- Advertisement -

Óþarfa vaxtahækkun Seðlabanka

Marinó G. Njálsson:

Hljómar kannski furðulega, en í fyrra var hröðun verðbólgunnar tekin að aukast áður en stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hófst. Strax í janúartölum benti ýmislegt til að eitthvað væri að gerast.

Verðbólgutölurnar eru komnar. Verðbólgan er 9,8% (0,52% hækkun vísitölunnar milli mánaða), en var 10,2% í síðustu tölum á undan. Tölurnar núna staðfesta vonandi að mælingin í febrúar var afbrigði sem engin ástæða var til að bregðast við með hækkun vaxta, hvað þá hækkun upp á heila prósentu, eins og peningastefnunefnd ákvað að gera fyrir 6 dögum.

Ekki láta ykkur detta í hug eitt augnablik að hækkun vaxtanna í síðustu viku hafi haft þessi áhrif. Allar mælingar voru um garð gengnar áður en vaxtahækkunin var tilkynnt. Vissulega var búið að hóta hækkuninni í febrúar, en hafi hótunin ein dugað til að slá á verðbólguna, þá var hækkunin líklegast óþörf nema sem tilraun hjá Seðlabankanum að auka trúverðugleika sinn.

Þrír liðir vógu þyngst í mælingunum núna, þ.e. matur og drykkjarvara (0,11%), föt og skór (0,14%) og reiknuð húsaleiga (0,15%), þ.e. kostnaður við búsetu í eigin húsnæði. Fyrri tveir liðirnir verða líklegast ekki fyrir áhrifum af vaxtabreytingum, en hækkun síðasta liðsins er líklega bein afleiðing af hækkun vaxta í febrúar og megum við búast við enn meiri hækkun hans í apríl.

Við erum ekki að fást hrun…

Í síðustu færslu um efnahagsmál, þá sagðist ég vera einn af þeim, sem hefði trú á að verðbólga gengi niður þegar hún væri búinn að taka út kipp sinn. Því er spurning hvers er að vænta.

Ef við skoðum hækkun milli mánaða fyrir 4 mánaðatímabil frá apríl – júlí á síðasta ári, þá fór verðbólgan úr 6,7% í 9,9% á þessum tíma. Brjótum þessa breytingu upp mánuð fyrir mánuð með tölur frá 2021 innan sviga. Hækkun VNV milli mars og apríl var 1,25% (0,71%), milli apríl og maí 0,76% (0,42%), milli maí og júní 1,41% (0,26%) og loks milli júní og júlí 1,17% (0,16%). Ef við bætum svo breytingunni milli janúar og febrúar upp á 1,16% (0,69%) og febrúar og mars upp á 0,93% (0,50%), þá fáum við lengsta tímabil með mikla verðbólgu frá því í kringum hrun.

Miðað við, að apríl mælingin í fyrra (1,25%) kom í kjölfar mikils óróa á nánast öllum mörkuðum í kjölfar innrásar Rússa í Úkraínu, þá er mjög ólíklegt að næsta mæling verði þar nærri. Raunar var mælingin í fyrra næst hæsta breyting á milli mars og apríl frá því í árið 1990. Aðeins mælingin í apríl 2008 sýndi hærri breytingu (3,41%). Burt séð frá vaxtahækkun Seðlabankans um daginn, þá mátti búast við verulegri lækkun verðbólgunnar í apríl og leyfi ég mér að spá að hún verði 8,8-9,1%. Verði komin niður fyrir 7% í júní og 6% í júlí. Endi síðan árið í ca. 5,25%!

Við erum ekki að fást hrun og jafnvel í kringum hrun gekk verðbólgan frekar fljótt niður. Ári eftir að hún tók sinn fyrsta kipp í febrúar mælingunni árið 2008, þá var verðbólgan farin að lækka. Það sem meira var, að vaxtarhraði/hröðun hennar var farið að minnka í september 2008. Vissulega jókst verðbólgan, en hún jókst minna en mánuðinn á undan (í eðlisfræði er þetta kallað hröðun og ég nota það orð hér).

Mýmörg dæmi eru um svona stutta kippi í verðbólgu.

Hljómar kannski furðulega, en í fyrra var hröðun verðbólgunnar tekin að aukast áður en stríðsrekstur Rússa í Úkraínu hófst. Strax í janúartölum benti ýmislegt til að eitthvað væri að gerast. Mánuð fyrir mánuð óx verðbólguhröðunin (þ.e. breytingin á VNV milli ára óx frá fyrri mánuði). Toppaði þessi vöxtur í júli, en verðbólga í júlí 2022 var 133% meiri en í júlí 2021 (9,93% á móti 4,27%). Frá og með ágúst hefur verðbólguhröðunin lækkað í hverjum einasta mánuði og svo komið að verðbólgan núna í mars er 47% hærri en fyrir ári (9,8% á móti 6,7%). Hröðunin fór úr 33% í janúar 2022 í 133% í júlí og er núna komin niður í 47%.

Mýmörg dæmi eru um svona stutta kippi í verðbólgu, eins langt og mínar tölur ná til. Alltaf hefur hröðunarferlið verið mælt í mesta lagi 5-6 mánuðum, þó það hafi tekið verðbólguna lengri tíma að ná sínu hæsta gildi. Síðan hefur það tekið allt að 10-12 mánuðum frá því verðbólgutoppnum var náð fyrir verðbólguna að komast á líkan stað og í upphafi hækkunarinnar.

  • Dæmi 1: Verðbólga byrjaði að stíga í febrúar 2008, hröðunin náði hámarki í ágúst, verðbólgan toppaði í janúar 2009 og var komin niður fyrir febrúar-verðbólguna í janúar 2010.
  • Dæmi 2: Verðbólga jókst um meira en 1% milli janúar og febrúar 2006, hröðunartoppnum var náð í júní, verðbólgan toppaði í ágúst og hröðunin var orðin neikvæð í apríl 2007.

Ég efast stórlega um, að þessi þróun hafi eitthvað með vaxtabreytingar Seðlabankans að gera á tímabilinu frá október til mars. Staðreyndin er að hækkun verðlags hefur alltaf komið í nokkurs konar vaxtarkippum, misöflugum hverju sinni. Hver vaxtarkippur gengur almennt yfir á stuttum tíma og þá myndast ýmist nýtt jafnvægi eða verð fer að lækka. Nýtt jafnvægi eykur ekki verðbólgu, heldur verður til þess að hún lækkar. Lækkun á verðlagi lækkar verðbólguna hraðar og gæti leitt til verðhjöðnunar (sem er algjörlega bannað, því þá gætu lántakar hagnast).

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni. Fyrirsögnin er Miðjunnar.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: