- Advertisement -

„Svartur dagur í starfsemi ASÍ“

ASÍ gefur allt en fær ekkert nema orðagjálfur. Loforð frá mönnum sem ekki er treystandi.

Katrín Baldursdóttir skrifar:

Þetta er svartur dagur í starfsemi ASÍ. Yfirlýsingin milli ASÍ og Icelandair er komin og hún er hvorki fugl né fiskur. Bara almenn tugga um betra samstarf. Öll hin alvarlegu brot Icelandair á starfsfólki og vinnulöggjöf bara látin niður falla. Engin mál fyrir félagsdóm. Þessi yfirlýsing mun ekki hafa neitt að segja, eða hafa áhrif til batnaðar í samskiptum ASÍ við Samtök atvinnulífsins, sem líka skrifa undir yfirlýsinguna. Nafn Halldórs Benjamíns Þorbergsson framkvæmdastjóra SA er á plagginu. Þessum mönnum er að sjálfsögðu ekki treystandi þrátt fyrir fagurgala og loforð um bót og betrun. Og Halldór Benjamín sem er beinlínis búin að segja að allar forsendur lífskjarasamningsins séu brostnar. Líklegasta sviðsmyndin er að Halldór Benjamín muni fyrir hönd SA stinga rýtingnum í bakið á launafólki og segja upp lífskjarasamningum fyrir hönd atvinnurekenda. Þó maður voni ekki.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Korteri fyrir hlutfjárútboð Icelandair gerir ASÍ þessa syndaaflausn.

Í lok þessara þunnu yfirlýsingar, þar sem ekkert er fast í hendi, segir: „Aðilar munu leggja sig fram um að halda góðu sam­starfi og munu leggja sitt af mörkum til þess að endur­vinna og efla traust sín í milli. Með yfir­lýsingu þessari eru aðilar sam­mála um að með henni ljúki öllum deilum milli þeirra um þá at­burði sem áttu sér stað í sam­skiptum þeirra þann 17.7 2020 og mun hvorugur aðila gera kröfur á hinn vegna þeirra.“

ASÍ gefur allt en fær ekkert nema orðagjálfur. Loforð frá mönnum sem ekki er treystandi. Mönnum sem án þess að blikna hafa lagt líf fjölda manns í rúst. Það nýjasta er að um 70 flugfreyjur/þjónar sem áttu að fá endurráðningu samkvæmt samningi Icelandair og Flugfreyjufélagsins fengu fram í sig blauta tusku og fengu ekki endurráðningu. Fólk sem hefur allan sinn starfsaldur helgað sig félaginu og átti samkvæmt starfsaldri  að fá endurráðningu. Yfirleitt eldri flugfreyjur. Eitthvað var tínt til svo hægt væri að losna við þær. Þá voru þeim sem fengu endurráðningu gert að lækka starfshlutfall niður í 75%.

Þetta er dapur dagur. Korteri fyrir hlutfjárútboð Icelandair gerir ASÍ þessa syndaaflausn. Þessa yfirlýsingu kemur sér ákaflega vel fyrir Icelandair svo þrýsta megi á lífeyrissjóðina um aukið hlutafé. ASÍ stuðlar því að enn verði seilst í sjóði almennings til þess að bjarga Icelandair sem nú þegar er tæknilega gjaldþrota. Þess vegna getur allt hlutafé frá lífeyrissjóðunum verið tapað fé. Eins og staðan er núna eru miklar líkur á því.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: