- Advertisement -

Stjórnmálafólkið spilar stjórnmálaspilið

Gunnar Smári skrifar:

Í fréttum af könnun Maskínu um hvern fólk vildi helst sem forsætisráðherra kom ekki fram að 5,5% nefndu eitthvað annað en þá átta formenn eða leiðtoga sem boðnir voru fram sem valkostir. Ef við skoðum hvort sá hópur skiptist með afgerandi hætti þá má sjá að þau sem ekki krossa við valkosti þingflokkanna eru frekar úti á landi en í höfuðborginni, frekar á móti ríkisstjórninni en ekki (og reyndar líka frekar óánægð með stjórnarandstöðuna á þingi), frekar með lægri tekjur en hærri, frekar með minni menntun en meiri, frekar konur en karlar og líklegust til að kjósa Sósíalistaflokkinn og þar á eftir Pírata eða Flokk fólksins, sem er röðin sem eru á flokkum eftir því hversu rækilega þeir hafna elítustjórnmálunum. Og staða hópsins sýnir það sama; því fjarri sem það er valdinu (búseta, tekjur, menntun, kyn o.s.frv.) því ólíklegra er að það fái sig til að krossa við eitthvað af fólkinu á þingi.

Í samfélagi þar sem aðeins 1/4 ber traust til Alþingis og 1/6 til borgarstjórnar ætti náttúrlega að bjóða upp á kostinn „engan þessara“ í svona spurningu, það er ef fólk hefur áhuga á að skrá afstöðu almennings. Ég myndi spá að sá kostur myndi fá flest atkvæði.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Auðvitað er tilgangslaust, eiginlega skaðlegt, að stilla könnunum upp með þeim hætti sem Maskína gerir. Þarna eru niðurstöður kynntar sem í reynd voru kreistar fram með því að þrengja að vali þátttakenda. Og svo koma fræðimenn og fréttaskýrendur á eftir og draga ályktanir út frá þröngvaðri niðurstöðu. Og þar á eftir kemur stjórnmálafólkið og reynir að spila stjórnmálaspilið eftir þeim forsendum. Afstaða almennings féll af vagninum einhvern tímann löngu fyrr.

Af þeim sem sögðust styðja Sósíalistaflokkinn í könnuninni krossuðu 1/4 við Katrínu Jakobsdóttur, 1/4 við Þórhildi Sunnu og 1/4 við engan af valkostunum. Af restinni tók Logi 1/7 og restin fór nokkuð jafnt á Ingu Sæland og Þorgerði Katrínu. Engin sósíalisti krossaði við Bjarna, Sigurð Inga eða Sigmund Davíð.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: