- Advertisement -

Lífeyrissjóðirnir eru engin „gólftuska“ til að þurrka upp eftir aðra!

Lífeyrissjóðirnir hafa síðustu tvö árin dregið úr lífeyrisréttindum um nærri 100 milljarða kr. vegna verðlækkunar Icelandair.

Ragnar Önundarson skrifar:

Þú gætir haft áhuga á þessum

Mistök skulu ekki endurtekin.

Enn er rætt um í fréttum að sum fyrirtæki séu „kerfislega mikilvæg“ og að það réttlæti sérstakar góðgerðir við hluthafa þeirra, en ekki annarra. Þetta er rangt!  Það er reksturinn, starfsemin, sem er kerfislega mikilvægur, ekki kennitalan. Í tíð ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur, þegar Stgr. J. var fjármálaráðherra, voru gerð stórfelld mistök með því að menn gerðu ekki þennan aðskilnað. Efnaðasta fólki landsins, hluthöfum meintra kerfislega mikilvægra fyrirtækja, voru færðir nokkur hundruð milljarðar í formi afskrifta. Mistök skulu ekki endurtekin.

Forstjóri Icelandair hefur barist hetjulega og unnið að hlutafjárútboði. Það mun ekki heppnast nema lífeyrissjóðirnir taki þátt. Sjóðfélagar fylgjast með og hafa í huga að sjóðirnir hafa síðustu tvö árin dregið úr lífeyrisréttindum þeirra um nærri 100 milljarða kr. vegna verðlækkunar félagsins. Í fjárhagslegri endurskipulagningu félagsins er ekki reiknað með að almennir, ótryggðir kröfuhafar gefi eftir af kröfum sínum. Það þýðir að lífeyrissjóðunum er ætlað að leysa þá úr áhættu sinni. Það finnst mér ekki eðlilegt.

Stofnað er nýtt dótturfélag.

Ég hef nokkrum sinnum lýst þeirri aðferð sem ég þekki besta til að koma félagi í gegnum erfiða skuldaskilasamninga: Stofnað er nýtt dótturfélag og öllum rekstri komið þangað á eðlilegum, óriftanlegum kjörum, í nægilega langan tíma til að öruggt svigrúm verði til að ljúka samningum. Helstu veðhafar lána móðurfélaginu fyrir hlutafé hins nýja dótturfélags og taka veð í því um leið, sem er óriftanlegt. Að svo búnu er leitað heimildar héraðsdóms til greiðslustöðvunar og nauðasamninga. Heppnist samningarnir eru félögin sameinuð á ný, en heppnist þeir ekki leysa veðhafarnir dótturfélagið til sín, en móðurfélagið fer í þrot. Vissan um þetta gerir samþykkt samninganna mjög líklega, nánast örugga. Þessi aðferð er kölluð „hive-down“, af því að reksturinn er „hífður“ niður í nýtt félag.

Sem sjóðfélagi í lífeyrissjóði get ég ekki sætt mig við að lífeyrisréttindi mín verði notuð til að borga ótryggðum kröfuhöfum félagsins að fullu. Þeir eru með sitt í mikilli áhættu. Lífeyrissjóðirnir eru engin „gólftuska“ til að þurrka upp eftir aðra!

Ég hef nýlega sett fram hugmynd um að tekið verði á vanda ferðaþjónustunnar og Icelandair sem einu verkefni.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: