- Advertisement -

Skilaboð til Dags borgarstjóra: Við látum ekki kúga okkur til hlýðni

Sólveig Anna, formaður Eflingar skrifar:

Eftir allt sem að á hefur gengið, eftir að hafa verið í meira en 10 mánuði með lausa samninga, eftir að hafa mætt á fjölda funda við samninganefnd Reykjavíkurborg og upplifað þar algjört virðingarleysi fyrir kröfum okkar og þeim fregnum sem að við höfum fært úr baklandi okkar, um óþolandi lág laun, um hrikalegt álag, um virðingarleysi, hefur samninganefnd Eflingar tekið þessi sögulegu ákvörðun:

Við ætlum ekki að mæta samninganefnd Reykjavíkurborgar lengur hjá embætti ríkissáttasemjara. Við ætlum að eiga samningaviðræður við borgarstjóra fyrir opnum tjöldum. Við höfum ekkert að fela. Við krefjumst þess að borgarstjóri axli ábyrgð á framgöngu samninganefndarinnar og við krefjumst þess að hann axli þá pólitísku ábyrgð sem að hann sannarlega ber á því að semja af sanngirni við okkur. Það er með algjörum ólíkindum að þau sem að fara með völd í Reykjavík feli sig á bak við samninganefnd og láti sem að við séum ekki til. Undirskriftir eitt þúsund félagsmanna Eflingar og starfsfólks borgarinnar þar sem að þess var krafist að borgin gengi frá kjarasamningi við okkur var hunsuð af Degi B. Eggertssyni. En hann lagði blessun sína yfir að Þórdís Lóa héldi sérstakt samsæti í Höfða með fulltrúum atvinnurekanda og fjármagnseigenda til að borgin gæti betur brugðist við þeirra löngunum og kröfum! Ég veit ekki af hverju þau telja þetta boðlega framkomu en ég veit að við, samninganefnd Eflingar, erum fyrir löngu komin með nóg.

„Ég skammast mín fyrir launin mín“.

Í síðustu viku lögðum við fram tilboð til borgarinnar. Þau sýndu því ekki mikinn áhuga og vildu ekki ræða það frekar á fundinum. Því var aftur á móti lekið í fjölmiðla, í þeim tilgangi að slá vopnin úr höndum okkar og reyna að niðurlægja okkur á opinberum vettvangi, fyrst það hefur ekki borið árangur að beita þeirri nálgun á samningafundum. En við látum ekki kúga okkur til hlýðni.

Borgin sparar sér mörg hundruð milljónir á ári vegna þess að hún uppfyllir ekki og getur ekki uppfyllt lögbundna skyldu um að hlutfall leikskólakennara í leikskólum borgarinnar sé 33% af starfsliðinu. Ég vil nefna að ríflega 80 Eflingar-meðlimir (því sem næst allt konur) eru nú í stöðum deildarstjóra á leikskólunum. Bera þar ótrúlega mikla ábyrgð fyrir einstaklega léleg laun. Reykjavíkurborg nýtir vinnuaflið okkar til fulls, nýtir okkur til að geta rekið það dagvistunnarkerfi sem að öllum hlýtur að vera ljóst að skiptir íbúa þessarar borgar öllu máli, nýtir okkur til að halda grunnþjónustunni gangandi.

„Ég skammast mín fyrir launin mín“. Ég hef oft heyrt þessi orð frá konum í umönnunarstörfum, láglaunakonum Íslands. Því það er sárt að fá svo lítið útborgað eftir endalausa vinnu undir miklu álagi að það dugi ekki til að láta enda ná saman. Það er sárt að þurfa að hlaupa í vinnu númer tvö til að geta staðið skil á húsaleigu. Það er sárt að fá enga viðurkenningu, ekkert þakklæti. Það er sárt að lifa við stöðugar fjárhagsáhyggjur. Það er sárt og það getur vakið skömm að upplifa að mega ekki borða matinn sem að þú hefur sjálf útbúið, að þú eigir frekar að henda honum í ruslið en að næra sjálfa þig, af því að borgin leggur svo mikla áherslu á moltugerð (moldin er mikilvægari en konan…).

Konum hefur verið kennt að skammast sín fyrir ýmislegt í gegnum tíðina, því er ekki hægt að neita.

Við erum hér. Við erum á leið í verkfall.

En hverra er skömmin? Hún er þeirra sem að láta sem að það sé ekkert athugavert við að risastór hópur kvenna undir þeirra stjórn afli svo lágra tekna að þær dugi ekki til að láta enda ná saman, dugi ekki til að tryggja fjárhagslegt sjálfstæði. Hún er þeirra sem að láta ennþá, eftir 10 mánaða árangurslausar viðræður, eins og við séum ekki til. Hún er þeirra sem að tala stöðugt um kvenréttindi og kvenfrelsi en hafa ekkert gert til að rétta kjör láglaunakvenna, þó að sannarlega hafi þau árum saman haft völdin til þess. Þeirra er skömmin og þangað ætlum við að skila henni.

Við erum hér. Við erum á leið í verkfall. Við munum berjast þangað til við höfum verið viðurkennd og okkur tryggt mannsæmandi viðurværi. Borgin er í okkar höndum!


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: