- Advertisement -

Þetta er hluti af íslenskum heilaþvotti tengdum verðtryggingu

Marinó G. Njálsson:

Enn ein vaxtahækkun. Merkilegt hvað þær virka illa.

Af hverju ættu eingöngu heimilin og fyrirtækin í viðskiptahagkerfinu að greiða hærri vexti en nemur breytingum á vísitölu neysluverðs?

Enn ein vaxtahækkun. Merkilegt hvað þær virka illa. Meðan vextir hafa hækkað úr 0,75% í 7,5% (þ.e. tíföldun), þá hefur verðbólgan farið úr 4,5% í 10,2%, þ.e. hún hefur hækkað nánast jafn mikið og vextirnir. Ég ætla svo sem ekki að segja að öll verðbólgan sé vegna vaxtanna, en ætli sé orsakasamhengi, þ.e. verðbólgan hækkar og helst há vegna þess að vextirnir hafa hækkað? Þessu vilja sumir hagfræðingar halda fram.

Eitt og annað kom fram á fundi seðlabankastjóra og varaseðlabankastjóra í morgun og langar mig að skoða nokkur þeirra með gagnrýnum huga.

1. Spenna á vinnumarkaði er töluverð:

Hmm, atvinnuleysi milli janúar og febrúar jókst um 61% úr 3,1% í 5,0% samkvæmt tölum Hagstofunnar sem birtar voru á meðan fundinum stóð. Vissulega er almennt mikið atvinnuleysi þessa mánuði, en 61% hækkun atvinnuleysis milli mánaða bendir ekki til mikillar spennu, nema að bankastjórarnir séu að vísa til einhvers sérstaks geira.

2. Útlán bankanna til fyrirtækja hefur aukist mikið á síðustu mánuðum:

  • a. Alveg hárrétt, en skoða verður til hvaða reksturs lánin hafa aukist og hvort það gætu verið tengsl á milli hækkunar vaxta og hækkunar lána. Átti Seðlabankinn von á öðru eftir að hagkerfið losnaði úr hömlum faraldursins?
  • b. Skoðum þetta frá öðru sjónarhorni. Hækkun skulda fyrirtækja við bankakerfi milli mars 2020 (þ.e. frá upphafi heimsfaraldurs) og janúar í ár er 149 ma.kr., en 214 ma.kr. frá janúar 2022 til janúar 2023. Hér er því að einhverju leyti um að ræða, að hagkerfið er að komast í gang eftir heimsfaraldurinn. Áttu seðlabankastjórarnir ekki von á því að það gerðist? Hverju áttu þeir þá von á? Hver var framtíðarsýn Seðlabankans um hvað tæki við að loknum faraldrinum? Hvernig undirbjó Seðlabankinn lok faraldursins? Var hann kannski ekki undirbúinn?
  • c. Hvernig eru þessir 214 ma.kr. samsettir? Sjávarútvegur hefur hækkað skuldir sínar um 16,5 ma.kr., byggingastarfsemi um 56,2 ma.kr., fasteignafélög um 55,3 ma.kr. og önnur þjónusta um 34,2 ma.kr. Aðrir minna eða skuldir dregist saman. Ólíklegt er að lán fasteignafélaga eða sjávarútvegsins séu verðbólguhvetjandi, annars vegar er ólíklegt að lánin til fasteignafélaganna hafi endað í neysluhluta hagkerfisins og hins vegar eru lán sjávarútvegsins óverulegur hluti af veltu þeirra. Í hvorugu tilfelli hafa lánin nokkuð að gera með kjarasamninga. Hvað varðar lán til annarra þjónustugreina, þá toppuðu þau í ágúst og hafa farið lækkandi síðan! Aftur er erfitt að tengja hækkunina á 12 mánuðum við kjarasamninga.

3. Verðbólgan dreifist á marga þætti vísitölunnar:

  • a. Bjagi í vísitölumælingu: Verðbólga lýsir 12 mánaða þróun vísitölu neysluverðs. Vissulega kom hækkunin í febrúar á óvart, en í mælingunni voru líka atriði sem ekki standast skoðun. T.d. að matarkostnaður heimilanna hafi verið hærra hlutfall útgjalda í febrúar en í desember! Að almenningur æði út í búð og kaupi nýja vöru um leið og útsölum ljúki, sérstaklega fatnað og húsgögn og heimilisbúnað, en þetta tvennt vóg 0,6 af 1,39 af hækkun vísitölu milli mánaða. Að mismunurinn á hita og rafmagni milli janúar og febrúar endurspegli ekki að það muni þremur dögum á mánuðunum. Vissulega sveiflast þetta í hina áttina í öðrum mánuðum, en þar til gert hefur verið ítarlega grein fyrir sveiflum í neyslu einstakra undir- og yfirflokka vísitölu neysluverðs, þá er einfaldlega ekki hægt að segja að mælingin sé rétt.
  • b. Margir þættir vega þungt: Þetta er einfaldlega rangt og eitthvað sem einhver kastaði fram án þess að skoða það nánar. Séu orsakir verðbólgu samkvæmt mælingum í febrúar skoðaðar (þ.e. 12 mánaðabreyting), þá kemur í ljós að einungis þrír yfirflokkar undirvísitölu neysluverðs vega meira en 1,0 af þeim 10,2% sem verðbólgan er. Þetta er matur og drykkjarvörur (1,85%), húsnæði, hiti og rafmagn (4,08%) og ferðir og flutningar (2,13%). Þessir þrír yfirflokkar vega um 8,06% af 10,2% verðbólgu eða um 80%. Það er því enginn fótur fyrir því að verðbólgan dreifist á marga þætti. Hún dreifist núna, eins og alltaf, mest á þessa þrjá flokka. Og spurning hver kom fyrstur fram með þessa vitleysu.

4. Raunvextir eru neikvæðir: Hættið þessu bulli, segi ég nú bara. Vextir eru gjald fyrir fjármagn og sú ávöxtun sem lánveitandi vill fá. En þetta er hluti af íslenskum heilaþvotti tengdum verðtryggingu.

Hér eru nokkur atriði:

  • a. Engin rök hafa nokkru sinni verið færð fyrir því, að hvort vextir séu með jákvæða eða neikvæða raunávöxtun velti á hvort mjólkurlítri eða bensínlítri hækki eða lækki í verði. Þetta er einfaldlega rugl sem haldið er fram vegna þess hve auðvelt er að sannfæra auðtrúa almenning.
  • b. Ávöxtun lánveitanda af langtímaláni ákvarðast á öllum lánstímanum, en ekki nokkrum mánuðum eða árum af 40 ára lánstíma. Eingöngu verðtryggð lán bera nafnvexti umfram breytingar á vísitölu neysluverðs allan lánstímann, en það er ekki þar með sagt að lánveitandinn fái vaxtamun sem tryggi „raunávöxtun“.
  • c. Fyrir lánveitanda skiptir mestu máli að vera með jákvæðan vaxtamun. Fjármálafyrirtæki verða að vera með jöfnuð milli skulda og eigna, þannig að ekki myndist misvægi milli i) nafnvaxtaeigna og -skulda, ii) verðtryggðra eigna og skulda og iii) eigna og skulda í erlendum myntum. Það þýðir að fjármálafyrirtækin eru með nokkurn veginn jafn háar eignir og skuldir fyrir hvern af þessum þremur flokkum. Lánveitendur fá því vextatekjur og greiða vaxtagjöld og vilja að mismunurinn á þessu tvennu sé þeim í hag. Lánveitendur þurfa ekki ávöxtun sem er hærri en vísitala neysluverðs, hvorki á hverju ári né á öllum lánstímanum. Þeir slá ekki hendi á móti því, en það er vaxtamunurinn sem skiptir öllu máli.
  • d. Af hverju ættu eingöngu heimilin og fyrirtækin í viðskiptahagkerfinu að greiða hærri vexti en nemur breytingum á vísitölu neysluverðs? Af hverju ættu ekki skuldir lánveitenda líka að bera vexti sem eru hærri en breyting á vísitölu neysluverðs? Þetta eru t.d. innlánsvextir hjá innlánsstofnunum. Svarið er einfalt. Væru vextir af skuldum lánveitenda beint eða óbeint verðtryggðir (sem er hugsunin að baki jákvæðum „raunvöxtum“), þá gengi fjármálakerfið ekki upp. Það gæti enginn veitt lán eða tekið lán. Kostnaðurinn við að „fjármagna“ lánið væri einfaldlega of hár og vegna kröfu um vaxtamun, þá hefðu fáir efni á að borga vexti lánanna sem tekin væru, því þeir væru enn hærri en þeir okurvextir sem eru í dag. Vissulega gerist það stundum í lágri verðbólgu að jafnvægi komist á og allir eru lukkunnar raunvaxta pamfílar, en jafnvel í slíku ástandi, þá eru fjárfestar ekki að leita eftir ávöxtun umfram verðbólgu, heldur stöðugri, tryggri ávöxtun þannig að þeir tapi almennt ekki nafnvirði fjármuna sinna. Í merkilegri skýrslu er íslenska heilaþvotti verðtryggingarinnar vel lýst: „Ef verðtryggð lán verða bönnuð, þá bjóðast fjárfestum engir öruggir fjárfestingarkostir[!]“.

5. Áhrif kjarasamninga koma af fullum krafti: Fátt í verðbólgumælingum Hagstofunnar styður þetta.

  • a. Matur og drykkjarvörur hækkuðu vissulega mikið milli janúar og febrúar en á sama tíma lækkaði gengið verulega. Hvað varðar þennan lið er þó líklegt að kjarasamningar spili eitthvað inn í hækkun vöruverðs, en til þess að fá það staðfest, þá þarf að athuga hvernig kostnaðarverð hefur þróast.
  • b. Sé verðbólga síðustu þriggja mánaða, þ.e. frá nóvember til febrúar, skoðuð, þá jafngildir hún 12,4% ársverðbólgu. Í þessari þriggja mánaðamælingu hækkaði matur og drykkjarvörur um 4,6%, sem vegur 2,85% í þriggja mánaðaverðbólgunni, áfengi og tóbak hækkaði um 6,85% (vægi 0,68%), föt og skór lækkuðu um 2,42% (vægi -0,3%), húsnæði, hiti og rafmagn hækkaði um 1,85% (vægi 2,26%), húsgögn og heimilisvörur hækkuðu um 4,2% (vægi 1,02%), heilsa hækkaði um 2,7% (vægi 0,40%), ferðir og flutningar hækkuðu um 4,7% (vægi 2,98%), póstur og sími lækkaði um 2,8% (vægi -0,17%), menntun hækkaði um 1,3% (vægi 0,04%), hótel og veitingastaðir hækkuðu um 3,5% (vægi 0,70%) og aðrar vörur hækkuðu um 2,1% (vægi 0,59%). (Vægið sveiflast þar sem hver þáttur vegur mismikið af heildarútgjöldum heimilanna.) Af þessum atriðum ná kjarasamningar í byrjun desember að mestu (og ekki í heild) bara til flokkanna matur og drykkjarvörur, föt og skór og húsgögn og heimilisbúnaður. Þessir flokkar leggja til tæplega 3,7% af þessum 12,4% sem verðbólgan yfir þessa þrjá mánuði var á ársgrundvelli (og 0,88% af þriggja mánaðabreytingunni af 2,97% í heild).
  • c. Á sama tíma hækkaði evra um ca. 7% (frá 1. nóv. – 1. feb., en erfitt er að finna nákvæmlega það gengi sem hefur áhrif á verðmælingar Hagstofu og því voru þessar dagsetningar valdar), meðan USD lækkaði um ca. 3%. Hafi kjarasamningar því haft áhrif á verðbólgu frá gerð þeirra, þá er það ekki meira en helmingurinn af verðbólgunni frá þessum flokkum á þessum þremur mánuðum eða 0,44%, sem jafngildir innan við 15% af verðbólgu þessara þriggja mánaða. Væri þetta ekki talið með, þýddi það eitthvað um 9,8% ársverðbólgu í staðinn fyrir 10,2%. Nei, ég held að seðlabankastjórar verði að leita eitthvað annað en til kjarasamninga eftir sökudólgum.

Ég gæti örugglega tekið einhver önnur atriði, en læt þetta duga.

Greinina birti Marinó á Facebooksíðu sinni. Miðjan valdi fyrirsögnina.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: