- Advertisement -

Vildi hækka eigin laun en var stoppaður

Brynjólfur rak þetta fyrirtæki á hausinn, þrátt fyrir ríkulega styrki úr borgarsjóði.

Gunnar Smári skrifar:

Hér er stjórnarformaður Arionbanka, sem lagði til hækkun eigin launa á aðalfundi, en sem lífeyrissjóðir VR og Eflingar felldu. Hann heitir Brynjólfur Bjarnason og er tengdur Engeyjarættinni, ætt serm byrjaði í stjórnmálum en er nu orðin umsvifamikil í viðskiptum, og innvígður Sjálfstæðisflokksmaður.

En hvað er hann að gera í Arion-banka, átti ekki að selja hlut almennings í Íslandsbanka til að koma honum í hendur klíkunnar sem stjórnar Sjálfstæðisflokknum?

Fyrst skal það nefnt að Engeyingar og þau sem stýra Sjálfstæðisflokknum eru ekki auðfólk að upplagi. Auður þeirra varð til með pólitískri þátttöku. Það sést þegar horft er hvernig Engeyjarættin byggði upp auð sinn og áhrif. Fyrstu kynslóðirnar eru í pólitík og nota áhrif sín þaðan til að koma sér fyrir innan ríkisgeirans, stýra ríkisbönkum, Síldarverksmiðjunum ríkisins og öðrum stórfyrirtækjum almennings. Næstu kynslóðir auðgast á einkavæðingu ríkiseigna; Þorsteinn Pálsson seldi Einar Benediktssyni SR-mjöl, Brynjólfur Bjarnason var hluti hópsins sem keypti Símann af Davíð Oddssyni, svo Borgun o.s.frv. Í dag skiptir ættin sér á milli stjórnmála og viðskipta og stendur vörð um vanhelg tengsl þessa tveggja, þar sem almannavaldinu er stýrt svo hin fáu auðgist.

Í sjálfu sér mætti skrifa ævisögu Brynjólfs Bjarnasonar til að varpa ljósi á þetta samspil stjórnmála og viðskipta, hvernig stjórnmálabarátta Sjálfstæðisflokksins snýst fyrst og síðast um að ræna almenning völdum og eignum. Brynjólfur var framkvæmdastjóri Almenna bókafélagsins, sem stofnað var af auðmönnum sem mótvægi við Mál & menningu þegar auðvaldið tók að óttast fyrirferð sósíalista í menningu og listum. Brynjólfur rak þetta fyrirtæki á hausinn, þrátt fyrir ríkulega styrki úr borgarsjóði í borgarstjóratíð Davíðs Oddssonar fór Almenna bókafélagið á hausinn.

Næst tók Brynjólfur við Granda, sem stofnaður hafði verið til að bjarga Ísbirninum, einkafyrirtæki sem var komið í þrot. Það var gert með því að renna Bæjarútgerð Reykjavíkur undir tap og skuldir Ísbjarnarins. Brynjólfur var svo fenginn í braskarahóp sem gerði tilboð um kaup á Landsímanum af ríkinu í valdatíð Davíðs sem forsætisráðherra, var þar hafður með sem sönnun þess að fyrirtækið færi til fólks sem hefði talsamband við flokkinn (sem grínlaust var hugtak sem notað var á þessum árum einkavæðingar, lýsti leikreglunum ágætlega; almannaeigur skyldu fara til Sjálfstæðisflokksins og þeirra sem hann hefur velþóknun á).

Rekstur Símans gekk afleitlega, enda mjög skuldsett kaup. Svokallaðir fjárfestar voru ekki að koma með fé inn í reksturinn heldur ætluðu að láta fyrirtækið sjálft standa undir kaupverðinu. Það gerðist svo formlega eftir Hrun þegar eignarhaldsfélagið Skipta var sameinað inn í rekstrarfélagið Símann. Eigendur Símans voru þá flestir komnir í þrot og við tók nýr eigendahópur undir forystu Orra Haukssonar, annars Sjálfstæðisflokksmanna á mörkum stjórnmála og viðskipta, sem stýrðu fyrirtækinu með stuðningi lífeyrissjóða, sem ávallt spila með viðskiptahluta Sjálfstæðisflokksins. Nú eru gamla klíkan úr FL-group búin að ná undirtökum í Símanum, er með ráðagerðir um að greiða til hluthafa um átta milljarða króna á næstunni, og þarf að halda Orra sem forstjóra á meðan til að friða flokkinn.

Við þessar kynslóðabreytingar var Brynjólfi hent, en ekki langt. Hann lenti inn í Framtaksjóði Íslands, sem var eignarhaldsfélag á vegum lífeyrissjóðanna sem leysti til sín nokkrar eignir til að minnka eitthvað stórkostlegt tap sjóðanna á Hruninu, tap sem flokka má sem gjald almennings af hinu vanhelga sambandi viðskipta og stjórnmála, þar sem lífeyrissjóðirnir spila lykilrullu. Sumt gekk ágætlega í Framtakssjóði en hann spannst fljótt upp í stórkostlegan umbúnað utan um ekki neitt, fjöldi starfsmanna og allskyns ráðgjafar mokuðu til sín fé við umsýslu á litlum eignum.

Þegar Framtakssjóður var orðinn að engu var Brynjólfur sendur inn í stjórn Arion-banka á atkvæðamagni lífeyrissjóðanna og gerður að stjórnarformanni. Eins og áður sagði eru lífeyrissjóðirnir í reynd hluti af þessum stjórnmála/viðskiptaarmi auðvalds og Sjálfstæðisflokks (þess vegna er Halldór Benjamín Þorbergsson framkvæmdastjóri SA, drengurinn sem hefur alla tíð vilja verða milljarðamæringur). Í gegnum fulltrúa launagreiðenda í stjórnum sjóðanna byggir fámenn klíka sóðalegasta Sjálfstæðisflokksfólksins undir kerfi sem linnulaust flytur fé, völd og eignir frá almenningi til hinna fáu, ríku og valdamiklu.

Brynjólfur Bjarnason, þótt hann hafi aldrei verið talinn atkvæðamikill eða snjall, er einn af gæslumönnum þessa kerfis. Hann situr í stjórn Arionbanka sem fulltrúi þessarar klíku, fólksins sem á Ísland.

Þú ert aðeins gestur í þeirra heimi.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: