Meðal þess sem Alþingi er ætlað að ræða í dag er stofnun þjóðaróperu, sem yrði vistuð í Þjóðleikhúsinu.
„Stofnun óperunnar hefur um nokkurt skeið verið hluti af opinberri stefnu stjórnvalda. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnar Samfylkingarinnar, Viðreisnar og Flokks fólksins kemur fram að ríkisstjórnin vilji styðja við menningu með myndarlegum hætti til að varðveita og styrkja sjálfsmynd þjóðarinnar, en einnig er forgangsverkefni að hagræða, einfalda stjórnsýslu og sameina stofnanir. Markmiðið með lagasetningunni, verði frumvarpið að lögum, er að búa til traustan grundvöll fyrir íslenska óperulist, en sem mikilvæg grein sviðslista er hún ein af grunnstoðum menningar á Íslandi. Horft er til þess að í stað nýrrar, sjálfstæðrar stofnunar náist hagræðing í rekstri með því að reka óperustarfsemi sem hluta af Þjóðleikhúsinu. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir aukinni og samfelldri starfsemi sem mun verða mikilvægur þáttur í rekstri tónlistar- og ráðstefnuhússins Hörpu. Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar segir jafnframt að lögð verði áhersla á að auka aðgengi landsmanna að menningarlífi óháð efnahag og búsetu, en með lögbundnu hlutverki öðlast óperan bolmagn til að fylgja eftir stefnu hins opinbera hvað varðar jafnrétti, inngildingu og aðgengi, auk þess að opna dyr fyrir nýjum Íslendingum,“ segir meðal annars í greinargerð með frumvarpinu.
Síðar í greinargerðinni segir:
„Með fyrirhuguðum samrekstri Þjóðleikhúss og óperunnar er því nýtt tækifæri til að stíga fyrsta skrefið í átt að sambærilegu fyrirkomulagi á Íslandi. Þar eð fyrirséð er að starfsemi óperunnar verði byggð upp fyrstu árin gefst góður tími til að þróa samstarfið vandlega á sama tíma og stoðdeildir Þjóðleikhússins verða stækkaðar og aðlagaðar að auknu umfangi. Á þessu tímabili væri æskilegt að skoða og formgera aðkomu Íslenska dansflokksins að samstarfinu, enda hefur hann sömu þarfir er víkja að framleiðslu, tækni- og stoðþjónustu. Æskilegt er að árið 2030, þegar fyrirhugað er að óperan verði komin í fulla starfsemi, verði komið á sameiginlegri yfirstjórn yfir sviðslistastofnununum þremur, Þjóðleikhúsi, óperunni og Íslenska dansflokknum, með jafnræði á milli listgreinanna sem hver mun áfram hafa sinn listræna stjórnanda: leikhússtjóra, óperustjóra og listdansstjóra.
Sameinaðar geta sviðslistastofnanirnar einnig talað fyrir bættri aðstöðu, en við sameiningu er þörf á að endurskoða húsnæðiskost og bæta bæði sýninga- og æfingaaðstöðu.“