- Advertisement -

ÁF: Stórsigur ríkisstjórnar Bjarna Ben

“…framsaga og umræða minni hlutans um vantraustið var fyrir neðan allar hellur og raunar afar vanstillt og á lágu plani.“

Ásmundur Friðriksson.
Ásmundur Friðriksson:
„Verk okkar verða lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabilsins á næsta ári.“

Alþingi „Vantrauststillaga Flokks fólksins og Pírata snerist upp í andhverfu sína og varð að sterkri traustsyfirlýsingu við ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar og í raun stórsigur,“ sagði Ásmundur Friðriksson Sjálfstæðisflokki.

„Framsögumaður tillögunnar, formaður Flokks fólksins, dæmdi hana sjálf óþarfa og sagði hana falla áður en hún kæmi til atkvæðagreiðslu. Til hvers var þá lagt í þá vegferð að trufla þingstörfin með óþarfa tillöguflutningi sem í lokin varð traustsyfirlýsing á ríkisstjórnina? Þá vil ég segja eins og er, virðulegi forseti, að framsaga og umræða minni hlutans um vantraustið var fyrir neðan allar hellur og raunar afar vanstillt og á lágu plani. Þar var gengið nærri persónu ráðherra með harkalegum ásökunum og náði engri átt að mínu mati,“ sagði Ásmundur.

„Niðurstaða vantrauststillögunnar er stórsigur fyrir ríkisstjórn Bjarna Benediktssonar sem hefur að baki sér sterkan þingmeirihluta úr síðustu þingkosningum. Verk okkar verða lögð í dóm kjósenda í lok kjörtímabilsins á næsta ári. Það er hinn endanlegi dómur á störf þingmanna og ríkisstjórna,“ og svona endaði Ásmundur ræðu sína.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: