- Advertisement -

Boðvald á tíma kórónafaraldursins

Myndin af ráðherranum og vinkonum hennar endaði þessar tilraunir.

Gunnar Smári Egilsson skrifar:

Eins og ég man þetta voru viðbrögð almennings gagnvart kórónafaraldrinum síðla vetrar ekki fullkomlega eftir tilmælum sóttvarnaryfirvalda. Ég Hlýði Víði fór víða, en margt fólk gekk lengra en lagt var til, einangraði sig eins og hér væri útgöngubann eða dró börn sín úr skólum þótt grunnskólunum og leikskólum hafi ekki verið lokað. Fólk dró því eigin ályktanir af þeim upplýsingum sem voru lagaðar fram.

Þegar hættan varð ljós; þegar fólk fór að veikjast, smitum fjölgaði hratt og fólk frétti af andlátum; fóru margir eftir bókstaf tilmæla en aðrir gengu lengra, tóku mið af ráðleggingum sóttvarnaryfirvalda í öðrum löndum. Og þótt nokkrir hafi maldað í móinn og lýst yfir að kórónafaraldurinn væri ekki sú vá sem dregin var upp, þá var ekki áberandi að fólk bryti gegn tilmælum. Það bárust nánast engar fréttir af slíku.

Þú gætir haft áhuga á þessum

Þessi viðbrögð skiluðu fljótt árangri. Nýjum smitum fækkaði snöggt og vírusnum var útrýmt úr samfélaginu á undraverðum hraða. Þegar dró úr nýsmiti og ljóst var að aðgerðirnar voru að skila árangri varð maður var við að þó nokkur hópur fór að slaka á samkomubanni og tilheyrandi. Ég bý við miðbæinn þar sem mörg veitingahús eru, og myndi ætla að þessi hópur hafi verið svona viku til tíu dögum á undan sóttvarnaryfirvöldum. Eins og sumir höfðu farið fyrr og dýpra inn í varnir voru aðrir sem fóru fyrr út úr þeim og lengra burt.

Íslendingar eru ekki vanir svona stjórnvöldum.

En þetta kom ekki að sök. Svona er lífið. Ég held að ekki nokkur sála hafi Hlýtt Víði af þrælsótta eða ótta við refsingar. Fólk dró eigin ályktanir að þeim upplýsingum sem lagðar voru fram, enda snérust þær um líf og dauða. Og svo tók fólk nótis af því hvernig annað fólk brást við. Sóttvarnaryfirvöld voru með tilmælum sínum ætíð undir meðallagi, tilmæli þeirra voru vel innan marka þess sem meginþorri fólks var tilbúinn að beygja sig undir. Segja má að á þessum tíma hafi sóttvarnaryfirvöld verið góð lýðræðisleg stjórnvöld, stjórnuðu í takt við væntingar lýðsins og brutu ekki gegn vilja hans. Þess vegna var fólk svona ánægt með þríeykið; Íslendingar eru ekki vanir svona stjórnvöldum, sem horfa á heiminn úr sömu hæð og almenningur, upplýsir fólk um stöðuna og tekur skynsamlegar og framkvæmanlegar ákvarðanir.

Niðurstaðan varð skólabókardæmi um góða stjórnun. Hópnum var haldið saman, þeim sem vildu ganga lengra og líka þeim sem vildu ganga skemur. Aðgerðin sýndi fljótt og vel árangur, sem dró úr álagi vegna gagnrýni og ólíkra viðhorfa. Eitthvað af þessu var heppni, en hvað um það? Allir voru ánægðir. Landsmenn höfðu sigrað veiruna.

Þegar önnur bylgja skall á er staðan önnur. Þá var smitið ekki lengur af náttúrunnar völdum heldur afleiðing þess að ríkisstjórnin kaus að opna landið, eins og sagt er (í almennu tali kallast það að opna landið að lyfta skyldu um sóttkví komufólks, að loka landinu er að setja á sóttkví fyrir komufólk). Og eins og almenningur hafði séð tilgang með sóttvörnum sínum síðla vetrar og í vor, þá var hann ekki eins ljós í þetta sinn. Hvaða máli skiptir hvað við gerum ef stjórnvöld fórna árangrinum strax til að mæta kröfum Icelandair og ferðaþjónustunnar?

Að tveggja metra reglan væri ekki lengur valkvæð heldur skylda.

Svona brugðust ekki allir við, en nógu margir til að stjórnvöldum fannst þau þurfa að kynna harðari aðgerðir en í vor. Á fundum kom fram að tveggja metra reglan væri ekki lengur valkvæð heldur skylda, mælt var með grímunotkun og annað eftir því. Markmiðið virtist að berja niður þessa aðra bylgju snöggt, helst fyrir skólasetningar, og fyrirbyggja þriðju bylgju með því að loka landinu.

En þetta virkaði ekki. Það var öllum augljóst sem fóru út á meðal fólks. Skemmtanalífið í miðbænum var fjörugt, fólk hafði aðlagað sig breyttum opnunartíma og mætti fyrr á svæðið. Miðbærinn klukkan sjö að kvöldi í byrjun ágúst var eins og miðbærinn klukkan ellefu eða tólf í fyrra. Og í búðum og öðrum fjölförnum svæðum mátti merkja að miklum mun stærri hópur fólks lét sóttvarnir sig litlu skipta en verið hafði í vor.

Á kynningarfundum þríeykisins mátti merkja að sóttvarnaryfirvöld skynjuðu þetta. Til dæmis var rætt um að unga fólkið fylgdist ekki með almennum fréttamiðlum. Yfirvöld voru að missa fólkið úr salnum. Það voru miklu færri sem tóku raunverulegt mark á tilmælunum, þótt þau væru harðari en áður. Og myndir af ráðherranum og vinkonum hennar sýndu þetta vel og ekki síður viðbrögðin við myndbirtingunni. Stór hópur fólk fannst þetta eins og mynd úr hversdagsleikanum eins og hann er. Gera þetta ekki allir? Hvert er vandamálið? Má maður ekki skemmta sér?

Nú ætla ég ekki að leggja neitt mat á gagnsemi sóttvarna. Ég er eins og fólk er flest, sætti mig við þær meðan ég sé einhvern tilgang með þeim. Ég man hvað vorið var gott í Reykjavík þegar veiran virtist farin og við að öðlast þau stórkostlegu lífsgæði, að fá að lifa í smitlausu samfélagi. Ég tengi þetta við Black Lives Matter-samstöðuna á Austurvelli. Það var fagur dagur. Mig langar í það ástand aftur. Ég fékk mér því grímu og undirbjó mig undir snögga baráttu við aðra bylgjuna, en sá náttúrlega fljótt að samstaðan frá í vetur og vor var farin. Ég vorkenndi sóttvarnaryfirvöldum, hvernig í veröldinni ætluðu þau að ná upp stemmingu. Nú er ógnin ekki eins sýnileg og áður, aðeins einn á sjúkrahúsi og sá sem var í öndunarvél búinn að ná sér.

Við erum ekki lengur öll í þessu saman.

Það virtist vera sem sóttvarnaryfirvöld hefðu ofmetnast af góðum árangri í vor. Auðvitað var það ekki svo að þau hefðu kveðið niður fyrstu bylgju. Það var almenningur sem brást við upplýsingum um ástandið. Á tímabili voru upplýsingar sem birtust sláandi og viðbrögðin þar af leiðandi sterk. Nú var allt annað ástand. Sóttvarnaryfirvöld voru ekki að tala fyrir daufum eyrum allra, margt fólk tók tilmælin alvarlega, en nógu mörgum daufum eyrum svo að viðbrögðin urðu dauf, svo dauf að ef þú stendur á fjölförnum stað og horfir yfir hópinn, einkum þar sem áfengi er haft um hönd, þá sérðu lítil merki um tilmæli stjórnvalda.

Kannski var Þórólfur að gefast upp fyrir þessu þegar hann sagði að sóttvarnir væru val hvers og eins þegar myndinni af ráðherranum var otað að honum. Við erum ekki lengur öll í þessu saman, eins og var stefnan áður, heldur hvert fyrir sig.

En þýðir það að sóttvarnir muni ekki virka þegar næsta bylgja kemur og fólk leggst á sjúkrahús og einhverjir deyja? Nei, auðvitað ekki. Það er miklu líklegra að þá hrökkvi nógu margir í gírinn til að raunhæft sé að útrýma veirunni úr samfélaginu. Það mun ekki ganga eins vel og síðast, en ef ógnin er sýnileg mun almenningur bregðast við.

Þórdís Kolbrún fór gegn tilraunum stjórnvalda sem hún er hluti af.

Um síðustu mánaðamót reyndu stjórnvöld að kveða hratt niður aðra bylgju, drepa hana í fæðingu, en þær aðgerðir virkuðu illa. Það var ekki hljómgrunnur fyrir þeim enda voru þær loðnar og óskýrar. Það mátti t.d. spila fótbolta en ekki leika Mackbeth. Það hafði líka verið átt við réttlætið sem lá til grundvallar; til hvers átti leikari að vera atvinnulaus í hálft ár ef árangrinum af því var svo fórnað til að hótel gætu selt fleiri gistinætur? Er hægt að ætlast til að allir stefni að sama marki ef ávinningnum er svona illa út deilt? Og svo voru tilskipanirnar um persónubundnar sóttvarnir ekki að ná í gegn. Of fáir skynjuðu hættuna og of fáir trúðu sóttvarnaryfirvöldum.

Myndin af ráðherranum og vinkonum hennar endaði þessar tilraunir. Hittingurinn bjó ekki til nýja bylgju, heldur sló hann af tilraunir yfirvalda til að drepa þessa aðra bylgju faraldursins. Kannski var hún hvort sem er dauð. Kannski er Þórdís Kolbrún frelsishetja eins og Davíð Scheving Thorsteinsson sem neitaði að beygja sig undir bann við sölu á bjór til Íslendinga í fríhöfninni, afhjúpaði tilgangslaus höft stjórnvalda á frelsi einstaklinga. Munurinn er hins vagra auðvitað sá að Davíð tók ekki þátt í að leggja á bannið á sölu bjórs, en Þórdís Kolbrún fór gegn tilraunum stjórnvalda sem hún er hluti af.


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: