- Advertisement -

Sjálfstæðisflokkurinn er glæpafélag

Þór Saari skrifar:

„Hitt er annað að það kemur á óvart ef að kjósendur Framsóknar og Vinstri-grænna styðji skattsvik af sömu áfergju og Sjálfstæðismenn.“

Þetta er klassík. Núverandi ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Vinstri-grænna undir forystu Katrínar Jakobsdóttir formanns Vinstri-grænna, lagði niður embætti Skattrannsóknarstjóra. Það var gert í þeim tilgangi, og þeim tilgangi einum, að torvelda eða koma í veg fyrir rannsóknir á skattsvikum.

Nú er það svo sem ekkert nýmæli að fjölmargir stuðningsmenn og kjósendur Sjálfstæðisflokksins vilji ekki greiða skatta enda lifa þeir í einhverri firringu um að þeir komist af sem „einstaklingar.“ Hitt er annað að það kemur á óvart ef að kjósendur Framsóknar og Vinstri-grænna styðji skattsvik af sömu áfergju og Sjálfstæðismenn.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Formaður efnahags- og viðskiptanefndar sem klúðraði málinu og hafnaði rökstuddu áliti um að eftirlit yrði ómögulegt með þessu fyrirkomulagi, er Sjálfstæðismaðurinn Óli Björn Kárason, maður sem hefur hatast við íslenskt samfélag alla sína ævi. Varaformaðurinn er svo Jón Steindór Valdimarsson úr Viðreisn og fulltrúi Samtaka atvinnulífsins, en sá flokkur virðist vera á sama báti og Sjálfstæðismenn þegar kemur að skattsvikum.

Sjálfstæðisflokkurinn er ekki stjórnmálaafl, ekki lengur, heldur glæpafélag, hverra innanbúðarklíkan mun halda áfram að vega að samfélagsgerðinni svo klíkubræðurnir í Garðabæ geti makað krókinn. Formaðurinn er ósnertanlegur flokksmönnum þar sem hann hefur aflýst landsfundi flokksins og þar með tryggt sjálfum sér og fjölskyldunni áframhaldandi völd þar á bæ. Eins og segir í fréttinni:

„Embætti skattrannsóknarstjóra gagnrýndi frumvarpið í athugasemd sem það skilaði inn á meðan að það var til meðferðar á Alþingi þar kom fram að það teldi frumvarpið ganga gegn tilgangi sínum, sem var að koma í veg fyrir tvöfalda refsingu og tvöfalda málsmeðferð í skattamálum.

Þá var bent á að héraðssaksóknari hefði ekki aðgang að upplýsingakerfum skattyfirvalda, sem væri ómissandi verkfæri við rannsóknir á skattamálum. Í umsögninni sagði: „Aðgangur að þessum kerfum er aðeins fyrir hendi hjá skattyfirvöldum. Eigi frumrannsókn mála að fara annars staðar en hjá skattyfirvöldum er óheftur aðgangur að þeim kerfum lykilforsenda þess að slíkar rannsóknir reynist mögulegar.“

„Meirihluti efnahags- og viðskiptanefndar tók ekki tillit til þessara athugasemda og fjármála- og efnahagsráðuneytið sagði þær byggðar á misskilningi. Þann 20. apríl síðastliðinn varð frumvarpið samþykkt.“

Ég hvet alla kjósendur Framsóknarflokksins og Vinstri-grænna til að endurskoða afstöðu sína til þessara flokka. Skattsvik eru þjófnaður og stuðningur við þau er stuðningur við þjófnað.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: