Draumaríkisstjórn Áslaugar Örnu: Sjálfstæðisflokkur, Miðflokkur og Viðreisn
Stjórnmál
„Sjálfstæðisflokkurinn þarf að fara í naflaskoðun og kjörnir fulltrúar hans þurfa að íhuga stöðu sína. Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir ráðherra kvaðst í stjórnmálaspjalli með mér á Vinnustofu Kjarvals síðdegis í gær vera að gera einmitt það, heyra í flokksfólki um land allt og ákveða næstu skref. Að hennar mati þarf að stokka upp allt skipulag flokksins og starfið og hefur ýmsar tillögur í þeim efnum. Hún útilokar ekki framboð til formanns eftir hvatningu þar um, skynjar skýrt ákall um breytingar og á von á harðri baráttu á Landsfundi,“ skrifar Björn Ingi Hrafnsson á Facebook.
„Allt annar veruleiki sé fyrir sjálfstæðismenn að eiga í samstarfi við Svandísi Svavarsdóttur sem formann VG og helst myndi hún vilja sjá ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks, Miðflokks og Viðreisnar eftir næstu kosningar. Slík stjórn gæti ráðist í meiriháttar kerfisbreytingar og náð miklum árangri, enda gæti hún náð saman um skýr pólitísk markmið. Spennandi tímar!“
Það er og. Gott hjá Áslaugu Örnu að nefna komandi átök í flokknum og vilja sinn til forystu í flokknum. Hins vegar er eflaust mörgum brugðið þegar hún nefnir hverskonar ríkisstjórn hún vill sjá. Sjálfstæðisflokk, Miðflokk og Viðreisn. Áslaug Arna vill smala heim þeim sem hafa klofnað frá Sjálfstæðisflokki.