- Advertisement -

Ég þekki þennan ömurlega leik

Aðeins þau sem vilja kjarabaráttu félagsfólks Eflingar illt leggjast svo lágt að gera lítið úr samninganefnd félagsins.

Sólveig Anna Jónsdóttir.

Sólveig Anna Jónsdóttir:

Mér var bent á það rétt í þessu að Halldór Benjamín, framkvæmdastjóri SA, hefði í viðtali gert athugasemd við það að í samninganefnd Eflingar væru félagar bæði af almenna og opinbera markaðnum, eins og það er kallað. Semsagt bæði vinnuafl fyrirtækjanna og þau sem starfa á opinberum stofnunum velferðarkerfisins. Fram að þessu hef ég aðeins heyrt eina aðra manneskju gera athugasemd við þetta og það er Ólöf Helga Adolfsdóttir en hún leggur af einhverjum ástæðum mikla fæð á Eflingar-konur af opinbera markaðnum og þeirra baráttuþrek.

Vegna þess að ég þekki þennan ömurlega leik þegar ég sé hann, að láta sem að eitthvað sé grunsamlegt við aðferðir og nálgun Eflingar, vil ég gera það sem ég get til að miðla réttum upplýsingum hratt og örugglega. Hér eru þær:

Efling:

Hversu illa er komið fyrir fólki þegar það reynir að gera það tortryggilegt?

Ég hvet ykkur til að leggjast á lið með okkur í samninganefndinni g benda fólki á að trúa ekki lágkúrulegum áróðri um okkur í samninganefndinni, áróðri sem vegur að heiðri Eflingar-fólks, mesta heiðursfólks sem ég hef nokkru sinni kynnst.

Samninganefnd Eflingar hefur ALLTAF verið skipuð félögum úr öllum geirum. Fólki sem vinnur við sem flest af þeim störfum sem falla undir samninga Eflingar. Þegar ég segi alltaf er ég að vísa til sögu Eflingar, ekki aðeins til þeirra samningaviðræðna sem ég og félagar mínir höfum leitt á undanförnum árum. Að leggjast svo lágt að reyna að láta þetta núna líta út sem einhvern glæp er til skammar. Það sýnir líka vissa örvæntingu manna frammi fyrir þeirri staðreynd að félagsfólk Eflingar sýnir samstöðu hvert með öðru og leiðir sjálft samningaviðræður. Gömlu reglurnar gilda ekki lengur, að menn loki sig inni með öðrum mönnum án aðkomu þeirra sem eiga þó að vinna eftir þeim samningum sem verið er að ræða.

Það sem vissulega er breytt núna er að stór samninganefnd Eflingar er ekki aðeins til sýnis á einskisverðum pappír, heldur er raunveruleg samninganefnd raunverulegs félagsfólks sem hefur sýnt ótrúlega og stórkostlega hollustu við sitt verkefnið, að gera alvöru Eflingar-samning fyrir alvöru Eflingar-fólk.

Hversu illa er komið fyrir fólki þegar það reynir að gera það tortryggilegt?

Í samninganefnd Eflingar er ómissandi fólk á íslenskum vinnumarkaði sem vinnur öll hin óteljandi handtök sem halda hér öllu gangandi, framleiða hagvöxtin, snúa hjólum atvinnulífsins. Þau vinna í mörgum tugum fyrirtækja á hinum almenna vinnumarkaði höfuðborgarsvæðisins, við iðnað, akstur, framleiðslu, þrif, í ferðmannaiðnaðinum, á hótelum, í fiskvinnslu, við olíu-flutninga og svo framvegis og svo framvegis. Í samninganefnd Eflingar eru líka félagar okkar af opinbera markaðnum, eins og ÁVALLT hefur tíðkast. Breytingin er að nú eru þær manneskjur úr framvarðasveit íslenskrar verkalýðsbaráttu, manneskjur sem hafa sjálfar leitt baráttu sína fyrir betri kjörum og unnið stóra sigra. Manneskjur sem hafa hollustu við félaga sína og skilja mátt samstöðunnar. Mættu margir læra af þessum mögnuðu konum sem hafa kennt okkur að samstaða leiðir til sigurs.

Aðeins þau sem vilja kjarabaráttu félagsfólks Eflingar illt leggjast svo lágt að gera lítið úr samninganefnd félagsins. Ég hvet ykkur til að leggjast á lið með okkur í samninganefndinni og benda fólki á að trúa ekki lágkúrulegum áróðri um okkur í samninganefndinni, áróðri sem vegur að heiðri Eflingar-fólks, mesta heiðursfólks sem ég hef nokkru sinni kynnst.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: