- Advertisement -

Á heimsvísu er staðan vorkilega grimm

Bjarta hliðin er að um 120 lönd eru með lítinn eða mjög hægan vöxt smita.

Marinó G. Njálsson skrifar:

Covid-19 veiran verður greinilega ekki svo auðveldlega kveðin í kútinn. Staðan á Íslandi ber vott um það og ekki síður staðan á heimsvísu. Ekki hafa fleiri smit verið greind hér á landi frá því um miðjan apríl og þó þau séu enn fjarri því að vera eins mörg og þau voru flest í byrjun þess mánaðar, þá geta aðstæður breyst hratt.

Á heimsvísu er staðan virkilega grimm. Dagleg fjölgun smita er að nálgast 300.000 (miðað við staðfest smit). Fór fyrst yfir 200.000 fyrir fjórum vikum! Fjölmörg lönd eru að toppa í nýjum smitum síðustu daga og vikur hátt í 5 mánuðum eftir að fyrstu smit voru greind í þessum löndum. Alvarlegust er líklega þróunin í Indlandi, þar sem 12 sinnum á síðustu 17 dögum hefur nýjum toppi verið náð. Já, ég segi að það sé alvarlegast þar, þar sem mér sýnist stjórnvöld í landinu hafi enga getu til að hemja útbreiðslu veirunnar. Ástralía, Ísrael og Japan hafa líka verið að toppa sig, þar sem verið er að bæta met frá því í mars og apríl! Frá 13. júlí hefur nýjum toppi smita verið náð 160 sinnum í 60 af þeim 213 löndum/svæðum sem er í þeim gagnagrunni sem ég styðst við. Þannig að í tæplega 30% landa er það mikill vöxtur í smitum um 5 mánuðum eftir að fyrsta smit var greint að þau eru enn að ná nýjum toppi yfir daglega fjölgun smita!

Þú gætir haft áhuga á þessum

Verður veiran hamin í bráð?

Bjarta hliðin er að um 120 lönd eru með lítinn eða mjög hægan vöxt smita. Þá miða ég við allt að 10 ný smit á hverja 100 þúsund íbúa á síðustu 10 dögum. Þessi tala fer þó lækkandi, því fyrir 2 vikum voru löndin 142. Ekki hefðu fjölgað í hópi þeirra landa þar sem ástandið er verst (meira en 150 ný smit á hverja 100.000 íbúa síðustu 10 daga), en tvöföldun er á löndum í næsta hóp fyrir neðan (100-150 ný smit).

Viðsnúningurinn í Evrópulöndum hefur verið mikill síðasta mánuðinn. 25. júní var Svíþjóð t.d. eina landið með nýgengni upp á meira en 100 á hverja 100.000 íbúa á 10 dögum. Sé miðað við tölur í gær, þá eru Svíar í góðum málum, komnir í 19, á sama tíma er Lúxemborg komin upp í 156 (úr 11) og Svartfjallaland fer úr 10 í 117. Löndum með 10 eða færri hefur fækkað úr 33 í 18 og löndum með yfir 30 fjölgar úr 8 í 20.

Verður veiran hamin í bráð? Ég stórlega efast um það. Hún er einfaldlega búinn að ná það sterkri fótfestu í allt of mörgum stórum ríkjum að bóluefni er eina leiðin til að halda aftur af henni. Hér á Íslandi búum við við þann lúxus að nánast allir sem koma til landsins koma um einn flugvöll. Við ættum að geta haft meiri stjórn á stöðunni en þjóðir með tugir, hundruð eða þúsund milljóna íbúa. Því miður fór eitthvað úrskeiðis og veiran læddist inn í landið með fólki sem taldi sig ekki vera smitbera og var ekki gripið í landamæraskimuninni. Sóttvarnaryfirvöld verða að skoða hvernig stóð á því að þessir einstaklingar sluppu framhjá skimuninni og tókst þannig að stuðla að dreifingu veirunnar innanlands. Ekkert bendir til þess að um almenna ferðamenn hafi verið að ræða, þó vissulega megi rekja nokkur smit til ferðamanna, heldur voru þetta líklega einstaklingar með tengsl við landið vegna búsetu, vinnu eða fjölskyldutengsla. Þessir aðilar hefðu flestir komið þó ekki hefði verið slakað á kröfu um sóttkví. Kannski þarf aftur að skikka alla í þessari stöðu í sóttkví við komunnar til landsins, a.m.k. gengur óbreytt ástand líklega ekki lengur.

Greinin birtist fyrst á Facebooksíðu Marinós.


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: