- Advertisement -

Bjarni, Oddný og Panamaskjölin

Oddný Harðardóttir, fyrrverandi fjármálaráðherra, spurði núverandi fjármálaráðherra, Bjarna Benediktsson um Panamaskjölin og fjárfestingarleið Seðlabankans, á Alþingi í dag.

„Panamaskjölin sýndu að Íslendingar áttu heimsmet í að nýta sér þau skattaskjól. Sú uppljóstrun kallaði skömm yfir alla þjóðina enda skattaskjól fyrst og fremst notuð til að fela eignir og komast undan skattgreiðslum,“ sagði Oddný.

Oddný minntist næst á upplýsingar úr Kveiki á RÚV. „Á meðal eigenda aflandsfélaga eru aðilar sem fengu háar fjárhæðir afskrifaðar í kjölfar falls bankanna, haustið 2008. Dæmi eru einnig um að kröfur í þrotabú bankanna hafi verið vistaðar í aflandsfélögum.“

Oddný sagði síðan að háar fjárhæðir hefðu komið til landsins í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans og eigendur þeirra hefðu fengið þar verulegan gróða. „Aðeins opinber rannsókn getur aflétt þeirri leynd sem yfir þeirri leið ríkir.“

Þú gætir haft áhuga á þessum

Hún spurði Bjarna hvort hann telji ekki tímabært að bera þessa hópa saman, þá sem fengu háar fjárhæðir afskrifaðar frá bönkunum, kröfur aflandsfélaga í þrotabú bankanna og þátttöku í fjárfestingarleið Seðlabankans eða gjaldeyrisútboðum.

„Ef það yrði gert fengjust svör við því hvort hér sé um einhverja sömu aðila að ræða,“ sagði Oddný og sagði svo: „Svo virðist sem í einhverjum tilvikum hafi eignarhaldsfélög gagngert verið stofnuð til að skuldsetja þau. Lánsféð hafi síðan verið fært til aflandsfélaga án þess að um nokkur viðskipti hafi í raun verið að ræða og jafnvel reynt að hylja slóðina með flóknum millifærslum. Það er mögulegt að rekja þessi viðskipti með opinberri rannsókn og Panamaskjölin hjálpa til við það.“

Síðan spurði hún Barna hvort hann sé ekki sammála sér um að þessi mál verði að upplýsa og að gera verði skattrannsóknarstjóra kleift að rannsaka þessi mál fljótt og vel? „Verðum við ekki að vera viss um að fjárfestingarleið Seðlabankans hafi ekki verið misnotuð með illa fengnu fé?“

Mál í eðlilegum farvegi, segir ráðherrann

Bjarni byrjaði svar sitt svona: „Öllum rökstuddum vísbendingum um að lög séu brotin eiga eftirlitsstofnanir að sinna. Það gildir með skattrannsóknarstjóra og önnur embætti í landinu líka, Seðlabankann. Ef menn hafa ástæðu til að ætla að lög séu brotin, að menn séu með illa fengið fé, er alveg skýr farvegur fyrir slík mál í íslenska réttarvörslukerfinu.“

Hann var ekki sáttur við allt sem Oddný hafði sagt og sagði hana fara „dálítið“ úr einu í annað. Hann sagði Oddnýju hafa samþykkt, á sínum tíma, að hér á landi yrðu í gildi reglur sem gerðu beinlínis löglegt að eiga fé á aflandssvæðum. „Það er ekki hægt annars vegar að setja slíka lagasetningu hér í þessum sal og hins vegar að úthrópa alla þá sem fylgja þeim lögum. Það einfaldlega gengur ekki upp. Það er ekki réttarríki sem menn búa í þar sem þannig er komið fram.“

Bjarni sagði þingmenn hafa sammælst um að ganga á eftir öllum upplýsingum um að farið hafi verið á svig við lög.

„Við höfum útvegað sérstakar fjárheimildir til að það sé gert. Í sumar, fyrir nokkrum vikum síðan, svaraði ég háttvirtum þingmanni um hvernig þau mál hefðu gengið. Í því svari kom fram að á þessari stundu meta menn það svo að allt að 15 milljörðum af skattstofni kunni að hafa verið haldið eftir og ekki gefið upp, að uppistöðu til fjármagnstekjur sem eru þá 20% af viðkomandi skattstofni. Þau mál eru í eðlilegum farvegi. Önnur mál eins og þau sem hv. þingmaður vísar til og ég þekki ekki og er ekki með á mínu borði sérstaklega eiga að hafa sinn skýra farveg í réttarvörslukerfinu okkar.“

Fimm mánuði að svara

Oddný tók aftur til máls og byrjaði á að minnast þess að svörin sem Bjarni hefði vitnað til hefði tekið hann fimm mánuði að setja saman.

„Þetta voru spurningar sem voru ekki flóknar og sennilega hafa svörin legið á borði stofnana. Hvers vegna tók það svo langan tíma fyrir hæstvirtan ráðherra að svara þeim spurningum?“

Hún sagði rétt, það sem Bjarni hefði sagt að það komi fram í svörunum að vanframtaldir, undandregnir skattstofnar nema alls um 15 milljörðum kr. „Til viðbótar hafði óloknum Panamamálum verið vísað til skattrannsóknarstjóra frá ríkisskattstjóra, 187 slíkum málum, fyrir rétt um ári. Er ekki augljóst að skattrannsóknarstjóri mun ekki geta gert hvort tveggja, klárað rannsókn á málum sem tengjast Panamaskjölum og rannsókn á slóð peninga í gegnum fjárfestingarleið Seðlabankans eða gjaldeyrisútboð, og finnst hæstvirtum ráðherra það ásættanlegt?“

Þá rifjaði Oddný upp að í svörum Bjarna var tekið fram að skattrannsóknarstjóri kæmist ekki yfir öll þau mál sem hann vildi komast yfir og að hann þyrfti aukið fjármagn og fleiri menn til að vinna þau störf.

„Varðandi fjárfestingarleið Seðlabankans er það leið sem við ákváðum á sínum tíma að opna fyrir. Við kölluðum eftir því að menn kæmu með gjaldeyri inn í landið,“ sagði Bjarni þegar steig aftur í ræðustól.

„Ég treysti embættismönnum“

Síðan spurði hann hvort Oddný væri að spyrja sig hvort hann telji rétt að skoða eigi mál, séu einhverjar vísbendingar um að þar hafi verið á ferðinni menn sem hafi verið með illa fengið fé, sem ekki hafi verið talið fram, sagðist hann telja alveg augljóst að slíkt eigi að skoða. „Ég tel íslenskum stofnunum ekkert að vanbúnaði að fara í þau mál.“

„Hvort það eigi að vera skattrannsóknarstjóri samkvæmt einhverjum sérstökum fjárheimildum? Ja, ég myndi gjarnan vilja heyra það frá skattrannsóknarstjóra að fjárheimildir skorti til að sinna þeim málum. En ég hleyp ekki á eftir einstaka fréttum. Ég treysti embættismönnum og kerfinu, lögum og reglum, þeim sem eru á vettvangi að sinna þessum málum allan daginn, Seðlabankanum, Fjármálaeftirlitinu,  skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra, þeim stofnunum treysti ég á hverjum einasta degi til að fylgja lögum og við hér að breyta umhverfi þeirra. Ég hef enga ástæðu til að ætla annað en að þau sinni sínu hlutverki.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: