- Advertisement -

Viðhorf: Aldrei aftur í Tölvulistann

Fór sendiferð í vikunni. Var beðinn að koma við í Tölvulistanum og sækja þangað pakka, sem búið var að borga fyrir og allt var klárt. „Þetta er á þínu nafni,“ sagði sá sem bað mig um viðvikið.

Ég kom í Tölvulistann, sagðist vera að sækja pakka fyrir Sigurjón.  Það tók afgreiðslumanninn varla andartak að ákveða sig. „Hér er enginn pakki fyrir Sigurjón,“ sagði hann áhugalítill að mér virtist.

Ég sagðist viss. Hann tók því ekki vel, samt án þess að sýna mér dónaskap, bara fálæti. „Hver er kennitalan,“ spurði hann. Ég svaraði og í annarri tilraun sló hann henni rétt inn í tölvuna og sagði: „Það er ekkert hér á þessari kennitölu,“ og horfði á mig að mér fannst pirruðum augum.

Enn sagðist ég viss. Hann endurtók að enginn pakki væri á mínu nafni og ekki á kennitölunni.

Ég hringdi. Jú, allt átti að vera klárt. Þeir töluðu saman í símann minn. Það varð til þess að afgreiðslumaðurinn fann pakka á mínu nafni. Símtalinu var slitið.

„Það á eftir að borga,“ sagði afgreiðslumaðurinn. Ég neitaði. Þekki þann sem hafði borgað og veit að hann fer ekki með neitt rugl. „Það er ekki búið að borga,“ endurtók maðurinn. Ég spurði hvort hann væri viss, hvort hann gæti leitað af sér allan grun. Pirraður fletti hann í tölvu og, jú komin var staðfesting á greiðslunni. Hann viðurkenndi að búið væri að borga, setti pakkann á borðið, sagði hvort sorrí né takk fyrir viðskiptin.

Það sem vakti mesta furðu mína, var að afgreiðslumaðurinn opnaði aldrei fyrir þann möguleika að ég hefði rétt fyrir, heldur þveröfugt.

Ég þarf að kaupa góðan tölvuskjá. Hef um árabil keypt nánast allt þvíumlíkt í Tölvulistanum.  Er búinn að ákveða mig, skjárinn sem ég kaupi í fyrramálið, fæst í Tölvutek.

 Sigurjón M. Egilsson.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: