- Advertisement -

Skýrslan falin fram yfir landsfundinn?

Ólafur Arnarson:

Verst varðveitta leyndarmál stjórnsýslunnar í dag er að vitanlega ræður Bjarni Benediktsson öllu um það sem Bankasýsla ríkisins aðhefst. Engin armslengd er þar til staðar. Eðlilegra er að hann fari sjálfur formlega með verkefni hennar og ekki sé staðið í dýrum blekkingarleik.

Ólafur Arnarson, sem skrifar bæði Dagfara og Náttfara á hringbraut.is er með kenningu. Hann reiknar allt eins með að Ríkisendurskoðun fresti birtingu Íslandsbankaskýrslunnar fram yfir landsfund Sjálfstsæðisflokksins:

Enn ein furðurfréttin hefur nú borist frá ríkisendurskoðun varðandi birtingu skýrslu um sölu á 22,5 prósenta hlut ríkisins í Íslandsbanka. Skýrslunni átti að skila til Alþingis fyrir lok september en nú er því lýst yfir að við það verði ekki staðið. Í byrjun þessa mánaðar tók ríkisendurskoðandi það sérstaklega fram að skýrslan kæmi fyrir mánaðarlok.

Upphaflega átti skýrslan að vera tilbúin í júní en það gekk ekki eftir. Þá var tilkynnt um að hún yrði birt í júlí og það klúðraðist einnig. Þá var henni lofað í ágúst en því var frestað fram í september og enn er frestað birtingu þessarar umtöluðu skýrslu. Hvað er eiginlega í gangi?

Ríkisendurskoðun frestar og frestar birtingu skýrslunnar um sölu Íslandsbanka.

Margir hallast að því að skýrslan um sölu ríkisins á hlutabréfum í Íslandsbanka muni upplýsa eitthvað merkilegt og dularfullt sem eigi eftir að koma illa við Bjarna Benediktsson, fjármálaráðherra og formann Sjálfstæðisflokksins. Einhver marktæk skýring hlýtur að vera á öllum þeim vandræðagangi sem hefur verið að kristallast vegna þessarar skýrslu, einhver skýring önnur en fullkomið getuleysi ríkisendurskoðunar til að framkvæma verkefnið.

Ljóst er að sitthvað fór úrskeiðis við framkvæmd útboðsins sem var stýrt af Bankasýslu ríkisins. Ekki fer þó milli mála að fjármálaráðherra ber pólitíska ábyrgð á framkvæmdinni og þarf að svara fyrir þá gagnrýni sem kann að koma upp. Að sönnu ekki er heppilegt fyrir Bjarna að standa frammi fyrir slíku í aðdraganda landsfundar Sjálfstæðisflokksins sem hefst þann 4. nóvember, eftir rúman mánuð.

Þegar útboðinu lauk kom fram hörð gagnrýni á ýmsa þætti framkvæmdarinnar. Einkum stöldruðu stjórnmálamenn og fjölmiðlar við það hvernig kaupendur voru handvaldir án þess að sýnileg rök væru fyrir vali þeirra. Sérstaklega var staldrað við að faðir Bjarna væri meðal kaupenda. Í sjálfu sér er það ekki stórt mál, en samt einmitt eitthvað sem almenningur og pólitískir andstæðingar geta blásið upp til að gera framkvæmdina ótrúverðuga.

Rætt hefur verið um að leggja Bankasýsluna ríkisins niður og taka verkefni hennar inn til Fjármálaráðuneytisins. Slíkt væri rökrétt ákvörðun enda um enn eitt óþarft ríkisbáknið að ræða. Verði það niðurstaðan kæmi þó allavega eitthvað gott út úr þessu vandræðalega máli.

Verst varðveitta leyndarmál stjórnsýslunnar í dag er að vitanlega ræður Bjarni Benediktsson öllu um það sem Bankasýsla ríkisins aðhefst. Engin armslengd er þar til staðar. Eðlilegra er að hann fari sjálfur formlega með verkefni hennar og ekki sé staðið í dýrum blekkingarleik.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: