- Advertisement -

Bruni, kvóti og blómstrandi fjármálafyrirtæki

- litið til ársins 2007.

„Það er sorglegt að verða vitni að þessu. Hér brenna mikil menningarverðmæti,“ segir Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson þá borgarstjóri í samtali við DV þegar Lækjargata 2 og Austurstræti 22 brunnu illa í stórbruna.

Það eru rétt tíu ár frá þeim atburði. „Það er gott að eiga vel þjálfaða og færa slökkviliðsmenn til þess að takast á við svona neyð,“ sagði borgarstjórinn.

Leiðari DV fyrir réttum áratug.

Kvóti á uppsrengdu verði

Þú gætir haft áhuga á þessum

Ég, Sigurjón M. Egilsson, var þá ritstjóri DV og sagði meðal annars í leiðara, fyrir réttum áratug:

„Verð á þorskkvóta er komið svo fjarri raunveruleikanum að varla tekur tali. Við blasir að sá kvóti sem er keyptur skilar ekki arði fyrr en eftir um tuttugu ár. Þetta er algjör endaleysa og sú staðreynd að kvóti seljist á þessu verði getur ekki annað grafið undan fiskveiðistjórnunarkerfinu. Annað er ekki hægt. Verðgildi kvótans hefur ekkert lengur með arð af veiðum að gera, verðgildi kvótans er það hátt að ekki er nokkur einasta leið að afla tekna fyrir kostnaði. Það er ekki hægt.“

Í leiðaranum var spáð að svo gæti ekki gengið lengur, en: „Hitt er annað og verra að ekki er að heyra að frambjóðendur til Alþingis átti sig á fáránleikanum. Það er einsog það sé í lagi að hægt sé að selja óveiddan fisk á margföldu verði þess sem fæst fyrir fyrsta flokks fisk á markaði. Einar K. Guðfinsson sjávarútvegsráðherra skrifaði í gær: „Þó er það þannig núna að sjávarútvegur okkar hefur aldrei þurft að heyja jafn harða samkeppni hér innan lands og einmitt núna. Nýjar atvinnugreinar hafa komið til skjalanna, sem laða til sín mikið fjármagn. Fjárfestar leita í aðrar áttir til þess að ávaxta fjármuni sína.“ Merkileg orð á sama tíma og vandfundinn er betri ávöxtun en einmitt í kvótabraski. Þeir sem eru nógu djarfir hafa ekki margar betri leiðir til að ávaxta sitt pund en einmitt í kvótakaupum.“

Og þá var spurt, hvað er kvótakerfið:

„Þegar svo er komið að verð á kvóta er svo hátt að ekki er ein einasta leið til að útgerðin standi undir því blasir við sá raunveruleiki að kvótakerfið er ekki lengur fiskveiðistjórnunarkerfi, ekki er mögulegt að hægt sé að standa undir kostnaði af því og þess vegna hefur orðið til einhverskonar hliðarapparat, þar sem kaup og sala á kvóta hefur öðlast gildi þeirra sem versla með peninga og taka áhættu. Kvótakerfið snýst ekki lengur um útgerð og fiskvinnslu. Það snýst um áræðni braskara sem hafa keyrt verðið langt umfram allt sem er eðlilegt.“

„Ég er stoltust af þessum áframhaldandi umbreytingum á efnahagslífinu og atvinnumálunum og síðan hvernig við höfum komið upp fjölbreyttum grunnstoðum í efnahagslífinu,“ segir hún.

Blómstrandi fjármálafyrirtæki

Í DV fyrir réttum áratug er viðtal við Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttir, þá varaformann Sjálfstæðisflokksins. Hún talar þar meðal annars um fjármálamarkaðinn.

„Ég er stoltust af þessum áframhaldandi umbreytingum á efnahagslífinu og atvinnumálunum og síðan hvernig við höfum komið upp fjölbreyttum grunnstoðum í efnahagslífinu,“ segir hún. „Það er ekki verið að stóla alfarið á stóriðju, það er bara brotabrot af því sem við erum að byggja upp. Við erum að sjá hér fjármálaiðnaðinn sem hefur blómstrað og er að skapa okkur álíka tekjur og sjávarútvegurinn. Í framtíðinni mun hann skapa okkur jafnvel meiri tekjur.

Það eru tvær ástæður fyrir því að fjármálafyrirtækin hafa getað blómstrað, annars vegar sú stefna okkar að einkavæða bankana og auka frelsi hér í viðskiptum og hin er að við höfum staðið fyrir stórfelldri menntasókn á sviði háskóla, þar sem við höfum fjölgað háskólanemum úr sjö þúsund í átján þúsund frá árinu 1997. Það hefur gert bönkunum kleift að sækja þá þekkingu sem þeir þurfa á að halda. Auk þess hefur vísindum og rannsóknum fleygt fram. Það er þessi hljóðláta bylting sem sést svo víða,” segir hún og bætir við: „Ég gagnrýni okkur í ríkisstjórninni hins vegar fyrir að hafa ekki rætt þessa breytingu á samfélaginu okkar meira. Við höfum alltof mikið verið að verja stóriðjustefnu í staðinn fyrir að benda á aðra hluti sem við höfum skapað.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: