- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn er einsog áhrifalaus hjálparkokkur

„Sjálfstæðisflokkurinn kom illa laskaður út úr síðustu borgarstjórnarkosningum, eftir að hafa verið í pólitísku orlofi í borginni um árabil. Kjósendum var ekki skemmt, ekki einu sinni þeim sem af tryggð kusu flokkinn samt. Ekki er augljóst hvernig hann getur náð sér upp úr þeirri ömurlegu stöðu. Hann þarf auðvitað fyrst og síðast að sýna að hann viti í hverra umboði hann starfar og hætta að dingla í bandi meirihlutans eins og áhrifalaus hjálparkokkur. Flokkurinn þarf að vera gagnrýninn og ábyrgur í senn.“

Þannig skrifar Davíð Oddsson í Morgunblaði dagsins. Hann er ekki bara ósáttur við arftaka sína hjá flokknum í borginni. Hann leynir ekki vanþóknun sinni á Jóni Gnarr og þeim sem voru samferða honum.

„Borgin hefur verið að drabbast niður. Umgengni fer aftur og hirðusemi borgaryfirvaldanna sjálfra hefur aldrei verið máttlausari. Sá sem þáði borgarstjóralaunin síðasta kjörtímabil taldi sig ekkert hafa með slík mál að gera. Og það sem verra var, þeir sem raunverulega fóru með borgarstjóravaldið voru jafn áhugalausir og duglitlir. Á síðasta kjörtímabili var einkar illa haldið á málefnum eldri borgaranna. Þar má mikið bæta. Skipulagsmálin eru einnig tilvalið verkefni til að láta sjást til sín.“

Að lokum vitnar borgarstjórinn fyrrverandi í grein sem birst hafði í Morgunblaðinu. Þar skrifaði Gestur Ólafsson arkitekt og hann skrifaði; „…hversu afleiðingar af vondu skipulagi geta verið afdrifaríkar og til langs tíma“. Davíð velur einnig þennan kafla úr greinni: „Í Reykjavík er það þannig með ólíkindum ef nýir borgarfulltrúar vilja t.d. ekki endurskoða aðalskipulag borgarinnar, þótt ekki væri nema viðvíkjandi framtíð flugvallarins, byggingu mosku, jarðgöngum í gegnum Öskjuhlíðina, sem enginn veit hvernig eiga að enda og einu stærsta verslanahverfi Íslands á Örfirisey, sem samkvæmt síðasta aðalskipulagi á að breyta í hafnir, svo eitthvað sé nefnt.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: