
Sigurjón Þórðarson þingmaður Flokks fólksins:
Styrmir Gunnarsson braut hnignun Sjálfstæðisflokksins til mergjar í bók sinni „Sjálfstæðisflokkurinn átök og uppgjör“. Í afar stuttu máli þá rekur hann hnignunina til kvótakerfisins í sjávarútvegi og hvernig flokkurinn hafi dregið taum stórfyrirtækja í stað þess að hlúa að smáfyrirtækjum. Afleiðinguna sagði hann vera að einokun stórra fyrirtækjasamsteypa hafi leitt af sér að þeir stóru hafi komist upp með að níðast hvað eftir annað á minni keppinautum og neytendum. Það má finna þessari lýsingu stoð enn í dag m.a. í sjávarútvegi, vöruflutningum, húsnæðisleigu og fjármagnskostnaði.
Af landsfundi Sjálfstæðisflokksins berast heróp um að endureisa eigi sjálfstæðisstefnuna – stétt með stétt – Og allt það gamla og góða. Allur þessi söngur er svo rammfalskur að manni verður nánast kalt við að hlusta á sönglið, þar sem þingmenn Sjálfstæðisflokksins berjast um á hæl og hnakka gegn allri nýliðun í sjávarútvegi m.a. strandveiðum og tryggja áframhaldandi frelsi til grásleppuveiða. Auk þess sem margir hverjir leggja sérstaka rækt við það að draga allan mátt úr Samkeppniseftirlitinu sem hefur það hlutverk að tryggja virka samkeppni m.a. að halda aftur af þeim stærri i því að kæfa alla nýliðun og samkeppni.