- Advertisement -

Vill erlenda rannsókn á hvað íslenska krónan kostar fólk og fyrirtæki

Vilhjálmur Birgisson:

Við getum ekki boðið almenningi og heimilum uppá það að horfa hér upp á okurvexti og verðtryggingu og fákeppni á öllum sviðum og margt bendir til þess að örsökin liggi í íslensku krónunni.

Í ljósi þess að yfirgnæfandi líkur eru á að enn ein stýrivaxtahækkunin muni líta dagsins ljós á morgun með skelfilegum afleiðingum fyrir skuldsett heimili, þurfi að skoða gjaldmiðlamál þjóðarinnar.

Ég tel fulla ástæðu til þess að fengin verði erlendir virtir aðilar sem kanni kosti og galla þess að við séum með íslensku krónuna og hvað hún kosti almenning heimili og fyrirtæki.

Einnig myndi ég vilja að þessir erlendu aðilar myndu skoða kosti þess að taka upp evru, dollara, norsku krónuna og eða dönsku krónuna.

Við verðum að láta óháða erlenda aðila kanna þetta fyrir okkur og skila skýrslu um kosti og galla þess að taka upp nýjan gjaldmiðil.

Við getum ekki látið það viðgangast ef það er rétt að krónan kosti þjóðina allt að 300 milljarða og kosti fjögurra manna fjölskyldu hátt í 200 þúsund á mánuði að vera með íslensku krónuna.

Ég trúi ekki að hinir ýmsu hagsmunaaðilar séu ósammála um að fá hlutlausa erlenda aðila til að skila íslensku þjóðinni skýrslu um kostina og gallana við íslensku krónuna og þá gjaldmiðla sem koma til greina að taka upp einhliða hér á landi.

Við getum ekki boðið almenningi og heimilum uppá það að horfa hér upp á okurvexti og verðtryggingu og fákeppni á öllum sviðum og margt bendir til þess að örsökin liggi í íslensku krónunni.

Við verðum að fá erlenda aðila í þetta verkefni, enda erfitt að finna hlutlausan aðila hér á landi sem hafi ekki beina hagsmuni af því að viðhalda íslensku krónunni. Mér finnst almenningur eiga rétt að fá slíka úttekt þar sem dregnir verða fram kostir og gallar þess að taka um nýjan gjaldmiðil.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: