Það er mjög lítil festa í slíkum loforðum.
Bergþór Ólason.
„Hver er síðan staðreyndin sem blasir við okkur? Í fjármálaáætlun sem nú liggur fyrir eru ekki miklar meldingar um að þar séu áform um að tekjur af auknu veiðigjaldi skili sér til vegagerðar á næstu fimm árum. Raunar er bara gert ráð fyrir því á einu ári áætlunartímabilsins. Sveitarfélögum á Snæfellsnesi var lofað miklum vegabótum í tengslum við sameiningar, ætli það hafi ekki verið 1994, ég man ekki ártalið nákvæmlega. Það tók svona sirka 20 ár að uppfylla það loforð sem sneri að stórum hluta til að því að laga veginn um Fróðárheiði. Það er mjög lítið í hendi hvað varðar ráðstöfun þeirra fjármuna sem hér er áformað að taka af fyrirtækjum sem eru fyrst og fremst úti á landsbyggðinni, færa í ríkissjóð og fela okkur hér í þessum sal síðan að höndla með að endurúthluta. Það er mjög lítil festa í slíkum loforðum. Það er bara reynslan og það er ekkert sem bendir til þess að það sé að verða breyting þar á með þeirri ríkisstjórn sem nú situr, ekki neitt,“ sagði Bergþór Ólason Miðflokki á Alþingi.
Bergþór er ákveðnastur stjórnarandstæðinga um þessar mundir. Talar hið minnsta manna mest.
„Ég vil bara hvetja þá sem horfa á þessa umræðu utan úr bæ að gjalda varhuga við þessum loforðum, enda hafa stjórnarliðar verið að dreifa þessum meintu framtíðartekjum í allar áttir. Ég sá hér athugasemd þar sem var vísað í þingmann sem ég treysti mér ekki til að nefna hver var í augnablikinu, ég skal koma inn á það í síðari ræðu, þar sem þessir peningar áttu m.a. að fara til einhvers lags félagslegrar uppbyggingar í þeim stoðkerfum. Þessum krónum verður bara varið einu sinni og fyrirtækin og samfélögin þar sem þessi starfsemi er stunduð eru að mínu mati miklu betur til þess fallin að nýta þetta þannig að áframhaldandi arður og uppbygging hljótist af, í stað þess að senda það verkefni hingað til okkar við Austurvöll,“ sagði Bergþór.
Hann endaði ræðu sína svona:
„Þetta eru gríðarlegar álögur sem er verið að leggja hér til og þær leggjast fyrst og fremst á landsbyggðina. Ég hvet landsbyggðarþingmenn til að koma hér í þessa umræðu, sérstaklega landsbyggðarþingmenn stjórnarflokkanna, bjóða upp á andsvör og bjóða upp á það að tala fyrir málinu eins og það liggur. Ef menn gera það ekki þá verður vantraustið í garð þess sem hér liggur fyrir enn meira en nú er og er það nú drjúgt.“