- Advertisement -

Barist í borgarráði og bent í allar áttir

„Ánægjulegt er að málið þokist nú áfram eftir margra ára töf, sem má ekki síst rekja til andstöðu núverandi meirihluta borgarstjórnar við stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík.,“ bóka sjálfstæðismenn. „Bókun Sjálfstæðisflokksins felur í sér grófar rangfærslur,“ segir meirihlutinn.

Hart var tekist á á fundi borgarráðs þegar rætt var um bætur á Vesturlandsvegi á Kjalarnesi. Bókað var fram og til baka.

Loksins, loksins.

„Borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins styðja nauðsynlegar skipulagsbreytingar svo unnt verði að ráðast í löngu tímabærar framkvæmdir í þágu aukins umferðaröryggis á Vesturlandsvegi,“ segir í bókuninni.

Þar segir einnig: „Ánægjulegt er að málið þokist nú áfram eftir margra ára töf, sem má ekki síst rekja til andstöðu núverandi meirihluta borgarstjórnar við stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík. Mikilvægt er að lagning göngu- og hjólreiðastígs verði hluti af umræddum vegabótum og góðri tengingu um leið komið á milli Kjalarness og annarra íbúahverfa á höfuðborgarsvæðinu. Þá er óskað eftir því að metið verði frekar hvort ekki sé rétt að ráðast strax í lagningu 2+2 vegar í stað 2+1 vegar eins og gert er ráð fyrir í framlagðri tillögu.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Nei, takk

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata voru fjarri sammála fulltrúum Sjálfstæðisflokksins og þeir lögðu fram sína bókun:

„Bókun Sjálfstæðisflokksins felur í sér grófar rangfærslur. Umbætur á Vesturlandsvegi voru sannarlega á samgönguáætlun ríkisins sem samþykkt var á Alþingi fyrir kosningar haustið 2016 en var tekin út af fjárlögum eftir kosningar sama ár ásamt fjölda annarra mikilvægra framkvæmda. Sömu sögu var að segja um fjárlög þessa árs. Sjálfstæðisflokkurinn getur ekki vísað ábyrgð á þessum ótrúlegu ráðstöfunum í samgöngumálum ríkisins og Alþingis til borgarstjórnar, hvað þá til samnings um eflingu almenningssamgangna, enda kom niðurskurður á boðuðum framkvæmdum þeim ekkert við.“

Vildu tíu ára stöðvun

Átökunum var ekki lokið og borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Á síðasta kjörtímabili borgarstjórnar beitti meirihluti Samfylkingar og Bjartrar framtíðar (Besta flokksins) sér fyrir gerð samnings við ríkisvaldið um tíu ára stöðvun stórframkvæmda í samgöngumálum í Reykjavík. Með þeim samningi voru skýr skilaboð send til ríkisins að meirihluti borgarstjórnar hefði ekki áhuga á stórframkvæmdum í samgöngumálum í borginni og átti það jafnt við um Vesturlandsveg sem og aðrar stofnbrautir í borginni. Allt frá gildistöku þessa slæma samnings, hafa borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins oft lagt til að hann verði endurskoðaður í því skyni að hafist verði handa við stórframkvæmdir í samgöngumálum í Reykjavík með umferðaröryggi og arðbærni að leiðarljósi. Núverandi meirihluti hefur, undir forystu Samfylkingarinnar, staðið einarður gegn endurskoðun samningsins og þannig staðið gegn stórframkvæmdum í samgöngumálum í borginni. Ánægjulegt er ef nú verður breyting á þeirri afstöðu.“

Hrein svik

Borgarráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Bjartrar framtíðar, Vinstri grænna og Pírata áttu síðasta orðið, með þessari bókun.

„Vesturlandsvegur var settur á samgönguáætlun ríkisins algerlega óháð samningi SSH og ríkisins um eflingu almenningssamgangna og var tekin þaðan út, algerlega óháð honum einnig. Samgönguáætlun ríkisins var einfaldlega svikin og er þar við engan að sakast nema þá sem samþykktu hana á Alþingi og kynntu fyrir kosningar en skáru jafnharðan niður á Alþingi eftir kosningar. Það er langt seilst að kenna borgarstjórn um þessa ótrúlegu atburðarrás.“

 


Auglýsing

Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: