- Advertisement -

Er ekkert að marka það sem þríeykið segir?

Því miður féll ekki bara kusk á hvítflibba ráðherrans. Traust glataðist.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Verð að viðurkenna, að ég er ekki að fatta þá meðvirkni sem er í gangi gagnvart ráðherra sem hélt að reglur um smitvarnir ættu ekki við hana og vinkonur hennar. Ég nenni ekki að fara að fletta upp orðum fólks, þar sem verið var að brýna fyrir almenningi að sýna aðgát og skammast var yfir því að „ungt“ fólk væri ekki að passa sig á djamminu. Svo verður einum úr „elítunni“ á að brjóta gegn tilmælum eða voru það fyrirmæli, skiptir engu máli hvort það var, þá er nánast lagst að fótum viðkomandi og skósólarnir sleiktir.

Hvenær varð Ísland að því landi, að ekki má segja sannleikann um augljós brot „elítunnar“? Hvenær urðu ráðherra að hinum ósnertanlegu, sem embættismenn taka að sér að verja í bak og fyrir? Mér finnst gott að mörgum sé misboðið, bæði vegna framkomu ráðherra og viðbragða Víðis og Þórólfs. Menn sem hafa talað tæpitungulaust við almenning í hátt í hálft ár, en verða bljúgir og meðvirkir þegar ráðherra virðir ekki þær reglur um smitvarnir sem hún sjálf hvatti almenning til að virða og fylgja innan við 48 stundum áður (eða var það 24 stundum áður).

Því miður féll ekki bara kusk á hvítflibba ráðherrans. Traust glataðist. Er ekkert að marka það sem þríeykið segir um að við séum öll almannavarnir á tímum Covid-19, því „öll“ eru allir nema sumir. Munum við eiga vona á fleiri svona tilfellum, þar sem eitt gildir fyrir Jón og annað fyrir séra Jón? Ég vona ekki.

Ég vil að lokum hrósa ráðherra að sjá að lokum að sér og biðjast afsökunar á framferði sínu. Hún hefði hins vegar átt að gera það strax í staðinn fyrir að reyna að réttlæta hlutina.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: