- Advertisement -

Þegar launafólk vill fá stærri hluta af framleiðniaukningunni, þá er það frekja

Marinó G. Njálsson:

Árið 2021 högnuðust 34.700 fyrirtæki um rétt tæplega 675 ma.kr. (eftir skatt) sem er mesti hagnaður sem kemur fram í þessum tölum Hagstofunnar

„Þróun launa nú er um­fram þróun á fram­leiðni. Það er staða sem verður að gefa gaum, ann­ars töp­um við öll, og allra mest þau sem átti kannski mest að koma til aðstoðar með hærri laun­um.“

Mig langar að snúa þessu aðeins áður en ég skoða fullyrðinguna betur:

„Þróun hagnaðar nú er um­fram þróun á fram­leiðni. Það er staða sem verður að gefa gaum, ann­ars töp­um við öll.“

Hvað ætli margir á Eflingasamningum hafi fengið bónusa fyrir vel unnin störf?

Hvers vegna þykir það flott, þegar hagnaður og arðgreiðslur hækka og hækka, en laun þeirra sem eru grunnurinn að hagnaðinum mega ekki hækka vegna þess að það er ímynduð ógn við stöðugleika.

Skoðum orð þingmannsins og berum saman við breytingu á framleiðni milli 2019 og 2021 hjá fyrirtækjum sem Hagstofa hefur unnið upplýsingar um upp úr ársskýrslum sem skilað er til skattsins. Tekið skal fram, að fjármálafyrirtæki eru ekki með í þessum samanburði.

Síðasta ár í tölum Hagstofunnar er 2021 og ég nota 2019 sem viðmiðun. Ekki vegna þess að sá samanburður gefi „rétta“ niðurstöðu, heldur vegna þess að ekki er að marka árið 2020 vegna þeirrar röskunar sem þá varð á rekstri ansi margra fyrirtækja.

Framleiðni er almennt reiknuð sem tekjur atvinnurekanda á unna vinnustund starfsmanns.

Til að fá upplýsingar um þróun vinnustunda, þá fletti ég upp upplýsingum um Laun, einnig á vef Hagstofunnar, og þar kom í ljós að meðalvinnustundafjöldi fullvinnandi var 182,9 klst./mánuði árið 2019, en 177,4 klst./mán. árið 2021. Þeim hafði því fækkað um 5,5 klst. á milli ára eða 3,0%

Samkvæmt gögnum úr ársreikningunum voru 126011 fullvinnandi árið 2019 og 113717 tveimur árum síðar, sem gerir 9,8% samdrátt. Heildartekjur fyrirtækjanna voru 4.592 ma.kr. árið 2019 og 5.071 ma.kr. árið 2021, sem gerir aukningu um 10,4%. Þannig að 9,8% færri fullvinnandi launþegar sköpuðu 10,4% meiri verðmæti á 3,0% færri vinnustundum árið 2021 en 2019. Þetta gerir 26,2% framleiðniaukningu á milli þessara tveggja ára! Fyrir þetta fékk hver starfsmaður að jafnaði 10,7% hærri laun.

Árið 2021 högnuðust 34.700 fyrirtæki um rétt tæplega 675 ma.kr. (eftir skatt) sem er mesti hagnaður sem kemur fram í þessum tölum Hagstofunnar frá því að hún byrjaði að taka þessar tölur saman árið 2002. Árið 2019 var hagnaðurinn 266 ma.kr. Með öðrum orðum var hagnaðurinn árið 2021 154% aukning frá árinu 2019. Fyrirtækin tóku sem sagt til sín yfir 2/3 af framleiðniaukningunni og skiluðu 154% meiri hagnaði. Svo þegar launþegar vilja fá í sinn hlut stærri hluta af framleiðniaukningunni, þá er það frekja og gæti leitt til þess að allir tapi.

Ég veit ekki hver hagnaður verður vegna ársins 2022, samkvæmt þeim ársreikningum sem Hagstofan safnar upplýsingum úr. En árið 2021 var MJÖG gjöfult fyrir ansi mörg fyrirtæki í landinu. Það var öllum í fyrirtækinu að þakka og ekki síst þeim sem vinna á gólfinu. Hvað ætli margir á Eflingasamningum hafi fengið bónusa fyrir vel unnin störf?

e.s. Tölur Hagstofunnar ná til það sem kallað er viðskiptahagkerfið utan lyfjaframleiðslu, sorphirðu og fjármála- og vátryggingastarfsemi. Opinberir aðilar eru utan við þessar tölur.

Marinó birti greinina fyrst á Facebooksíðu sinni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: