknilegt mál sem hann nenni ekki að fara út í. Það er einfaldlega rangt hjá honum, eins og svo oft áður hjá seðlabankamönnum. Verðbólga fyrir 12 mánuði lýsir að stórum hluta vandamálum sem Seðlabankinn hefur þegar tekið á við fyrri vaxtaákvarðanir. Bankinn breytir ekki hækkun vísitölunnar milli janúar og febrúar í ár með því að hækka vexti um 1% í júní og 0,5% í ágúst. Nei, hann gerði það með vaxtaákvörðun í mars. Auk þess vitum við sem viljum, að það tekur vexti 12-18 mánuði að bíta. Raunar hafa verðbólguspár Seðlabankans í gegn um tíðina sýnt, að hann hefur ekkert allt of mikla trú á sjálfum sér.

En hvert stefnir verðbólgan?

En hvert stefnir verðbólgan? Þetta er hægt að sjá með því að bera saman hækkun vísitölu neysluverðs milli mánaða í ár og í fyrra. Hækkanir í janúar (0,85%), febrúar (1,39%) og apríl (1,31%) í ár voru meiri en árið áður, en þá voru þær 0,50%, 1,16% og 1,25%. Hækkunin í apríl var meira bitamunur en stærðarmunur. Alla aðra mánuði ársins hefur hækkun milli mánaða verið minni í ár en í fyrra. Í það heila var verðbólga miðuð við 6 mánuði (6 mánaðabreytingar uppreiknaðar til 12 mánaða) 14,23% í júlí fyrra og 9,47% í júlí í ár. Þetta er 33,4% lækkun verðbólgu milli ára. Og jafnvel þó við tækjum 12 mánaðaverðbólgu, þ.e. er lækkunin 23,1%. Sem sagt veruleg lækkun verðbólgu. Flestir greiningaraðilar spá í kring um 7,0% verðbólgu í árslok. Það þýðir 26,8% lægri ársverðbólgu en í desember í fyrra (9,6%), en sé miðað við 6 mánuði er lækkunin 55,4%.

Skýringar Seðlabankans fyrir hækkun vaxta er þensla í ferðaþjónustu og kostnaðarhækkanir innanlands.

Fyrst þetta með þensluna í ferðaþjónustunni. Ég hefði skilið þessa skýringu í apríl og þá hefði hún átt að orðast „fyrirséð þensla í ferðaþjónustu“. Núna erum við í lok ágúst og það vita allir sem þekkja til ferðaþjónustu, að byrjað er að hægjast um. Þannig er það á hverju einasta ári og hefur verið eins lengi og ég hef fylgst með (þ.e. frá ca. 2004) fjölda ferðamanna og dreifingu þeirra eftir árstíma. Enn einu sinni sýnir og sannar Seðlabankinn að hann virðist vera í einangrun frá því sem gerist í kring um hann. Sumartímabilið er nánast komið á enda. Sem dæmi má nefna að rétt rúmlega hálfur mánuður er í að skemmtiferðaskip hætta að hafa viðkomu hér á landi. Hótel og gististaðir eru að færa sig yfir í vetrarham og hægt er að fá gistingu samdægurs um nánast allt land. Það er engin þensla framundan. Það er MJÖG MIKILL samdráttur. Ég spyr bara: Í hvaða heimshluta lifa þeir sem búa til þessar skýringar? Þær eiga núna við í Perú, Chile, Nýja-Sjálandi og Thailandi, svo nokkur lönd séu nefnd, en EKKI hér á Íslandi.

Væri það í raun og veru ætlun Seðlabankans að draga úr innlendum kostnaðarhækkunum, þá er besta leiðin, sem hann hefur, að lækka vextina.

Svo eru það kostnaðarhækkanir innanlands. Þessu eru greinilega beint gegn bændum, þar sem núna fer í hönd sláturtíð. Það vill svo til, að þetta eru laun bændanna og samfélagið verður að líða þeim að þau hækki einu sinni á ári. Hækkun vaxta mun bara auka á þörfina að hækka verð búvöru og gera hana meiri því meðan afurðir eru geymdar í frystigeymslum, þarf að taka lán og þau bera óhagstæða vexti. Væri það í raun og veru ætlun Seðlabankans að draga úr innlendum kostnaðarhækkunum, þá er besta leiðin, sem hann hefur, að lækka vextina.

Greinina birti Marinó á eigin Facebooksíðu. Greinin er birt hér með góðfúslegu leyfi höfundar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: