„Nú í vikunni bárust loks svör þess efnis að öllum tillögunum væri hafnað.“
Rósa Guðbjartsdóttir.

Sjálfstæðisflokki.
„Um 700 manns eru á biðlista eftir hjúkrunarrýmum í landinu. Samkvæmt þarfagreiningu má búast við að á næsta ári verði hátt í 1.000 manns á biðlista. Ríkisstjórnin boðar það að halda áfram á sömu braut og fyrri ríkisstjórn, að fjölga hjúkrunarrýmum og bregðast við vaxandi þörf, en gera má ráð fyrir að hvert nýtt hjúkrunarrými kost í byggingu um 65 millj. kr. Miðað við spár um aldurssamsetningu landsmanna þarf því á næstu 15 árum að fjárfesta í nýjum rýmum fyrir um 230 milljarða kr. Það er augljóst að ríkið ætti ekki og getur ekki staðið að öllum þessum innviðafjárfestingum sjálft. Uppbyggingin verður að vera gerð í nánu samstarfi við einkaaðila á markaði, lífeyrissjóði, fjármálastofnanir og frjáls félagasamtök,“ sagði Rósa Guðbjartsdóttir Sjálfstæðisflokki á Alþingi í gær.
„Fyrri ríkisstjórn og heilbrigðisráðherra höfðu áttað sig á þörfinni og fjárhæðunum sem um ræðir og undirbúið markaðskönnun til að auglýsa eftir einkaaðilum um samstarf við uppbyggingu hjúkrunarheimila. Auglýst var í lok síðasta árs eftir áhugasömum aðilum sem vildu leggja til fasteignir til leigu. Húsnæðið ætti a.m.k. að vera á þeim stað í byggingarfasa að skipulag og ytri hönnun lægju fyrir þegar tilboði væri skilað en það hefur tekið hina nýju ríkisstjórn um hálft ár að svara þeim aðilum sem sendu inn tilboð og tillögur,“ sagði Rósa og bætti við:
„Nú í vikunni bárust loks svör þess efnis að öllum tillögunum væri hafnað. Fjöldi áhugasamra fjárfesta, sem höfðu lagt mikla vinnu í tillögur sínar, fékk bara nei frá ráðuneytinu án frekari skýringa. Miðað við ýmislegt sem sagt hefur verið upp á síðkastið um aðkomu einkaaðila að heilbrigðis- og velferðarmálum þá læðist að manni sá grunur að hér sé bara um að ræða hreina andstöðu hjá valkyrjustjórninni við það að einkaaðilar komi að innviðafjárfestingum sem þessari. Vonandi er sá grunur ekki réttur en þessi afstaða til tilboða einkaaðila sem eru langt komnir með hönnun sína og útfærslu er ekki til að auðvelda eða flýta fyrir að hjúkrunarrýmum fjölgi. Það þarf að skýra hvað veldur því að þessu samstarfi við einkaaðila er hafnað með svo afdráttarlausum hætti. Það stefnir í neyðarástand í þessum málum.“