- Advertisement -

Auðlindir og kvótinn

Alls konar hagsmunapot á sér stað varðandi auðlindir.

Haukur Arnþórsson skrifar:

Almenningur (ríkið) á allar auðlindir og svo hefur jafnan verið, sama hvaða þjóðskipulag er. Um þetta er nánast ekki deilt meðal fræðimanna. En alls konar hagsmunapot á sér stað varðandi auðlindir. Þetta eignarhald ber með sér að þótt auðlind sé t.d. á nesi eiga nesbúar ekki meira í henni eða njóta afraksturs hennar ekki í meira mæli en aðrir þjóðfélagsþegnar. Þessi almannaréttur til auðlinda er nokkuð altækur.

Í þessu sambandi er ég t.d. að tala um málma í jörðu, vatnsréttindi til nýtingar (raforka, ferskvatn), fiskimið, jarðgufu, sjávarföll, vindorku o.s.frv.

Þú gætir haft áhuga á þessum

…opnar á margháttaða spillingu og tortryggni.

Auðhringir hafa reynt að tryggja sér varanlegan nýtingarrétt og bótaskyldu frá almenningi (ríkinu) ef hann er tekinn frá þeim. Sú barátta er í algleymi í þróunarríkjum – og óneitanlega víðar svo sem hér á landi. Þetta virðist óumflýjanlegt, en stýra má því hvort með því að beina úthlutuninni á nýtingarréttinum frá stjórnmálamönnum, en sá réttur opnar á margháttaða spillingu og tortryggni.

Sjaldgæfara er að landeigendur telji sig eiga auðlind og að greiða beri þeim auðlindagjald sé hún nýtt – og þá jafnvel að almenningur (ríkið) eigi að gera það, en á þeim sjónarmiðum hefur borið vegna vatnsafls hér á landi. En hingað til hefur land jafnan verið tekið eignarnámi af ríkinu þegar auðlindir finnast sem tilheyra því.

Þá eru staðbundin sjónarmið mjög áberandi. Þá er átt við að landeigendur, þeir sem vinna auðlindina, sveitarfélag eða einhver í nafni íbúa – krefjast þess að fá stærri sneið af auðlindinni en þeim ber skv. höfðatölu. Víðast eru auðlindir landfræðilega staðbundnar þannig að atvinna verður ekki tekin af fólki nema auðlindin klárist, en þegar þær eru fiskur sem syndir verða þessi sjónarmið meira áberandi og hafa t.d. komið mikið til skoðunar í Alaska.

…hagsmunagæsla eins og við þekkjum svo vel hér á landi.

Það er ekki hægt að segja að staðbundin hagsmunagæsla sé „róttæk“, frekar að hún sé „hægri sinnuð“. Hún er einfaldlega hagsmunagæsla eins og við þekkjum svo vel hér á landi. Og staðbundin hagsmunagæsla ógnar almannahag – en almannahagur snýst óhjákvæmilega um hagkvæmni, þ.e. hvernig almenningur hefur sem mest út úr auðlindinni til að hann orsaki sem mesta velsæld.

Sósíalistar um allan heim styðja almannahagsmuni þegar kemur að auðlindum, bæði hvað varðar eignarhald og arð af nýtingu. Það hljóta þeir einnig að gera hér á landi.

Nákvæmlega hvernig á að framkvæma almannahagsmuni get ég ekki svarað. En minni á að jafnan er talað um að nota uppboðsmarkaði til að finna út verðmæti. Úrskurðarnefndir í því efni eru umdeildari, auðvelt er að tortryggja þær.

Uppboðsmarkaðir geta verið á þremur skilum hvað varðar fiskinn í sjónum – og nú er ég aðeins að tala um hann:

  • (i) Nýtingarrétturinn sé seldur hæstbjóðanda á uppboði til hæfilegs tíma, t.d. 10% árlega til 10 ára – eða til svo langs tíma að fiskveiðitækin borgi sig. Mælt er með því að hluti af því kerfi sé að þeir aðilar sem hreppa úthlutunarréttinn greiði þeim sem gera það ekki, en höfðu nýtingarrétt áður einhverjar bætur, þannig að þeir geti gengið frá sinni útgerð. Þetta kerfi aftengir úthlutunina frá stjórnmálunum – og það er meginkostur þess. Þannig dregur það úr spillingu. Indriði H. Þorláksson er með aðra útgáfu, sem snýst um að lesa arðsemi greinarinnar út úr skattframtölum og leggja auðlindagjaldið á sem skatt.
  • (ii) Fiskmarkaðir þar sem fiskur upp úr sjó er boðinn upp – er hin hefðbundna regla í okkar heimshluta. Þeir hafa marga kosti, enda mikilvægt fyrir alla hagsmunaaðila að vita verðmæti fisksins á því stigi. Þar sem nýr fiskur, t.d. fyrir veitingahús – verður sífellt verðmætari erlendis sem gæti gert fiskvinnslu og vöruþróun hér á landi óþarfa (enda varan hollust óunnin) verður þessi gerð markaðar sífellt mikilvægari.
  • (iii) Þá er hægt að hafa markað með fullunna vöru – ef varan er eitthvað unnin.

Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: