- Advertisement -

Bakveiki togarasjómaðurinn

„Hvað er sögulegt, og hvað ekki? Einu sinni kynnti ég Júní kolalausan austan úr Eyrarbakkabugt og að bryggju í Hafnarfirði.“

Þorgeir Sigurðsson var harður af sér. Hann var bakveikur. Saumuð var á hann leðurbrynja til að hann gæti staðið við vinnuna og til að draga ögn úr sársaukanum. Þrátt fyrir bakveikina var hann til sjós í fjörutíu ár.

Þorgeir, hinn leðurbrynjaði sjómaður var síður en svo forneskjulegur í útliti eða tröll að vexti; hann var meðalhár og fremur grannur. Hann var skapgóður, hress og kátur. Hvort skap hans hafi ævinlega verið eins og glaðlegur svipur hans benti til skal ég ósagt látið. Þorgeir var lengst af á togurum frá Hafnarfirði. Þangað kom hann fyrst árið 1921.  „Ég er orðinn Hafnfirðingur. Ég er fæddur í Sólheimum í Hrunamannahreppi. Þaðan fór ég fimmtíu vikna gamall að Laxárdal í Gnúpverjahreppi til þeirra mætu hjóna, Sesselju Guðmundsdóttur og Jóns Jónssonar, foreldra séra Ingimars. Þar var ég til fimmtán ára aldurs. Þá flutti ég að Forsæti í Villingaholtshreppi í Flóa. Þar ólst ég upp fram til þess að ég byggði mitt heimili sjálfur. Árið 1922 byrja ég að vinna á togara. Það var togarinn Dane, enskur togari. Það voru ellefu Íslendingar á honum. Hellyers Bros gerðu hann út frá Hafnarfirði. Síðan hef ég verið á togurum. Var gott að vera hjá Bretum? „Viðurværið var þannig að ekki hæfir að lýsa því. Aldrei mjólk nema niðursoðin í mat og kaffi. Ketið var lagt á ísinn í lestunum og tekið þaðan úldið þegar leið á túr. Hvergi hægt að þvo sér, því það var hvergi vaskur í skipinu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ætlarðu að segja mér að þið hafið ekki þvegið ykkur vikum saman úti í sjó!

„Nei, blessaður vertu, við þvoðum okkur í framan með sjóvettlingunum upp úr sjónum.“

Vinnan í þá daga?

„Það voru engin vökulög, það var staðið svo lengi sem menn gátu staðið. En hálfum mánuði eftir að ég kom á togara komu vökulögin, svo ég hafði lítið að segja af versta tímanum á undan vökulögunum.

Á bresku togurunum sem gerðir voru út héðan giltu íslensk lög og því var vökulögunum hlýtt, en hjá Bretum sjálfum giltu engin vökulög. Hvíldartími breskra sjómanna mun þó ekki mega vera styttri en fjórar stundir.

Á Dane var ég eitt ár með Alexander Jóhannessyni skipstjóra. Fór svo á Kings Grey með honum og var alls með honum í ellefu ár. En 1927 var ég kyndari á Júpíter. Skipstjóri var þá Þórarinn Olgeirsson. Það er sá stærsti landhelgisbrjótur sem ég þekki. Já, þá var breitt yfir nafn og númer eftir að dimma tók.“

Það var alveg prýðilegt að vera hjá Þórarni, ekki betra að vera hjá öðrum, öllum körlunum þótti vænt um hann, enda gerði hann allt fyrir menn sína.

Árið 1930 varð Alexander Jóhannesson skipstjóri á Nirði og fór ég þá þangað með honum, en árið 1932 skipti ég um og fer sem kyndari á togarann Júní, sem bæjarútgerð Hafnarfjarðar átti, skipstjóri á honum var þá Þorsteinn Eyjólfsson.“

Gerðist ekkert sögulegt á þessum togurum?

„Hvað er sögulegt, og hvað ekki? Einu sinni kynnti ég Júní kolalausan austan úr Eyrarbakkabugt og að bryggju í Hafnarfirði.“

Nú ertu að segja ævintýri. Eitthvað hefurðu orðið að láta á eldana.

„Jú, ég kynnti með timbri og lýsi. Fyrst voru teknir fiskkassarnir á þilfarinu og þeim brennt, næst voru teknir allir bobbingar, sem þá voru úr tré, og síðan var gengið á dekkplankana, yfirleitt tekið allt sem hægt var að brenna, og hellt yfir lýsi. Mig minnir að þetta væri eftir áramótin 1934. Ég fór ekki af fírplássinu í nítján tíma samfleytt.“

Og hvað fékkstu svo í verðlaun fyrir þetta?

„Ég fékk átján vikna legu, lagðist fárveikur í lungnabólgu tveimur tímum eftir að ég kom í land, fékk svo brjósthimnubólgu uppúr henni. Og bíð þess aldrei bætur.“

Þér hlýtur að hafa verið greitt eitthvað sérstaklega fyrir þessa kyndingu?

„Nei, ég hef aldrei fengið neitt fyrir þetta, umfram hið venjulega kaup, nema leguna.“

En þetta hlýtur að hafa sparað útgerðinni töluvert.

„Jú, keyrslan á Júní sparaði Hafnarfjarðarbæ vafalítið nokkur hundruð þúsunda króna, sem hann ella hefði þurft að borga skipi sem fengið hefði verið til að draga Júní til Hafnarfjarðar. Hirða hann úti í sjó sem rekald og flytja til lands.

En fékkstu þá ekki kaup tímann sem þú lást?

„Nei, ég fékk ekkert kaup.

En hvernig fórstu þá með heimilið?

„Minn góði vinur, Guðmundur Gissurarson, fátækrafulltrúi, kom heim til mín strax eftir að ég veiktist og sagði: Ég þekki þig, Geiri minn, þú mátt ekki láta heimilið líða.“

Varstu með stórt heimili?

„Ég var með fjögur börn í ómegð. Ég átti þá heima á Öldugötu 21. Hafði keypt húsið alveg í skuld og þegar heilsan og atvinnan var búin gat ég ekki staðið í skilum með afborganir og tapaði því húsinu upp úr þessum veikindum. Varð að fara úr húsinu, varð leigjandi á ný, í mörg herrans ár, hingað og þangað um bæinn.“

Fórstu svo aftur á sjó þegar þú komst á fætur?

„Nei, eftir leguna fór ég í kaupavinnu í Varmadal á Rangárvöllum, án þess þó að vera orðinn maður til þess. Þar leið mér ágætlega, það var gott að vera hjá hjónunum þar. Þar náði ég heilsu minni aftur.“

Hættir þú þá alveg að vera á togurum?

„Nei, þegar ég kom til Hafnarfjarðar aftur um haustið skipti ég um skip og fór yfir á togarann Maí til Benedikts Ögmundssonar og var með honum til vorsins 1939. Þá breytti ég enn um og fór í sveit um sumarið og nú vormaður og kaupamaður að Skarði í Gnúpverjahreppi. Fór aftur á sjó um haustið.

Þá var komin heimsstyrjöld?

„Já, við fórum í októbermánuði eða eftir að stríðið var byrjað. Við fórum héðan til Noregs og síðan suður með ströndinni og inn í Eystrasalt og svo um Kielarskurðinn til Kiel. Við fórum sömu leið heim og vorum 40 daga í ferðinni.

Vorið eftir, 1940, fékk ég illt í vinstri fótinn og varð að liggja 4—5 mánuði á sjúkrahúsi og gat ekkert unnið í átján mánuði.

En einmitt árið 1941 keypti ég aftur hús, Austurgötu 41. Já, ég var orðinn það efnaður á stríðssiglingunum, að ég festi kaup á húsi þótt ég ætti fimm börn.“

Hvernig var það, fékkstu nokkurt kaup í legunni?

„Í legunni fékk ég kaup í sjö daga, síðan ekkert.“

Og svo hefur þú hætt á togurum?

„Nei, ég fór aftur á togarann Maí, til Benedikts Ögmundssonar og fór með honum yfir á Júní.“

Varstu maður til að vinna á togurum eftir veikindin?

„Í legunni 1941—1943 var ég sex vikur í Landspítalanum hjá Snorra Hallgrímssyni. Það var meira en annar fóturinn bilaður, bakið var það líka. Þá lét hann gera mér leðurvesti, úr mjög þykku og stífu leðri, og í því vann ég svo í hálft þriðja ár.“

Hvernig gastu unnið þannig, áttirðu ekki erfitt með að beygja þig?

„Ég gat ekkert beygt mig og varð að setjast niður í stað þess að beygja mig. Ég býst við að þetta vesti hafi verið hálft  þriðja kíló. Ég hefði ekki getað unnið undir þessum kringumstæðum hefði ég ekki átt annan eins húsbónda og Benedikt Ögmundsson. Honum er ég innilega þakklátur.“

Varstu lengi á togurum eftir þetta?

„Með Benedikt var ég til ársins 1958. Þá var hann með Júní og var með hann þar til hann tók við Maí.“

Og hvenær hættir þú þá að vera á togurum?

„Ég var síðast á togaranum Hauki 1960.“

Hve langan hluta ævinnar varst þú togarasjómaður?

„Ég hef verið yfir 40 ár á sjónum. Og ég hef gegnt allskonar störfum um borð í togara, raunar öllum nema vera skipstjóri eða stýrimaður. Ég hef verið háseti, kyndari, vélameistari, bátsmaður, lestarstjóri, matsveinn og bræðslumaður.“

Þú hefur lent í ýmsum veðrum á öllum þessum árum.

„Já, ég hef verið úti á sjó í allskonar veðrum. Þegar Max Pemberton og Leifur heppni fórust var ég úti á sjó. Þegar Gullfoss litli fórst þegar Þormóðsslysið varð, alltaf var ég úti á sjó, en varð aldrei fyrir neinu slysi.

 Og hvað er skemmtilegasta endurminningin frá þessum árum?

„Ánægjulegasta endurminningin mun vera frá árinu 1948. Benedikt Ögmundsson var með Júní þá, þá bjargaði hann 72 mannslífum á árinu. Fyrst tókum við færeyskan bát vélarvana, sem var að reka upp í sandana í Meðallandsbugtinni og drógum hann til Hornafjarðar. Hann var með 32ja manna áhöfn. Í nóvember sama ár björguðum við skipi frá Ólafsvík, sem var að reka upp í Klakkinn við Patreksfjörð. Svo björguðum við Rifsnesi, er var að reka vélarvana upp í Svörtuloft, og loks björguðum við áhöfn bresks togara frá Grimsby, er sökk fyrir utan Álftanes.“

Og þú hefur verið ánægður með veruna á þessum skipum ?

„Já, ég hef verið lánsamur. Ég hef ekki alltaf verið að skipta um húsbændur, hef átt þá góða, og þeir hafa verið ánægðir með mig þar sem ég hef verið kominn, og ég held að samstarfsmenn mínir hafi verið ánægðir með mig.“

Og þú ert ánægður með samferðafólkið og stéttarbræðurna?

„ Já, ég hef kynszt mörgu góðu fólki á lífsleiðinni, mörgum góðum starfsfélögum, en hvað sjómannastéttinni viðvíkur þykir mér ljótt sinnuleysi hennar um eigin kjör. Margt það sem komið hefur verið á í þeirra þágu fara þeir á bak við og brjóta sjálfir.“

Hér áður voru togararnir ekki gerðir út á sumrin, vannstu þá í landi?

„Undanfarin sumur hef ég verið uppi í sveit m. a. smíðað heyturna og fjós. Já, ég er jafn mikill smiður og sjómaður. Á kreppuárunum þegar togararnir voru ekki gerðir út á sumrin var ég í sveit, þá fékk maður 5 kr. á dag í kaup á sumrin og 2 kr. á haustin. Nei, ég sá fjölskylduna heldur ekki á sumrin nema endrum og eins, á kreppuárunum vorum við öll í sveit. Í tvö sumur hafði ég eina telpu með mér. Ég var tíu ár á sumrin í Haga í Þjórsárdal.“

Þú ert þá orðinn kunnugur í Þjórsárdalnum.

„Já, ég er orðinn „hagvanur“ á Haga. Kom fyrst að Haga í Þjórsárdal 19 ára gamall. Sótti þangað konuna mína, en samt er hún Snæfellingur, frá Hafursstöðum.

Þegar ég var átján ára kom til mín kona í draumi. Ég var svolítið skotinn í stelpu þá, hún var á sama aldri og ég. Draumkonan sýndi mér stúlku í svefninum og sagði: „Þetta er konuefnið þitt, Katrín Markúsdóttir.

Sumarið 1921 var ég kaupamaður í Haga. Þegar ég kom þangað í kaupavinnuna sumarið eftir var komin þar kaupakona, og þar þekkti ég konuefnið mitt úr draumnum.“

Og fórst beint til hennar og sagðir henni að hún væri konuefnið þitt?

„Þetta kom smátt og smátt af sjálfu sér. Síðan höfum við verið förunautar, og ég var lánsmaður að fá þann förunaut.“

Ertu berdreyminn?

„Já, ég er berdreyminn. Þegar fyrsta barnabarnið mitt, Katrín, fæddist var það rétt fyrir vaktaskiptin að ég var sofandi úti í sjó. Þá fannst mér koma til mín lítil telpa, hún klappaði á kinn mér og sagði: „Afi,, ég er komin.“ Ég glaðvaknaði við þetta. Um hádegi þennan dag fékk ég skeyti um að dóttur minni væri fædd dóttir.“

Kreppuárin eru nú fjarlæg huga flestra Íslendinga, hvað þá tímabilið þar áður, hvernig var lífið í Þjórsárdalnum þá?

„Í þá daga fór maður með vagna og hesta frá Haga í Þjórsárdal alla leið til Reykjavíkur. Vorið 1922 fór ég einn með sjö vagna.“

Hverskonar vörur varstu að flytja þaðan?

„Ég fór með kálfakjöt af bæjunum, innpakkað í húðir og arfa. Þá var enginn kælir til og því var reittur arfi í görðum og látinn votur inn í skrokkana. Ég var með 5 vagna frá Hagaheimilinu, en tveir voru teknir af öðrum bæjum á þeim var skyr, smjör og lax. Svo kom ég með aðdrætti til baka. Þá var tekið út til búsins einu sinni eða tvisvar á ári. Það sem ég fór með suður var lagt inn hjá Jóni á löppinni á Laugaveginum. Austanmenn versluðu þá mikið þar eða hjá Gunnari í Von.

Í þeirri ferð lagði ég nótt með degi, sem venja var í slíkum ferðum, en auðvitað varð ég að á oft.

Já, það var nóg að gera i sveitinni þá engu síður en nú. Á annan í hvítasunnu vorið 1922 fórum við þrír félagar í vorsmalamennsku frá Haga inn að Kisu, það munu vera 60—70 kílómetrar. Jóhann Kolbeinsson frá Hamarskeiði var fjallkóngur eða leitarformaður og var fjallkóngur enn seinast þegar ég vissi, þá kominn á níræðisaldur. Hinn var Vigfús bóndi á Stóra-Hofi.

Þegar við komum inn á svokallað Stangafell fáum við þreifandi byl, héldum samt áfram innúr; vorum vel ríðandi og vel nestaðir. Við urðum að bíða í Norðurleit a.m.k. 24 tíma til að geta ratað. Biðum í Kjálkanesveri. Svo þiðnaði, snjórinn rann niður og varð autt. Dalsá og Gljúfurá voru því talsvert miklar. Ég var á duglegasta hestinum og reiddi því lömbin yfir árnar. Það sá ekki á Hetju frá Haga. Já, hún var duglegur hestur. Ég fór einu sinni á henni á ellefu tímum sunnan frá Reykjavík austur í Haga.

Á fimmtudegi kom ég aftur heim að Haga, ósofinn og votur upp i mitti. Þegar ég kom  heim spurði húsmóðirin: —Ertu ekki orðinn þreyttur á þessum þurra mat? Jú, ég hélt nú það, og hún færði mér tafarlaust skyr og mjólk, en það skyr át ég aldrei, því ég steindó strax og ég var kominn í bæinn og sestur, diskurinn datt úr höndum mér á gólfið. Ég veit ekki enn í dag hvernig þær hjálpuðust að því að hátta mig og drasla mér í rúmið.

Ég var vakinn eftir fjóra tíma. Húsbóndinn var veikur og ég var því eini rólfæri karlmaðurinn á heimilinu, en 550 fjár höfðu verið á fóðrum. Já, þá var nóg að gera. Ég varð að taka allan rúninginn einn. Það vor sofnaði ég tæpast væran blund frá 11. maí og fram að slætti. En það var gaman að lifa samt.“

Og ertu ánægður með lífið?

„Já, ég er ánægður. Ég á fimm tengdasyni sem eru hver öðrum prúðari og betri og eina tengdadóttur, hún er perla. Ég á nítján barnabörn. Ég er ánægður með lífið, og ánægjulegt að geta sagt þetta án þess að hræsna.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: