- Advertisement -

Setjum okkur sjálf í fyrsta sæti

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifar:

Kæru Eflingarfélagar.

Ég sendi ykkur baráttu og samstöðu kveðjur á deginum okkar, alþjóðlegum baráttudegi verkalýðsins, 1. maí. Ég vona að ég sjái ykkur í göngunni og svo í Eflingar-kaffinu í Valsheimilinu að útifundi loknum.

Áður en lengra er haldið vil ég segja nokkur orð um skipulagsbreytingarnar sem stjórn félagsins samþykkti að innleiða, og stöðuna á skrifstofu Eflingar:

Á morgun verða sjúkradagpeningar greiddir frá Eflingu…

Umsóknarfrestur á störfum rann út í gær og alls bárust um það bil 250 umsóknir. Nú hefst vinna við að skoða þær og meta. Það hefur verið áskorun að tryggja grunnþjónustu við félagsfólks sökum fjölda-veikinda starfsfólks skrifstofunnar en það hefur tekist. Stjórn setti í forgang að sjúkradagpeningar yrðu greiddir út enda eru þeir ein mikilvægustu réttindi verka og láglaunafólks, sem vegna lágra launa á lítinn eða engan sparnað, og getur samstundis lent í alvarlegum fjárhagserfiðleikum þegar veikindaréttur hefur klárast og engin laun berast frá atvinnurekanda. Á morgun verða sjúkradagpeningar greiddir frá Eflingu til um það bil 190 félaga, upp á samtals 70 milljónir.

Ég vona innilega að sá vinnufriður sem ég hef ítrekað óskað eftir fyrir hönd stjórnar félagsins fari að komast á og að við getum óáreitt einbeitt okkur að því sem mestu máli skiptir, því að halda áfram við að breyta Eflingu í öflugustu samtök verka og láglaunafólks á Íslandi.

Kæra Eflingarfólk. Atburðarráðs síðustu mánaða, vikna og daga hefur verið skrítin, svo vægt sé tekið til orða. En mín afdráttarlausa afstaða er þó sú að við sem trúum á leikreglur lýðræðisins eigum einfaldlega að fagna tækifærunum til þess að berjast fyrir því sem við trúum á, til þess að sannfæra fólk með málefnalegum hætti um að stefna okkar sé þess virði að hún sé studd og henni fylgt. Það höfum ég og félagar mínir á Baráttulistanum ítrekað gert, nú síðast á fjölmennum félagsfundi þar sem að niðurstaðan varð sú að við höfum afdráttarlaust umboð til að stýra félaginu, líkt og við sannarlega vorum kjörin til að gera í kosningunum um forystu félagsins sem lauk 15. febrúar síðastliðinn. Átökin hafa verið hörð og erfið, en þau eru þess virði.

Margar okkar voru í fleiri en einni vinnu…

Kæru félagar. Þegar ég tók fyrst við formennsku í Eflingu vorið 2018 vissi ég ekki mikið um íslenska verkalýðshreyfinguna. En ég skildi ekki hversvegna þau sem hreyfingunni stýrðu stærðu sig af því að hún væri best í heimi á meðan að ég og samstarfskonur mínar á leikskólanum töluðum um hvað launin okkar væru ömurleg og aðstæður erfiðar. Margar okkar voru í fleiri en einni vinnu, þrátt fyrir að leikskólastarfið sé eitt það mest lýjandi sem til er, bæði andlega og líkamlega, og sumar í fleiri en tveimur, til þess að geta tryggt okkur þak yfir höfuðið og til að gera staðið skil á reikningum. Þær okkar sem fastar voru á algróðavæddum leigumarkaði voru algjörlega undirseldar duttlungafullri græði leigusala. Fyrir okkur virtist verkalýðsforystan lifa í allt öðrum efnislegum heimi en við. Þar voru launin há, og fólk var búið að koma sér rækilega fyrir sem meðlimir í íslenskri milli og efri-millistétt. Stéttasamvinna var aðalatriðið og stöðugleikinn mikilvægastur, sama þótt að öllum ætti að vera ljóst að hann hvíldi á herðum verka og láglaunafólks sem voru einmitt fórnarlömb stéttasamvinnunar. Ég vissi ekki mikið um verkalýðshreyfinguna en ég vissi að áherslur hennar og forgangsröðun voru rangar; þau sem tilheyrðu stétt verka og láglaunafólks svitnuðu við að knýja áfram hjól atvinnulífsins og héldu uppi umönnunarkerfum samfélagsins á meðan að efri lög samfélagsins sem verkalýðsforystan vildi tilheyra, höfðu það sífellt betra og náðugra. Og ég vissi að ég var ekki lengur tilbúin til að láta hlutina halda áfram á þeirri leið sem þeir voru, ég var ekki tilbúin til að sætta mig við að verka og láglaunafólk væri áfram jaðarsett, undanskilið mikilvægum ákvarðanatökum sem höfðu þó allt um tilveru-skilyrði okkar að segja, ekki tilbúin til að sætta mig við að aðeins væri talað við okkur upp á punt eða bara alls ekki. Ég er sannarlega reynslunni ríkari núna, um allt er viðkemur félaginu okkar, verkalýðshreyfingunni, samskiptunum svokölluðu við viðsemjendur, átökum við þá og stjórnvöld, og það hvar, hvernig og hvenær stéttaátökin geta blossað upp. Ég veit núna að oft á tíðum fer erfiðasta baráttan fram á vettvangi sjálfrar hreyfingarinnar og að þau sem eru til í að taka þann slag eru ekki vinsæl. En afstaða mín til baráttu okkar verka og láglaunafólks hefur ekki breyst; við munum ótrauð berjast áfram fyrir því að okkar hagsmunir séu settir á oddinn hvar og hvenær sem er, við munum berjast ótrauð fyrir því að raddir okkar heyrist hátt og skýrt hvar og hvenær sem er, og við munum áfram berjast fyrir efnahagslegu réttlæti, gegn stéttaskiptingu, hvar og hvenær sem er.

Það er staðreynd sem enginn getur neitað.

Kæra Eflingarfólk. Fjölbreyttari hóp en okkur er ekki hægt að finna á Íslandi. Við komum allstaðar að úr heiminum. Við aðhyllumst fjölmargar og ólíkar skoðanir á málum, og menningarlegur bakgrunnur okkar er bókstaflega óendanlega fjölbreyttur. En eitt eigum við sameiginlegt: Við tilheyrum stétt vinnuaflsins. Við knýjum áfram hagvöxtinn með vinnu okkar; okkar vinna skapar verðmætin. Við höldum uppi umönnunarkerfum samfélagsins; við erum ómissandi. Sama hvort við störfum á almenna eða opinbera vinnumarkaðnum er staðreyndin sú að án okkar vinnuafls stoppar öll verðmætaframleiðsla þjóðfélagsins. Við erum það sem allt hvílir á. Það er staðreynd sem enginn getur neitað.

Og þessvegna, kæra fólk, eigum við að bera höfuðið hátt. Þessvegna eigum við að horfa stolt í spegilinn og á það fólk sem við mætum. Þessvegna eigum við að koma saman, hugrökk og upplitsdjörf, í samstöðu hvort með öðru og með okkur sjálfum, og setja fram kröfuna sem endurómað hefur í gegnum sögu okkar verkafólks: Okkar vinna skapar verðmætin, því er það okkar að ákveða hvað við viljum, hvað við þurfum. Hverju við eigum heimtingu á. Hverju við eigum rétt á. Og við eigum bókstaflega rétt á öllu. Góðum og mannsæmandi launum fyrir okkur og fjölskyldur okkar. Öruggu og góðu húsnæði fyrir eðlilegt og sanngjarnt endurgjald. Vinnuaðstæðum sem eru til fyrirmyndar. Velferðakerfi sem virkar fyrir okkur sem höldum því uppi. Skattkerfi sem sinnir sínu grundvallarhlutverki, að endurúthluta gæðum þjóðfélagsins með jafnaðar-hugsjónina í fyrirrúmi. Lífeyriskerfi sem tryggir okkur gott og áhyggjulaust ævikvöld. Og svo mætti áfram telja. Þetta allt á að vera okkar og fyrir þessu munum við berjast. Við ætlum að hafna misskiptingu, stéttaskiptingu, arðráni. Við ætlum að hafna græði og spillingu. Við ætlum að hafna því að yfir okkur ríki firrt yfirstétt sem getur ekki hugsað um neitt nema eigin hagsmuni. Við ætlum að hafna því að þrátt fyrir algjört grundvallarmikilvægi okkar séum það samt við sem fáum minnst, höfum það verst. Við ætlum að standa saman og í samstöðunni sýna öllum að við erum hér, við erum stolt, við erum sterk.Kæra félagar. Ég vona að við eigum eftir að hittast á vettvangi félagsins okkar. Þar ætlum að halda áfram á okkar einbeittu vegferð um að félagsfólk stýri sannarlega för í Eflingu. Þar ætlum við að koma saman, móta okkar sýn og stefnu. Þar ætlum við að halda áfram við að byggja upp alvöru verkalýðsfélag sem getur tekið slaginn við valdastéttina, bæði pólitíska og efnahagslega. Þar ætlum við að halda áfram á þeirri braut að kjarasamningagerð verka og láglaunafólks sé í fyrsta skipti í marga áratugi raunveruleg, metnaðarfull og sigurviss verkalýðsbarátta.

En sem betur fer tókum við ákvörðum um að hlýða ekki, halda ekki kjafti.

Kæru félagar. Enginn er að fara að færa okkur verka og láglaunafólki nokkurn skapaðan hlut, bara afþví að það sé rétt eða gott, eða af því að við biðjum svo fallega. Verka og láglaunafólk hefur ávallt þurft að berjast fyrir öllu sem það fær. Íslensk valdastétt reyndi að telja okkur trú um að við ættum ekki að berjast, að við ættum að halda kjafti og hlýða. En sem betur fer tókum við ákvörðum um að hlýða ekki, halda ekki kjafti. Við tókum ákvörðun um að blása í hinar gömlu glæður alvöru róttækrar stéttabaráttu og við sáum bálið lifna við, við fundum af því hitann. Og við ætlum að hjálpast að við að láta eldinn lifa, okkar baráttueld, okkar og þeirra sem á undan okkur komu, þess stolta verkafólks sem trúði á drauminn um réttlátt samfélag og lagði allt í sölurnar til að sjá hann lifna við, með raunverulegum og mögnuðum árangri.

Kæru félagar. Ég trúi á réttlæti til handa verkafólki. Ég trúi því að verkafólk og barátta þess sé hið raunverulega samfélagslega hreyfiafl framfara og réttlætis. Ég trúi á samstöðuna og mátt hennar vegna þess að ég sjálf séð og upplifað hverju hún getur skilað. Ég trúi því að ef við setjum okkur sjálf í fyrsta sæti, í félaginu okkar, í verkalýðshreyfingunni, í samfélaginu, í baráttu komandi vetrar þá eru okkur allir vegir færir. Þá munum við loksins uppskera í samræmi við algjört grundvallar-mikilvægi okkar í íslensku samfélagi.

Sjáumst í kröfugöngunni, sjáumst í Eflingu, sjáumst í baráttunni!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: