- Advertisement -

ASÍ fyrirgefur Icelandair sem lofar bót og betrun

Sólveig Anna Jónsdóttir, varaforseti ASÍ og formaður Eflingar, skrifar:

Hér fyrir neðan er texti að ályktun sem ég ætlaði mér að leggja fram á miðstjórnarfundinum í dag. Ég sendi hann á félaga mína í miðstjórn seint í gærkvöldi, þegar ég vissi ekki að það yrði skömmu seinna boðaður sérstakur aukafundur miðstjórnar. En í ljósi atburða morgunsins sem urði á þeim fundi og eftir að mér varð afstaða meirihluta miðstjórnar skýr í kjölfar atkvæðagreiðslu um sameiginlega yfirlýsingu miðstjórnar ASÍ með Icelandair þá upplýsti ég félaga mína um að ég sæi ekki tilgang í að láta þau greiða atkvæði um eitthvað sem gengi þvert á texta hennar.

Kjarninn er búin að birta stutt viðtal við mig vegna þess sem átt hefur sér stað í dag. Þar segi ég m.a. þetta:

„Öllum var afstaða mín mjög skýr ­sem sátu þennan fund í morg­un. Ég útskýrði hana að mínu viti mjög ræki­lega og mál­efna­lega. Að mínu viti er verið að nota mið­stjórn Alþýðu­sam­bands­ins sem ein­hvers konar afláts­bréfa-ma­sk­ín­u,“. Það er mín afstaða gagnvart sameiginlegri yfirlýsingu með Icelandiar og ég stend við hana.

– – – – –

„Miðstjórn Alþýðusambands Íslands minnir á að hún samþykkti á fundi sínum 19. ágúst síðastliðinn að láta hefja undirbúning málssóknar í Félagsdómi gegn Icelandair. Málssóknin er til komin vegna óboðlegrar framgöngu Icelandair gegn einu af aðildarfélögum Alþýðusambandsins, Flugfreyjufélagi Íslands, og félagsmönnum þess í kjaradeilu.

Að mati miðstjórnar er það afar einkennilegt að stórfyrirtæki sem hefur fótum troðið grunnréttindi launafólks og farið á svig við landslög gangi nú á biðilsbuxum um stuðning frá íslenska ríkinu og eftirlaunasjóðum launafólks.

Miðstjórn bendir á að Icelandair hefur þegar notið gríðarlegra fjárframlaga og stuðnings frá íslenska ríkinu. Icelandair hefur nýtt sér stuðning vegna greiðslu launa á uppsagnarfresti og hlutabótaleiðina í meiri mæli en nokkurt annað íslenskt fyrirtæki. Icelandair hefur fengið að gera þjónustusamninga við íslenska ríkið um að fljúga tómum flugvélum til og frá landinu. Icelandair hefur fengið vilyrði um lánalínu úr ríkissjóði upp á tugmilljarða. Alþingi hefur gert sérstakar lagabreytingar til að greiða fyrir hlutafjárútboði fyrirtækisins.

Því fer fjarri að rekstrarvandi Icelandair stafi eingöngu af Kórónaveirufaraldrinum og rennur því hluti af opinberum stuðningi við fyrirtækið til greiðslu kostnaðar af slæmum viðskiptaákvörðunum stjórnenda þess.

Að mati miðstjórnar er ekki hægt að horfa á Icelandair sem hvert annað fyrirtæki. Um er að ræða rekstur sem haldið er á lífi með almannafé í krafti ákvarðana löggjafans. Að mati miðstjórnar getur framganga Icelandair gagnvart landslögum og réttindum almennings ekki samræmst þessu.

Miðstjórn minnir á að íslenskir lífeyrissjóðir eru afurð af samstarfi aðila vinnumarkaðarins, samstarfi sem byggir á rótgrónum hefðum og víðtækum lagaramma. Icelandair hefur kosið að virða þessar hefðir og lagaramma að vettugi.

Miðstjórn bendir jafnframt á að íslenskir lífeyrissjóðir hafa flestir tekið upp fjárfestingarstefnu þar sem kveðið er á um ábyrgð gagnvart samfélagi, lögum og hagsmunum sjóðfélaga í víðum skilningi. Icelandair hefur virt slíka ábyrgð að vettugi.

Að mati miðstjórnar getur framganga Icelandair gagnvart landslögum og réttindum launafólks ekki farið saman við að fyrirtækið sækist eftir fjárfestingum úr eftirlaunasjóðum almennings.

Miðstjórn Alþýðusambands Íslands lýsir stuðningi við afstöðu forseta ASÍ sem hún tjáði í aðsendri grein í Morgunblaðinu í gær, 15. september síðastliðinn.“


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: