- Advertisement -

92 ára liggur á salerni og hefur kúabjöllu til að gera viðvart

Þessi færsla er rúmlega eins árs.

Nú er ég sár og reið. Mamma var lögð inn á bráðadeildina í Fossvogi fyrir rúmri viku þar sem hún datt og fékk slæma byltu. Þar var hún í tvo daga á 10-15 manna stofu. Skýrslan úr sjúkrabílnum glataðist og hefur ekki enn þá fundist.

Þetta skrifar Berglind Sigurðardóttir.

Fyrsta daginn voru nokkrir hjúkrunarfræðingar sem komu á vakt og alltaf var eins og upplýsingar bærust ekki á milli manna á vaktaskiptum eða þeir kynntu sér ekki hvað væri að sjúklingum í þeirra umsjá, bæði með lyf og ástand sjúklings.
Þeir skráðu niður þau lyf sem hún tekur og einnig að hún væri með sykursýki, en þær upplýsingar glötuðust á milli vakta, svo við þurftum að passa upp á að hún tæki lyfin sín og fengi ekki sykurfall. Hún var með næringu í æð og þegar pokinn kláraðist og slangan var orðin full af blóði, var okkur sagt að það væri ekki aðkallandi að setja annan poka, það væru aðrir sjúklingar veikari en hún!

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ef við hefðum ekki setið yfir henni þessa 2 daga þá væri hún eflaust ekki á lífi, því henni var ekkert sinnt nema maður kallaði eftir því.
Hún var í engu standi til þess að gefa nokkrar upplýsingar sjálf þar sem ástand hennar var þannig að hún var mjög rugluð og illa áttuð.

Hún fékk mikið höfuðhögg, bæði augu voru mikið blóðhlaupin. Hún hafði mikla verki í baki og höfðum við skiljanlega miklar áhyggjur af henni.
Ég bað ítrekað um að fá að ræða við lækni út af ástandi hennar. Ég beið í 7 klst. og loksins kl. 01:00 eftir miðnætti náði ég tali af honum, 16 klst. eftir að hún lagðist inn.

Á öðrum degi fékk hún pláss upp á lyflækningadeild þar sem hún er búin að vera í viku og hafa síðustu tveir dagar verið góðir og mamma loksins orðin eins og hún á að sér að vera. Má þar þakka yndislegu starfsfólki á deildinni sem hafa annast hana af mikilli nærgætni og alúð.

En í kvöld var okkur sagt að hún yrði flutt á aðra deild þar sem annar sjúklingur þyrfti rúmið hennar. Þegar þangað kom var ekkert pláss fyrir hana þar og var hún því sett inn á salerni og verður þar næstu nætur eða þangað til rúm losnar.
Á daginn fær hún að dúsa á ganginum því nota þarf salernið fyrir böðun og annað.
Nú liggur hún, 92 ára, grátandi inni á klósetti með KÚABJÖLLU á borðinu til þess að gera vart við sig ef hana vantar aðstoð.
Hún á ekki eftir að geta sofið í nótt því hún á allt eins von á því að aðrir sjúklingar þurfi að gera þarfir sínar þar sem hún liggur.
Við höfum áhyggjur af því að þetta áfall verði til þess að ástand hennar versni aftur því svona breyting á umhverfi getur orðið til þess.

Hvernig er hægt að gera fólki þetta?
Hvað ætli heilbrigðiseftirlitið segi við því að láta fólk sofa inni á mesta sýklabæli spítalans?
Ég veit að starfsfólkið er að gera sitt besta og er yndislegt upp til hópa en hver ákveður svona lagað?
Enn og aftur er þetta sönnun þess hversu mikið heilbrigðiskerfið okkar er í molum


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: