- Advertisement -

Bækur verða skeinipappír

Gunnar Smári skrifar:

Við erum að flytja og þá þarf að grisja bækur, henda því sem er lesið og verður ekki lesið aftur, því sem átti lesa en sem aldrei fannst tími til (og sem mun ekki komast á dagskrá úr þessu), hálflesnar bækur sem reyndust leiðinlega fyrirsjáanlegar og bókum sem aldrei stóð til að lesa en einhver vongóður gaf okkur. Ég náði ekki að grisja nema um fjórðung, restin bíður í kössum. En hvað um það; þegar ég kom í Sorpu með drekkhlaðinn skódabílinn og spurði manninn í hliðinu hvert bækur ættu að fara benti hann á gám sem merktur var Pappír og pappi. Skammt frá var gámur merktur Nytjahlutir, en þangað fá bækur ekki að fara lengur; þær eru ekki lengur stofudjásn heldur rusl. Ég sturtaði úr kössunum í Pappírsgáminn (henti bókunum en hélt kössunum, því við erum enn að flytja; fyrir fólk í flutningum er góður kassi gull en vond bók tómt amstur og leiðindi) og sá þar á eftir Baráttuleið alþýðunnar (stefnuskrá Einingarsamtaka kommúnista), Afmælisriti til heiðurs Davíð Oddssyni sextugum, ævisögu Hannesar Hafstein, matreiðslubók Rúnars Marvinssonar og allskonar leifum tuttugustu aldarinnar (ég henti líka bókum um og eftir konur, en læt vera að nafngreina þær; nóg mega konur þola af körlum).

Í morgun velti ég því fyrir mér hvað yrði um þessar bækur. Samkvæmt heimasíðu Sorpu eru þær sendar til Svíþjóðar þar sem þeim verður breytt í klósettpappír. Eftir einhverja mánuði eða ár mun því einhver, einhvers staðar í heiminum, skeina sig á þessum bókum. Það er betra gagn en ef ég geymi þær enn í kössum eða hillum.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: