- Advertisement -

Samfylkingin ræður ekki við hugmyndalega endurnýjun

Gunnar Smári skrifar:

Á sama tíma eru helstu skítdreifarar flokksins sendir út á völlinn til að halda því fram að Sósíalistar, sem eru með klassískar kröfur sósíalista frá síðustu öld á sinni stefnuskrá, séu hættulegt fólk.

Það er ekki að sjá að sú taktík Samfylkingarinnar, að snúa sér að Sósíalistaflokknum og skilgreina hann sem ógn við samfélagið, sé að skila Samfylkingunni nokkru fylgi. Í könnun MMR er Samfylkingin enn einu sinni undir kjörfylgi, hefur ekkert bætt við sig á þessu kjörtímabili og virðist vera að festa sig í sessi sem montni smáflokkurinn, sá meðal dvergana sjö sem er bæði með skökkustu sjálfsmyndina (heldur að hann sé risi) og glímir auk þess við innri óróa og átök; persónuleikinn er eiginlega að leysast upp og klofna í ólíka einstaklinga.

Á sama tíma virðist Framsókn vera á siglingu enda eru skilaboðin þar skýrari miðjupólitík en hjá Samfó. Framsókn kemur því betur til skila að flokkurinn hafni bæði stefnu Sjálfstæðisflokks og sósíalisma (þótt allir viti svo sem að Framsókn er dráttarklár sem þráir það heitast að vera spenntur fyrir plóg auðvaldsins). En skilaboðin eru skýr í auglýsingum og orðum forystufólksins.

Samfylkingin ræður hins vegar ekki við sig og dettur ávallt í langar ræður um ágæti kapítalismans, leggur aðeins til smávægilegar breytingar á einstökum atriðum (hófleg skattabreyting, eins og sagt er, sem merkir eitthvað sem auðvaldið getur sætt sig við). Á sama tíma eru helstu skítdreifarar flokksins sendir út á völlinn til að halda því fram að Sósíalistar, sem eru með klassískar kröfur sósíalista frá síðustu öld á sinni stefnuskrá, séu hættulegt fólk. Hvað er hægt að lesa út úr þessu? Í raun ekkert annað en Blairisma, sem er líklega sú stjórnmálastefna sem kyrfilegast hefur verið hafnað um allan heim. Það er engin eftirspurn eftir hægra fólki í vinstri flokkum sem vill fá að stjórna kapítalismanum og heldur því fram að sósíalismi sé ekki bara púkó heldur líka hættulegur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þetta erindi Samfylkingarinnar kemur aldarfjórðungi of seint. Sýnir að áföll þessa flokks í gegnum ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokknum, í gegnum ríkisstjórn tapaðra tækifæra eftir Hrun og fylgishrunið í kjölfarið hefur valdið því að flokkurinn ræður ekki við hugmyndalega endurnýjun, mætir nú enn á ný með erindi þess sem kallað var Röskvukynslóðin og hélt fram Blairisma á tíunda áratugnum, einskonar kátum kapítalisma sem Samfylkingin kallar nú mannúðlega markaðshyggju.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: