- Advertisement -

Hanaslagur milli Sjúkratrygginga og Krabbameinsfélagsins

Nú hef ég ekki hugmynd um hvort Krabbameinsfélagið sé til fyrirmyndar í vinnu sinni. 

Marinó G. Njálsson skrifar:

Sérkennilegur hanaslagur er í gangi milli Sjúkratrygginga og Krabbameinsfélagsins.  Starfsmaður SÍ setti fram staðhæfingu í Kastljósi sl. fimmtudag um að Krabbameinsfélagið uppfyllti ekki kröfur og í staðinn fyrir að SÍ legði fram gögn máli viðkomandi til stuðnings, þá þarf Krabbameinsfélagið að sanna að staðhæfingin sé röng.  Sem sagt öfug sönnunarbyrði.  Í sporum Krabbameinsfélagsins myndi ég standa fastur á því að SÍ legði fram skjal sem staðfestir staðhæfinguna eða bæðist afsökunar á ummælum starfsmannsins.  Úttekt framkvæmd í dag segir nefnilega ekkert til um hvort staðhæfingin hafi verið rétt eða röng.  Hún lýsir eingöngu verklaginu í dag.

Sjúkratryggingar áttu á móti að hafa óskað eftir staðfestingu frá Krabbameinsfélaginu áður en núverandi samningur var framlengdur síðast, að Krabbameinsfélagið uppfyllti í einu og öllu þær kröfur sem voru gerðar og fylgdu þeim stöðlum sem notaðir voru til viðmiðunar.  Jafnframt á að vera hluti af samningnum heimild fyrir SÍ til úttektar á framgangi þjónustusamningsins og aðgang að niðurstöðum innri úttekta, sem ættu að fara fram árlega.  SÍ ætti síðan að taka út framkvæmd skimunarinnar með reglulegu millibili.

Þú gætir haft áhuga á þessum

 Heldur var það klént hjá Krabbameinsfélaginu að vísa á einn starfsmann og kenna honum um allt.

Ég vinn mikið með kröfur og að útbúa og innleiða stjórnkerfi til að uppfylla kröfurnar.  En þá eru kröfurnar líka skýrar í upphafi, mótaðili leggur fram skýra afmörkun þeirra, hann fer yfir útfærsluna áður en rekstur (í þessu tilfelli upplýsingakerfa) fer í gang og kemur með athugasemdir um það sem betur má fara.  Af samskiptum SÍ og Krabbameinsfélagsins þá sýnist mér helst sem kröfur hafi verið óskýrar, ekki hafi verið fylgst með innleiðingu og engin úttekt hafi farið fram af hálfu SÍ.  Hafi hún farið fram, þá var Krabbameinsfélaginu ekki gefinn kostur á að bæta úr því sem ekki var í samræmi við kröfur.

Nú hef ég ekki hugmynd um hvort Krabbameinsfélagið sé til fyrirmyndar í vinnu sinni.  Að einhver sýni hafi reynst jákvæð þó starfsmaður hafi greint þau neikvæð er því miður ekki vísbending um það.  Geta einfaldlega hafa verið óheppileg tilfelli sem segja ekkert um hvort ferlum hafi verið fylgt eða ekki.  Þar sem frávikin eru nokkuð mörg og afleiðingarnar alvarlegar, þá þarf að skoða ítarlega hvað fór úrskeiðis.  Heldur var það klént hjá Krabbameinsfélaginu að vísa á einn starfsmann og kenna honum um allt.  Starfsmaðurinn hlaut líklegast þjálfun hjá félaginu, fékk í hendur búnað til að nota og var gert að fylgja viðmiðum um hvenær sýni töldust jákvæð og hvenær þau töldust neikvæð.  Ekkert af þessu ákvað hann sjálfur, þó greiningin væri hans.  Hann vann síðan undir eftirliti yfirmanns.  Hafi starfsmaðurinn brugðist, þá brást líka yfirmaðurinn.

Ekki er endalaust hægt að skera niður og spara og ætlast til að fá áfram fullkomna þjónustu.  

Kannski var samningur Sjúkratrygginga við Krabbameinsfélagið gloppóttur og í hann vantaði einhver mikilvæg ákvæði.  Hver veit?  A.m.k. er núverandi samningur í grunninn frá árinu 2013.  Svo vitnað sé í frétt á vef félagsins, þá hefur hann verið framlengdur oft:  „Krabbameinsfélag Íslands hefur sinnt skimun fyrir krabbameinum í brjóstum og leghálsi í áratugi af miklum metnaði og veitt til hennar miklu fé. Rekstrarumhverfi skimunarinnar hefur hins vegar í langan tíma verið afar erfitt einkum vegna skammtímasamninga sem hafa gert ákvarðanatöku erfiða og vegna þess að fjárveitingar ríkisins til verkefnisins hafa ekki dugað til. Frá árinu 2013 hafa skammtímasamningar verið gerðir, allt niður í þrjá mánuði í einu.“

Úbs, „veitt til hennar miklu fé,“ „fjárveitingar ríkisins til verkefnisins hafa ekki dugað til,“ „sammtímasamningar. allt niður í þrjá mánuði í einu!“  Frábært að kaupa mikilvæga þjónustu af félagasamtökum og ætlast til þess að þau afli fjármuna frá almenningi til að geta staðið undir þjónustunni, vegna þess að samningnum fylgja ekki þeir fjármunir sem þjónustan kostar.  Og svo endalausar framlengingar án eðlilegra umbóta (að því virðist).

Ekki er þessi staða Maríu Heimisdóttur að kenna, heldur því að Sjúkratryggingum er sífellt gert að spara.  Og þar liggur hundurinn grafinn.  Í þetta sinn voru afleiðingar sparnaðarins að líklegast voru einhver tæki úrelt, starfsmenn hjá Krabbameinsfélaginu þurftu að skima fleiri sýni er æskilegt er og kona lést.  Förum með umræðuna á réttan stað.  Ekki er endalaust hægt að skera niður og spara og ætlast til að fá áfram fullkomna þjónustu.  Það kemur að þolmörkum sem getur haft óæskilega niðurstöðu.

Greinin birtist á Facebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: