- Advertisement -

Segir Ragnar Þór vera öfgamann

„Þegar öllu er á botninn hvolft geta félagsmenn VR sennilega sjálfum sér um kennt. Þeir mættu ekki á kjörstað, og áhugaleysi þeirra varð til þess að öfgamaður náði stjórn á félaginu.“

Kristín Þorsteinsdóttir, útgefandi Fréttablaðsins og leiðarahöfundur blaðsins, er litt hrifin af Ragnari Þór Ingólfssyni, formanni VR. Hún gerir lítið úr stöðu Ragnars Þórs í leiðara dagsins:

„…sem einungis er með atkvæði 10% félagsmanna að baki sér hefur varla umboð til að rífa tréð upp með rótum. Það hefur Ragnar þó heldur betur gert með síendurteknum yfirlýsingum og gífuryrðum. Hann hefur hótað því að beita sér gegnum fjárfestingar lífeyrissjóða VR. Nú síðast jafnaði hann tiltölulega varkárum ummælum fjármálaráðherra um að skattalækkanir ofan í kjarasamninga sem farið hefðu úr böndunum væru óskynsamlegar, við „stríðsyfirlýsingu“.“

Kristín telur fólkið í VR hafa það bara ágætt. Þá á hún eflaust líka við fólkið á kössunum í stórverslunum, fólkið sem borgar mestan hluta launa sinna í húsaleigu, fólkið sem er með laun langt undir opinberum framfærsluviðmiðunum.

„Félagar í VR hafa það því ágætt samkvæmt flestum mælikvörðum. Helsta ógnin við lífskjör þeirra í augnablikinu er sennilega sú að verðbólgudraugurinn rakni úr rotinu og krónan haldi áfram að veikjast. Orð og athafnir formannsins hafa aukið verulega líkurnar á hvoru tveggja,“ skrifar útgefandinn.

Og svo þetta: „Þegar öllu er á botninn hvolft geta félagsmenn VR sennilega sjálfum sér um kennt. Þeir mættu ekki á kjörstað, og áhugaleysi þeirra varð til þess að öfgamaður náði stjórn á félaginu. Öfgamaðurinn sá túlkar nú hagsmuni félagsmanna með sínu nefi. Gallinn er bara sá að flest bendir til að lyktarskynið sé verulega brenglað.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: