- Advertisement -

Sigurður Ingi er einn á móti öllum í Framsókn

Stjórnmál „Lilja Alfreðsdóttir menningar- og viðskiptamálaráðherra hefur tjáð sig í fjölmiðlum um þá skoðun sína að hækka þurfi bankaskattinn. Aðrir þingmenn Framsóknar hafa tekið undir þau sjónarmið. Aðspurður segir Sigurður Ingi að við séum á eðlilegum stað með bankaskattinn og telur ekki ástæðu til að hækka hann. „Það er staðreynd að bankaskatturinn hér á landi er hár í alþjóðlegum samanburði. En auðvitað þarf að meta það er ákveðnar atvinnugreinar eru að hagnast á aðstæðum sem skapast, get tekið sem dæmi orkufyrirtæki í Evrópu. Það er eðlilegt að setja hvalrekaskatt á þau fyrirtæki sem hagnast á verðbólgu. Bankaskatturinn er að mínu mati nógu hár, en ef við lækkum hann verður að tryggja að það skili sér til viðskiptavina. Það er alltaf áskorun á Íslandi þar sem fákeppni er í öllum atvinnugreinum,“ segir Sigurður Ingi,“ segir í viðskiptakálfi Moggans.

Þarna opinberar formaður Framsóknar að hann stendur einn í eigin þingflokki. Aðrir þingmenn fylgja varaformanninum, Lilju Alfreðsdóttur, að máli.

„Fjármálafyrirtæki eiga að mínu viti að vera þjónustufyrirtæki en ekki maskínur sem búa til peninga.“

Áfram með fréttina: „Á Íslandi eru gerðar ríkar kröfur um bindiskyldu á fjármálafyrirtæki og erum við með mestu kröfur í Evrópu í þeim efnum. Þær hafa orðið til þess að arðsemi bankakerfa er lítil hér á landi líkt og ViðskiptaMogginn hefur reglulega fjallað um. Sigurður Ingi segir ekki tímabært að létta á regluverki á fjármálageirann. Hann segir ekki nægilega langan tíma liðinn frá efnahagshruninu árið 2008.

„Ég held við séum ekki komin nægilega langt frá þeirri skelfingu sem greip um sig við bankahrunið 2008. Seinni salan á Íslandsbanka sýndi hversu mikilvægt það er að traust standi á sterkum grunni. Það er betra að vera með skýrar reglur og mikið traust. Íslenskt fjármálakerfi er vel fjármagnað og með góða eiginfjárstöðu. Við getum sagt að staðan er mjög góð. Fjármálafyrirtæki eiga að mínu viti að vera þjónustufyrirtæki en ekki maskínur sem búa til peninga,“ segir Sigurður Ingi.“

Hallelúja. Mogginn og Sigurður Ingi haldast í hendur í þessu máli. Að betra sé að leggja þungann á almenning en góða stöðu bankanna. Lilja hlýtur að skora Sigurð Inga á hólm við fyrsta tækifæri. Hann talar eins strengjabrúða Bjarna Benediktssonar.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: