Alþingi: Gylfi Ólafsson Ísfirðingur situr nú á Alþingi sem varamaður Viðreisnar. Hann tók til máls í gær og sagði:
„Vestfirðir eru gullkista. Þrátt fyrir að vera með minna en 10% flatarmál landsins eru 30% strandlengju Íslands á Vestfjörðum og nær helmingur allra fjarða. Það er því ekki skrýtið að saga Vestfjarða og hagsaga Vestfjarða sé saga sjávarins, eða réttara sagt samspil hafs og manna. Stóra myndin er þessi: Eftir mikinn uppgang og síðar offjárfestingu tengdum sjávarútvegi var samdráttur óumflýjanlegur en síðan hefur atvinnulífið náð viðspyrnu sem er í öllum meginatriðum tengd sjónum. Sjávarútvegur í fjölbreyttum myndum er enn ein burðarstoð atvinnulífsins. Laxeldi hefur vaxið hratt og hefur alla burði til að verða leiðandi í enn aukinni verðmætasköpun landsins. Sjálfbær kalkþörungavinnsla af hafsbotni í Arnarfirði fær á næstu misserum stóra systur í Súðavík þar sem kalkþörungar úr nær óþrjótandi námum í botni Ísafjarðardjúps verða þurrkaðir og unnir áfram. Kerecis notar afganga úr þorskvinnslu til að framleiða verðmæti á heimsmælikvarða.
Svo er það ferðaþjónustan. Með gríðarlegum vegbótum í Dýrafjarðargöngum og á Dynjandisheiði og sunnanverðum Vestfjörðum má búast við að Vestfirðir verði besta leiðin til að dreifa og sinna betur og með sjálfbærum hætti þeim ferðamönnum sem koma til Íslands. En saga Vestfjarða er saga sjávarins og saga samspils manns og hafs og það er í stíl við annað að mikill meiri hluti ferðamanna sem koma til Vestfjarða koma sjóleiðina með skemmtiferðaskipum og njóta sjávartengdrar ferðaþjónustu í bátsferðum, hvalaskoðun og ýmsu fleiru. Þar hafa markviss markaðssetning, hafnarbætur, ægifögur náttúra og fagmennska ferðaþjónustufyrirtækja í móttöku þessara gesta verið lykilþáttur.
Frú forseti. Ég flyt hér fyrstu þingræðu mína undir liðnum um störf þingsins. Ég vil beina því til þingsins að standa vörð um samkeppnishæfni Vestfjarða svo fjórðungurinn geti áfram verið gullkista Íslands.“