- Advertisement -

Verðtryggingin: „Sjá menn skrímslið?“

Húsnæðisliður verðtryggingar vegur þungt. „Hann einn leggur 118 milljarða króna ofan á heimilin þar sem þau hefðu ella þurft að taka á sig 15 milljarða vegna almennra verðhækkana.“ Fólk hefur val, segir ráðherra. Þvingað val, sagði þingmaðurinn.

„Um þessar mundir hafa heimili val á milli verðtryggðra og óverðtryggðra lána, auk þess sem þau geta blandað þessum lánum í þeim hlutföllum sem þeim hentar,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra, í umræðum á Alþingi, þar sem Ólafur Ísleifsson átti frumkvæði að umræðu um verðtrygginguna.

Óafur sagði að Bjarni hafi upplýst að verðbætur vegna íbúðalánahafi numið 15 milljörðum vegna almennra verðhækkana en verðbætur á sömu lán vegna húsnæðisliðar vísitölunnar hafi numið 118 milljörðum króna „Hann einn leggur 118 milljarða króna ofan á heimilin þar sem þau hefðu ella þurft að taka á sig 15 milljarða vegna almennra verðhækkana. Sjá menn skrímslið?“

Heitir þvingað val

Bjarni gerði mikið úr því vali sem hann segir lántakendur hafa þegar þeir taka húsnæðislán. „Á skákmáli heitir þetta þvingað val,“ sagði Ólafur.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ólafur spurði: „Tekur ráðherra undir að þróun húsnæðisliðarins á skjön við almenna verðlagsþróun í landinu gefi tilefni til að fella án tafar húsnæðisliðinn brott úr vísitölunni með það að markmiði að verja heimilin fyrir þeirri eignaupptöku sem við blasir?“

„Það er ekki hægt að fara þá leið sem mér finnst sumir hv. þingmenn hafa gert í dag, að segja að húsnæðisliðurinn einn og sér sé ábyrgur fyrir þetta stórum hluta verðbóta undanfarinna ára, eins og að ef við hefðum kippt húsnæðisliðnum út hefðu vextirnir með öllu verið óbreyttir. Við höfum ekki svarið við því,“ svaraði Bjarni.

Val aðeins að nafninu til

„Ég ætla ekki að gera miklar athugasemdir á þessum stutta tíma við ræðu ráðherra en vil þó segja tvennt. Það kannski hrekkur ekki ýkja langt að bera fyrir sig það val sem menn að nafninu til eiga á milli lánaforma þegar bankarnir hafa það í hendi sér að verðleggja óverðtryggðu lánin með þeim hætti að margur flýr vegna þeirrar háu verðlagningar á náðir verðtryggingarinnar. Á skákmáli heitir þetta þvingað val. Það má ekki verða til þess að draga úr þrótti og áhuga manna á því að færa okkur inn á okkar svæði í heiminum í fjármálalegu tilliti þó að að nafninu til eigi menn þetta val. Bankarnir hafa af því mikinn hag vegna jákvæðs verðtryggingarjöfnuðar að sem mest af lánum þeirra séu verðtryggð,“ sagði Ólafur Ísleifsson.

Ágúst Ólafur Ágústsson: „Í öðru lagi liggur grunnvandi hárra vaxta og verðtryggingar í gjaldmiðlinum. Fram hjá þeirri staðreynd verður bara ekki komist. Að sjálfsögðu tengist þetta. Þeir sem eru á móti verðtryggingunni verða að taka umræðuna um gjaldmiðilinn.“

Bjarkey Ólsen Gunnarsdóttir: „ Ég ítreka að verðtryggingin er fyrst og fremst afleiðing en ekki orsök og hún verður því fljótast og öruggast tekin af með því að skapa stöðugleika með lágri verðbólgu og jafnvægi í eftirspurn eftir lánsfé.“

Þorsteinn Sæmundsson: „Það liggur því beinast við að þessu máli um að taka húsnæðisliðinn út úr vísitölu þeirri sem lögð er til grundvallar þegar húsnæðislán eru tekin verði einfaldlega hraðað í gegnum efnahags- og viðskiptanefnd, það verði tekin hér góð umræða og málið að endingu samþykkt mjög fljótt. Þar með er málið leyst, hæstvirtur ráðherra, og verður okkur öllum til sóma.“

Willum Þór Þórsson: „Þá skiptir verðtryggingin máli fyrir fjármálafyrirtækin, lánveitendur.“

Smári McCarty: „Það má minnast á að 85% nýrra lána eru verðtryggð. Það er að hluta til vegna þess að bankar beina fólki helst inn á verðtryggðu lánin. Valkostirnir eru vissulega gagnlegir en það er betra að hafa lágt vaxtastig og hafa ekki fyrirkomulag sem þekkist nánast hvergi annars staðar í heiminum, heldur en viðhalda núverandi ástandi.“

Þorsteinn Víglundsson: „Verðtrygging er ein myndbirting hárra vaxta. Verðtryggingin hefur verið tæki okkar til að ráða við hátt vaxtastig í landinu en það er allt of lítið talað um af hverju við búum við svona hátt vaxtastig.“

 

 


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: