- Advertisement -

Suðurnesin sitja eftir

Guðmundur Auðunsson skrifar:

Sósíalistar neita að hlusta á úrtölur nýfrjálshyggjumanna sem vilja að ríkið og sveitarfélög komi ekki nálægt atvinnusköpun.

Atvinnuleysi náði hæstu hæðum í sögulegu samhengi á Íslandi í Kórónukreppunni. Það hefur sem betur fer minnkað töluvert, sérstaklega með endurkomu ferðamanna til landsins. Út um allt land fer atvinnuleysi minnkandi. En eitt svæði býr enn við mjög hátt atvinnuleysi. Það eru Suðurnesin á Reykjanesskaga. Þó atvinnuleysið hafi lækkað á svæðinu frá þeim tíma sem það var verst þá hangir það enn í 14% af atvinnufæru fólki.

Í júlímánuði voru 1722 einstaklingar atvinnulausir á Suðurnesjum. Það er auðvitað lægri tala en þau tæplega 3500 sem voru atvinnulaus á hápunkti kórónaveirufaraldurins. En það breytir því ekki að þetta eru svakalegar tölur. Þetta er um þriðjungs fleiri einstaklingar en allir íbúar Voga á Vatnsleysuströnd! Auðvitað kemur þetta atvinnuleysi niður á mun fleira fólki en þeim sem eru atvinnulausir, þessir einstaklingar eiga oft fjölskyldur og þurfa að standa fyrir hækkandi húsnæðiskostnaði, gjöldum í heilsugæslu og hafa í sig og á fyrir sig og börnin sín.

Sósíalistar eru með skýra stefnu

Þú gætir haft áhuga á þessum

Við vitum vel hvað þeim gengur til.

Atvinnuástandið á Suðurnesjum er gersamlega óásættanlegt. Verði ekkert að gert má búast við að ástandið versni einungis þar sem við búum nú við hámarksvinnuframboð sumartímans. Fólk er í hættu við að festast í vítahring langtímaatvinnuleysis og fátæktar. Sósíalistar vilja bregðast við þessu ekki seinna en strax. Í stað atvinnuleysisbóta á samfélagið að tryggja öllum vinnufærum vinnu við sitt hæfi. Við þurfum sem samfélag að nýta okkur starfskraft allra til uppbyggingar á innviðum samfélagsins sem hafa setið á hakanum, auka þjónustu við almenning með uppbyggingu á úrræðum og þjónustu við eldra fólk og óvinnufæra, byggja upp öflugt barna og unglingastarf sem standi öllum börnum óháð efnahag til boða. Og síðast ekki síst, þá þarf allur heimurinn að ganga í gegnum umbyltingu til að berjast gegn hamfarahlýnuninni. Fjölmörg verkefni tengd orkuskiptum, sjálfbærni í atvinnurekstri og skynsamlegri uppbyggingu ferðamannastaða eru framundan. Og vissulega á að auka starfsmannafjöldann á Keflavíkurflugvelli til að geta haldið uppi ásættanlegu þjónustustigi. Það er samfélagsleg nauðsyn að nýta starfskrafta allra sem geta lagt hönd á plóg til þessara verkefna. Atvinnuleysi, sérstaklega langvarandi atvinnuleysi á ekki að líðast í okkar ríka samfélagi. Sósíalistar neita að hlusta á úrtölur nýfrjálshyggjumanna sem vilja að ríkið og sveitarfélög komi ekki nálægt atvinnusköpun. Við vitum vel hvað þeim gengur til. Kapítalistar vilja hafa aðgang að stórum hópi atvinnulausra til að keyra niður laun og nota það sem hótun gagnvart starfsfólki sínu að ef það hegði sér ekki eins og atvinnurekandinn segir verði það einfaldlega rekið og gert atvinnulaust. Þetta munu Sósíalistar aldrei sætta sig við. Og þú getur líka sagt nei við atvinnuleysi og kosið J-lista Sósíalista í kosningunum 25. september.

Höfundur skipar fyrsta sæti á J-lista Sósíalistaflokks Íslands í Suðurkjördæmi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: