- Advertisement -

Saga Viðreisnar er aðeins smásaga

Þorsteinn Vígundsson.

Viðhorf Mikið var gert og mikið var lagt undir þegar stofnað var til Viðreisnar. Ríkir fjárfestar urðu bakhjarlar, Benedikt Jóhannesson seldi fyrirtækið sitt, allt eða að mestu, Þorsteinn Víglundsson og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir yfirgáfu Borgartún 35 þar sem greidd eru hærri laun en í flestum öðrum húsum, Þorseinn Pálsson, fyrrverandi formaður Sjálfstæðisflokks kvaddi sinn gamla flokk og gekk til liðs við Viðreisn. Sem og svo margir aðrir. Nú virðist sem saga þessa nýja flokks sé að verða öll. En hvers vegna?

Svarið er væntanlega á þá leið að Viðreisn gaf allt sitt eftir til að komast í ríkissjórn. Löngunin var mikil og einlæg. Allt það sem Viðreisn var sögð berjast fyrir var sett til hliðar. Í geymslu. Sjálfstæðisflokkurinn hirti ekkert um vilja eða langanir Viðreisnar og dag frá degi tálgaðist utan af Viðreisn sem nú berst fyrir lífi sínu. Í kosningunum í fyrra vann Viðreisn stærri sigur en nýr flokkur hafði áður unnið í alþingiskosningum. Í dag bendir flest, ef ekki allt, til þess að allt sem gert var sé nú að engu orðið. Sögulokin virðast ætla að verða einstaklega aum. En fyrirséð.

Viðreisn gekk fjandvininum á hönd. Því fór sem fór. Meginhluti Viðreisnar kom úr Sjálfstæðisflokki. Kom þaðan vegna óánægju með stefnu flokksins eða með eigin stöðu innan hans. Eftir kosningarnar í fyrra virtist Benedikt klókari en flestir. Hann læsti klónum í Bjarta framtíð og náði fullu valdi yfir þeim flokki. Óheillasporið var að mynda ríkisstjórn með Bjarna Benediktssyni. Benedikt varð að reka sig á að Bjarni frændi hans er ekki eiginlegur stjórnmálamaður. Hann er umfram annað hagsmunagæslumaður og ansi seigur sem slíkur.

Þú gætir haft áhuga á þessum
Bjarni Benediktsson.

Allt hefur farið á versta veg fyrir Viðreisn. Benedikt situr uppi með fjárlagafrumvarpið á versta tíma. Kosningar framundan og hann kemst ekki frá frumvarpinu. Þó hann þar þóknist sínum gamla flokki og frændgarðinum er hann skráður höfundur verksins. Það verður hans að svara fyrir verkið. Það verður honum erfitt.

Takist að koma í veg fyrir eyðingu Viðreisnar er víst að Benedikt formaður Jóhannesson nær ekki kosningu í sínu kjördæmi, norðaustur. Á innan við einu ári fer Viðreisn frá því að vera sigurvegari yfir í að eiga á hættu að vera sá þingflokkur sem stystan hefur lífaldurinn. Fjárfestarnir kappsömu fá hið minnsta lítið fyrir sinn snúð fari svo. Sem gerir ekkert til.

Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: