- Advertisement -

Sæll Bjarni Benediktsson

Leiðari Þó þú hafir tilkynnt mér að þú munir aldrei tala við mig framar, sem og þú hefur staðið við, þá ætla ég samt að ávarpa þig. Mig langar það mikið að hrósa þér.

Þú Bjarni, hefur spilað hreint frábærlega úr þeirri vondu stöðu sem þú varst í eftir kosningar. Þú tapaðir fimm þingmönnum, en samt ertu aðal. Með öll þau ráðuneyti sem flokkurinn verður að hafa. Glæsileg frammistaða það.

En það er ekki endilega það sem mig langar að hrósa þér fyrir. Einsog þú veist hefur þú og margir flokksfélagar þínir reynt að hylja slóðina frá hugsjónum að hagsmunum, með mjög misjöfnum árangri.

Nú gerir þú allt og annað langtum merkilegra. Þú hættir að pukrast, sýnir af þér meiri kjark en hingað til. Lætur bara vaða. Sýnir af þér nýja takta. Ekkert pukur, hagsmunargæslan er opinberuð. Takk fyrir það Bjarni.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þú býrð svo vel að hafa fyrrverandi stjórnarformann Samherja í þínu þingliði og þar sem þú komst yfir sjávarútvegsráðuneytið var það hreint ótrúlegur leikur, hreinn og beinn, að fá hann til að gæta að því sem gæta þarf að í því ráðuneytinu.

Væntanlega er gleðskapur í höfuðstöðvum Samherja við Glerárgötu. Þar er full ástæða til að skjóta tappa úr flösku. Hagsmunirnir eru tryggðir. Og það fyrir opnum tjöldum, takk fyrir það Bjarni. Það er betra að hafa þetta allt sýnilegt og fyrir opnum tjöldum.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: