- Advertisement -

Undirbúa aðför að Sólveigu Önnu

Sólveig Anna Jónsdóttir skrifaði merka grein í kvöld. Hún hefur heyrt að í undirbúningi sé að samþykkja ályktun gegn sér. Grein Sólveigar Önnu er hér:

Árið 2018 voru í fyrsta skipti í næstum tveggja áratuga sögu verkalýðsfélagsins Eflingar haldnar kosningar. Ég og félagar mínir á B-listanum sigruðum með miklum yfirburðum arftaka fráfarandi formanns og skrifstofu félagsins. Á meðan á kosningunum stóð en kjörstaður félagsfólks var á skrifstofu félagsins, bárust mér og félögum mínum margar ábendingar um að starfsfólk Eflingar væri með grófum hætti að stunda áróður á kjörstað. Til dæmis var sagt við þau sem komu til að kjósa að ég væri klikkuð og að það eina sem B-listinn vildi væri verkföll.

Alþýðusambandið blandaði sér í málið og framkvæmdi „rannsókn“ sem fólst í því að Magnús M. Norðdahl, formaður kjörstjórnar verkalýðsfélagsins Eflingar, talaði við starfsmenn sem sögðust ekki kannast við að reka neinn áróður á kjörstað. ASÍ lét þar við sitja í rannsóknar-störfum sínum.

Ég og félagar mínir veltum því fyrir okkur að fara með málið lengra með liðsinni lögmanns. En ég tók ákvörðun um að gera það ekki. Hvers vegna? Jú, vegna þess að ég vildi senda þau skilaboð til starfsfólks skrifstofunnar að ég ætlaði ekki að troða við það illsakir, heldur mæta til starfa með viljann til að láta hlutina ganga í fyrirrúmi. Ég vildi berjast fyrir félagsfólk Eflingar, ekki við starfsfólk skrifstofunnar. Mér varð svo auðvitað fljótlega ljóst að þarna voru manneskjur sem af ýmsum ástæðum ætluðu sér aldrei að vinna með mér, ætluðu sér aldrei að sýna mér virðingu, hvorki persónulega eða vegna stöðu minnar sem formanns Eflingar.

Þú gætir haft áhuga á þessum

SAJ:

Ég hef heyrt að starfsfólk Eflingar sé mjög áfram um að slík ályktun verði skrifuð og send til fjölmiðla á morgun. Hinn daginn hefst svo kosningin til formanns og stjórnar félagsins.

Fremst í þeim hópi voru skrifstofustjórinn og nánasti samstarfsmaður þess formanns sem stýrt hafði félaginu alla tíð, og fjármálastjórinn. Þau fóru nákvæmlega þveröfugt að við mig: Í stað að mæta með viljann til þess að láta valdaskiptin fara siðlega og eðlilega fram hófu þau heiftúðugar árásir með ósannindin að vopni. Meðal annars léku þau þann leik í aðdraganda fyrsta ASÍ þingsins sem ég og félagar mínir mættum á að senda rógs-bréf á um það bil 40 manna hóp valdafólks innan ASÍ til að mála upp þá mynd af mér að ég væri einhverskonar glæpakona. Þetta gerðu þau svo aftur í aðdraganda þings SGS. Hversvegna fóru þau fram með þessum hætti? Jú, vegna þess að ég hafði framið glæpinn að sigra þeirra frambjóðanda í kosningum, manninn sem hefði ekki hróflað við neinu í starfsemi félagsins, og vegna þess að ég féllst ekki á að opna sjóði Eflingar svo að þau gætu skammtað sér það sem þau töldu sig eiga heimtingu á.

Ástæðan fyrir því að ég rifja þetta upp hér er sú að mér hefur borist til eyrna að á morgun eigi að halda sérstakan fund starfsfólks þeirra félaga sem eiga aðild að ASÍ. Og að tilgangur fundarins sé að samþykkja og senda frá sér ályktun til stuðnings starfsfólki skrifstofu Eflingar, og gegn mér og framboði Baráttulistans til stjórnar félagsins. Ég hef heyrt að starfsfólk Eflingar sé mjög áfram um að slík ályktun verði skrifuð og send til fjölmiðla á morgun. Hinn daginn hefst svo kosningin til formanns og stjórnar félagsins.

Nú get ég auðvitað ekki fullyrt að þau sem undirbúa að senda ályktun frá stórum hópi starfsfólks félaga innan ASÍ skilji hversu gróflega þau eru með þessu að blanda sér í lýðræðislegar kosningar Eflingarfólks um það hver stýrir félaginu. En ég held að þau geri það. Ég held að til þess sé leikurinn gerður. Til að reyna með öllum ráðum að koma í veg fyrir að ég og félagar mínir á Baráttulistanum getum sigrað.

Atvinnurekendur vilja ekki deila völdum með vinnuaflinu. Valdastéttin vill ekki deila völdum með vinnuaflinu. Og staðreyndin, sú sem verður æ augljósari, er að þau sem telja sig réttmæta eigendur verkalýðsfélaganna okkar, þau sem vinna innan skrifstofuvirkisins, þau vilja það ekki heldur. Þeim finnst það einfaldlega fráleitt. Þau eiga hreyfinguna, þau eiga ASÍ og þau ætla að ráða. Þau sjá einfaldlega ekkert athugavert við reyna að hafa áhrif á það hver stýrir Eflingu. Þeim finnst ekki nóg komið af ofstækisfullum árásum og nafnlausum rógburði. Nei, það verður að halda áfram að kynda bálið.

SAJ:

Þau telja sig ekki einu sinni þurfa að bera að virðingu fyrir því að kosningar eru að hefjast í langstærsta félagi verka og láglaunafólks, kosningar sem munu móta framtíð baráttu þessa fjölmenna hóps og því hvaða árangur er mögulegur.

Sem dæmi um þá afbrigðilegu stemmningu sem ríkir innan vébanda „hreyfingarinnar“ vil ég nefna þá staðreynd að fjöldi starfsfólks ASÍ sýndi starfsmanni Eflingar sem hafði hótað að koma heim til mín og gera mér illt mikla hluttekningu hér á Facebook, þegar að honum hafði verið sagt upp störfum hjá Eflingu. Þrátt fyrir að ég hefði sagt frá því hvernig hótuninni fylgdi nákvæm útlistun á því hvernig hann hefði áður gert hótanir gegn meintum óvinum sínum að veruleika og útskýringar á því hvers vegna hann teldi að hann myndi aðeins hljóta skilorðsbundinn dóm yrði hann dæmdur vegna þess sem hann hugðist gera mér. M.a. skrifaði lögmaður ASÍ, sá sem stýrði „rannsókninni“ sem ég nefndi hér að ofan, þessi orð á Facebook-vegg mannsins: “Ömurlegar fréttir kæri félagi – á löngum ferli mínum í störfum fyrir þetta stóra stéttarfélag hefur við mig aldrei orði verið á þig hallað – þvert á móti.”

Þegar mér var bent á þessi ummæli sendi ég póst á lögmanninn sem hafði ritað þau, ásamt forseta ASÍ og framkvæmdastjóra, þar sem ég lýsti því hversu sjúkt og særandi mér þætti framferði hans. Ekkert þessara þriggja sem fengu póstinn sá ástæðu til að svara mér. Ég var í þeirra huga einfaldlega ekki þess virði að eiga heimtingu á svari eða viðbrögðum.

Það er margt að í samfélaginu okkar. Eitt af því er hið magnaða og hömlulausa virðingarleysi sem ríkir gagnvart verkafólki. Sem birtist út um allt, og nú í framferði þeirra sem hafa krýnt sjálfa sig eigendur hreyfingar vinnandi fólks. Þau telja sig ekki einu sinni þurfa að bera að virðingu fyrir því að kosningar eru að hefjast í langstærsta félagi verka og láglaunafólks, kosningar sem munu móta framtíð baráttu þessa fjölmenna hóps og því hvaða árangur er mögulegur. Þau eiga „hreyfinguna“ og eignarhald þeirra er ofar öllu öðru.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: