- Advertisement -

Síðasti konungur Íslands

Saga á sunnudegi Þegar fólk, sem var viðstatt stofnun lýðveldis á Íslandi á Þingvöllum við Öxará 17. júní 1944, var spurt hvað því væri minnisstæðast frá þeim degi svöruðu ótrúlega margir: „Rokið og rigningin og skeytið frá kónginum.“

Skeyti kóngsins

Engum þarf að koma á óvart að veðrið yrði fólki minnisstætt, það var víst ömurlegt. Hitt er athyglisverðara að skeyti frá Kristjáni konungi 10., þar sem hann harmaði sambandsslitin en óskaði Íslendingum velfarnaðar og þess að tengsl þeirra við Norðurlönd ættu eftir að styrkjast, skyldi festast svo í minningu fólks, sem raun bar vitni. Það bendir til þess, að sumir Íslendingar a.m.k. hafi innst inni haft slæma samvisku yfir sambandsslitunum og að kóngurinn hafi, þrátt fyrir allt, verið þeim kærari en þeir vildu vera láta. Landinn hafði alltaf verið konunghollur og sjálfsagt hefur mörgum, einkum eldra fólki, þótt skrýtið að hugsa til þess að skyndilega ættu þeir engan kóng. Í stað hans væri ósköp venjulegur Íslendingur orðinn forseti suður á Bessastöðum og þar að auki maður sem var fráleitt óumdeildur.

Aldrei vinsælli

Þú gætir haft áhuga á þessum

Sennilega var Kristján 10. aldrei vinsælli á Íslandi en einmitt á því augnabliki sem skeytið frá honum var lesið upp í hryssingnum á Þingvöllum 17. júní. Hann var fæddur árið 1870 og varð konungur Danmerkur eftir lát föður síns, Friðriks 8., árið 1912. Friðrik þótti ljúfur maður og hlýr og um flest ólíkur forfeðrum sínum. Hann var vinsæll meðal Íslendinga, ekki síst eftir að hann kom hingað til lands árið 1907, og til voru þeir sem trúðu því að hann væri launsonur Jóns Sigurðssonar forseta!

Kristján 10. var allt annarrar gerðar. Hann þótti stífur og hofmóðugur í framgöngu og ekki við alþýðuskap. Í Danmörku hafði hann ýmisleg afskipti af stjórnmálum sem kjörnir fulltrúar áttu erfitt með að sætta sig við og töldu jafnvel aðför að þingræðinu. Þekktasta dæmið um það var líkast til „páskakrísan“ árið 1920 en þá vék konungur ríkisstjórn undir forsæti C. T. Zahle frá völdum vegna deilna um landamæri suður í Slésvík.

Leiðinlegur við Þjóðverja

Þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku árið 1940 stóð konungur fastur fyrir og öll hernámsárin fór hann nær daglega ríðandi um götur Kaupmannahafnar í trássi við boð hernámsliðsins. Þá varð hann eins konar sameiningartákn Dana og margar sögur spunnust um velvild hans í garð gyðinga. Þær munu að vísu margar vera orðum auknar en urðu til þess að hróður konungs barst víða, langt út fyrir landamæri Danmerkur. Danir kunnu vel að meta framgöngu konungs á erfiðum tímum og á stríðsárunum öðlaðist hann almennar vinsældir meðal þegna sinna. Fræðimenn hafa þó bent á að í raun hafi hann í fáu breytt í háttum sínum og framkomu. „Hann hætti að vera hryssingslegur við Dani og varð leiðinlegur við Þjóðverja í staðinn,“ sagði einn höfundur.

Móðgaði íslenska frammámenn

Kristján 10. kom nokkrum sinnum til Íslands, oftar en aðrir Danakonungar. Heimsóknir hans og Alexandrínu drottningar þóttu jafnan tíðindum sæta en Kristján var eini konugur konungsríkisins Íslands sem varð til við gildistöku sambandslagasáttmálans árið 1918. En þrátt fyrir tíðar heimsóknir – eða kannski vegna þeirra – varð síðasti Íslandskóngurinn aldrei vinsæll hér á landi. Hann þótti þurr á manninn og erfiður í umgengni og Íslendingum sýndi hann litla virðingu. Með klunnagangi og ógætilegum ummælum tókst honum að móðga marga helstu frammámenn hérlendis, kallaði til að mynda Jónas frá Hriflu „hinn íslenska Mússólíni“ upp í opið geðið á honum. Slíkt féll ekki í góðan jarðveg og ekki er ósennilegt að stuðningur við sambandsslitin árið 1944 hefði notið minni stuðnings en raun bar vitni, ef konungur hefði notið meiri vinsælda.

Kristján 10. lést árið 1947 og skorti þá þrjá vetur í áttrætt.

(Jón Þ. Þór sagnfræðingur tók saman. Birtist áður í Mannlífi 2008.)


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: