- Advertisement -

Viðar svarar fyrir sig

Viðar Þorsteinsson skrifar: Ég sendi nú rétt í þessu eftirfarandi tilkynningu á fjölmiðla. Tilgangurinn með þessum skrípaleik er sá að gefa hinum þaulsætna formanni í hendur eitthvert plagg til að veifa á fundum með félagsmönnum sem framundan eru, sá fyrsti strax annað kvöld (félagsfundur) og hinir tveir í næstu viku (trúnaðarráðsfundur og aðalfundur). Þess vegna liggur svona mikið á!

* * * * * *

Stjórn Eflingar pantar aðra sýndar-úttekt um störf Viðar Þorsteinssonar

Fráfarandi formaður Eflingar – stéttarfélags, Agnieszka Ewa Ziólkowska, hefur um nokkurt skeið reynt að gera störf Viðars Þorsteinssonar fyrrverandi framkvæmdastjóra félagsins tortryggileg í tengslum við samstarf kynningardeildar félagsins við vefhönnunarstofuna Sigur.

Endurskoðunarfyrirtækið Deloitte, sem vann athugun að beiðni Agnieszku á málinu, hefur staðfest að fyrirtækið gerir engar athugasemdir við umrædd viðskipti.

Þrátt fyrir þetta hefur stjórn Eflingar undir forystu Agnieszku nú í annað sinn látið hefja gerð úttekar um störf Viðars vegna þessara viðskipta. Er Viðari neitað um upplýsingar, andmælarétt og eðlilega aðkomu að þessari úttekt. Sama var uppi á teningnum við gerð fyrri úttektar um störf Viðars, sem sálfræðistofan Líf og sál vann að beiðni stjórnar Eflingar.

Oddur Ástráðsson hdl. upplýsti f.h. stjórnar Eflingar Viðar í gegnum síma þann 29. mars að hann hefði með höndum gerð lögfræðilegrar úttektar á samstarfi kynningardeildar félagsins við Sigur vefstofu. Krafði Oddur Viðar um að koma á sinn fund.

Viðar hefur óskað eftir að fá spurningar sendar til að geta veitt skrifleg svör, en Oddur hefur neitað að upplýsa um hverjar spurningarnar eru. Þá bauð Oddur Viðari í skeyti dags. 29. mars að skila inn skriflegum athugasemdum, við spurningum sem Viðar hefur aldrei fengið sendar eða upplýsingar um hverjar eru.

Þegar Viðar óskaði eftir því að fá aðgang að heildardrögum væntanlegrar úttektar til að koma að sínum sjónarmiðum og andmælum svaraði Oddur: „Það kemur ekki til álita að verða við kröfum þínum um aðgang að úttektinni áður en henni er skilað til stjórnar Eflingar.“

Oddur hefur jafnframt hunsað beiðni Viðars um að Efling greiði lögfræðikostnað hans við að verjast ásökunum, sem fjármagnaðar eru úr sjóðum félagsmanna Eflingar.

Viðar er samstarfsmaður Sólveigar Önnu Jónsdóttur, sem hafði betur gegn framboðslista sem fráfarandi formaður studdi í nýafstöðnum kosningum í Eflingu. Fráfarandi formaður hóf aðdróttanir gegn Viðari tengt störfum kynningardeildar Eflingar á fundi trúnaðarráðs þann 16. febrúar síðastliðinn, daginn eftir að úrslit kosninga voru kunn. Vilhjálmur H. Vilhjálmsson þáv. lögmaður Agnieszku neitaði í svari dags. 2. mars að upplýsa Viðar um inntak þessara aðdróttana, líkt og Oddur Ástráðsson gerir nú.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: