- Advertisement -

Brynjar vill í stríð við „upphlaupslýð“

Brynjari Níelssyni blöskrar eigið aðgerðarleysi sem og flokksmanna sinna. Hann skrifar ádrepu til sjálfs sín og annarra „borgaralegra“ sinnaðra.

„Held að það sé komið að því að Sjálfstæðisflokkurinn og önnur borgaralega sinnuð öfl hætti í þessu pólitíska orlofi, sem staðið hefur lengur yfir en þolanlegt er. Við þurfum að tala fyrir stefnumálunum og hafa kjark og þor til að viðra skoðanir okkar í stað þess að láta ofstækisfólk og upphlaupslýð ýta okkur út í horn og drepa alla eðlilega umræðu í lýðræðislegu og frjálsu samfélagi með upphrópunum og lögleysu,“ skrifar þingmaðurinn Brynjar.

„Upphlaupsliðið hefur orðið slík heljartök á umræðunni með ofstækinu að hann hefur náð að telja mörgum trú um að að hjá okkur sé allt ómögulegt og það þurfi gagngerar breytingar á samfélaginu. Það grefur kerfisbundið undan mikilvægum stofnunum samfélagsins, svo sem eins og lögreglu, ákæruvaldi og dómsvaldinu, svo ekki sé minnst á Alþingi. Þetta er aðför að lýðræðinu og réttarríkinu, sem sumir halda að hafi alltaf verið til staðar og sé sjálfsagt og óhagganlegt.

Við erum svo miklar luðrur að jafnt og þétt höfum við fært hið pólitíska vald, sem við erum kosin til að sinna, til umboðslauss fólks úti í bæ, helst einhverra sérvitra sérfræðinga sem aldrei hafa farið út á meðal fólks. Eins og stjórnmálamönnum finnist þægilegra að vera lausir við erfiðar ákvarðanir og vilji frekar vera í sýndarmennsku og innihaldslausum yfirboðum og öðrum vinsældarkeppnum.

Við getum ekki lengur bara setið með hendur í skauti og vonað það besta. Þetta er ekki ein af veirunum sem líða hjá og við náum ekki hjarðónæmi. Hjörðin mun elta þessa óværu ef enginn segir neitt og enginn gerir neitt.

ps. Þessi færsla var ekki samin í geðrofi og ekki vegna þess að ritstjórinn komst loks búðaráp eftir langa sóttkví, sem var lífs nauðsynlegt að mati sérfræðinga.“


Tengdar fréttir sem þú gætir haft áhuga á að lesa: